Samgöngur í ógöngum og Mosfellsbær útundan

Á ný­af­stöðnum fundi borg­ar­stjórn­ar Reykja­vík­ur, sem sett­ur var kl. 14 hinn 15. októ­ber sl., var samþykkt, með 12 at­kvæðum gegn 11, sam­komu­lag sem rík­is­stjórn Vinstri grænna, Fram­sókn­ar­flokks­ins og Sjálf­stæðis­flokks­ins gerði við bæj­ar­stjóra Sjálf­stæðis­flokks­ins á höfuðborg­ar­svæðinu og borg­ar­stjóra Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og varðar sam­göngu­mál.
 

Þátta­skil í lofts­lags­mál­um?

Í bók­un­um fund­ar borg­ar­stjórn­ar er ít­rekað minnst á hve mik­il þátta­skil hafa orðið með því að samþykkja þenn­an sátt­mála.  Þessi sátt­máli á víst að leysa lofts­lags­mál fyr­ir Ísland allt.

Það mætti halda að verið væri að fram­kvæma e.k. krafta­verk.  Þar ger­ast guðlaus­ir fyrst trúaðir.  Það er gott ef satt er en eft­ir stend­ur að fram­kvæmd­ir eru ekki hafn­ar og niðurstaða varðandi kostnað, áhættu og ár­ang­ur ligg­ur ekki fyr­ir.

Mos­fells­bær skil­inn útund­an – brot­in lof­orð

Lyk­il­atriði fyr­ir Mos­fell­inga er að Sunda­braut kom­ist í gagnið og losi bæj­ar­fé­lagið sem fyrst und­an um­ferðarþunga sem eykst ár frá ári.  Þó svo að bæj­ar­bú­um í Mos­fells­bæ hafi verið lofað að losna við flösku­háls á Vest­ur­lands­vegi verður eng­inn stokk­ur gerður í gegn­um bæ­inn sem margoft hef­ur verið lofað svo sam­eina megi hverfi hans og auka lífs­gæði bæj­ar­búa.

Bæj­ar­stjór­inn í Mos­fells­bæ, ásamt fá­ein­um sjálf­stæðismönn­um og borg­ar­stjóra Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, ritaði engu að síður und­ir vilja­yf­ir­lýs­ingu árið 2018 þess efn­is að Sunda­braut yrði sleppt.  All­ir í skipu­lags­nefnd bæj­ar­ins, frá ný­lega af­stöðnum fundi þeirr­ar nefnd­ar, fjölluðu um mik­il­vægi lagn­ingu Sunda­braut­ar.

Þegar litið er til borg­ar­línu, eins ágæt og hún kann að vera, mæt­ir þar Mos­fells­bær einnig af­gangi.  Kem­ur þessi lína seint og um síðir í bæ­inn.  Þetta er miður og lýs­ir mátt­leys­inu.  Bæj­ar­stjór­inn hef­ur því miður sýnt linkind.

Sunda­braut mæt­ir af­gangi

Þeir vita það sem neyðast til að sitja í um­ferðarteppu að þar eru al­menn­ings­vagn­ar einnig fast­ir og brenna flest­ir olíu á meðan vinstri­menn og fá­ein­ir villuráfandi sjálf­stæðis­menn, ásamt sýn­is­horni af Fram­sókn reynd­ar, leit­ast við að flækja mál­in.

Á meðan bíðum við öll enn í um­ferðarteppu næstu árin, und­ir álagi og get­um ekki sótt börn­in á rétt­um tíma til að dvelja leng­ur með þeim heima við.

Allt í boði fram­an­greindra snill­inga.  Nú seg­ir meiri­hlut­inn í Mos­fells­bæ, sem og fá­ein­ir aðrir í póli­tískri til­vist­ar­kreppu, að allt þetta sé gert fyr­ir „kom­andi kyn­slóðir“.

Sunda­braut frá 1984

Árið 1984 komst Sunda­braut á aðal­skipu­lag Reykja­vík­ur.  Það var árið þegar lagið „When Do­ves Cry“ með Prince var á toppn­um á Bill­bo­ard-list­an­um og Tina Turner vermdi annað sætið með lag­inu „What's Love Got To Do With It“.

Það var árið 1984 sem Salóme Þor­kels­dótt­ir, fv. þingmaður Mos­fell­inga, sagði eft­ir­far­andi í ræðustól á Alþingi 11. des­em­ber:  „Nú er unnið að svæðaskipu­lagi fyr­ir höfuðborg­ar­svæðið á veg­um Sam­taka sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu sem tek­ur til þró­un­ar þessa svæðis á mörg­um sviðum næstu 20 ár.  Mik­il­vægt er að sam­ræmd áætl­un um al­menn­ings­sam­göng­ur verði hluti af þess­ari stefnu­mót­un.“  Það var þá sem Sunda­braut var hluti af þess­ari sniðmynd.

Árið 1994 var haf­ist handa við að koma lagn­ingu Sunda­braut­ar í far­veg og þá á vakt Sjálf­stæðis­flokks­ins í borg­inni.  Þess­um áform­um hafa vinstri­menn raskað með því að skipu­leggja hverfið Voga­byggð með þeim hætti að úti­loka besta kost­inn við lagn­ingu þessa mik­il­væga sam­göngu­mann­virk­is.  Nú kór­ón­ar for­ysta Sjálf­stæðis­flokks­ins þetta með því að sneiða al­gjör­lega hjá skyn­sem­inni.

Áhættumat ekk­ert í nýj­um áform­um

Á bæj­ar­stjórn­ar­fundi í Mos­fells­bæ 16. októ­ber sl. fór fram fyrri umræða um þetta verk­efni er varðar sam­göngu­bæt­ur á höfuðborg­ar­svæðinu.  Í meðfylgj­andi gögn­um er eng­in skýrsla um áhættumat á fram­kvæmd­um draum­sýn­ar­inn­ar.  Lík­ur eru á að svo hafi einnig verið þegar málið var tekið fyr­ir í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur.

Hvað um fjár­hags­lega áhættu verk­efn­is­ins?  Hvar er grein­ing­in á því?  Þessi stærðargráða, sem hér um ræðir, skipt­ir millj­arðatug­um.  Í raun ætti að geta um þessa áhættu í riti Seðlabanka Íslands varðandi fjár­mála­stöðug­leika enda gætu skulda­bréf bæði rík­is og sveit­ar­fé­laga farið á alla vegu lendi verk­efnið fjár­hags­lega und­ir vatni.

Hvað um fram­kvæmda­áhættu?  Hún er hvergi til­greind þrátt fyr­ir ábend­ing­ar um slíka áhættu og aðra áhættuþætti í grein­um fag­fólks sem tek­ur þátt í op­in­berri umræðu um borg­ar­lín­ur og sam­göng­ur al­mennt.

Van­búið áhættu­samt verk­efni

Mál þetta allt er van­búið, bæði í hend­ur kjör­inna full­trúa og til al­menn­ings.  Því er spurn­ing hvort ekki sé verið að brjóta 10. grein Stjórn­sýslu­laga nr. 37/​1993 varðandi það sem seg­ir í grein­ar­gerð með frum­varp­inu sem síðar varð að fram­an­greind­um lög­um.

Þar seg­ir m.a. um 10. grein: „Í rann­sókn­ar­regl­unni felst m.a. sú skylda stjórn­valds að sjá til þess, að eig­in frum­kvæði, að máls­at­vik stjórn­sýslu­máls séu nægj­an­lega upp­lýst áður en ákvörðun er tek­in í því.“

Því bókaði grein­ar­höf­und­ur ósk sína um að slík áhættu­grein­ing á verk­efn­inu yrði unn­in áður en farið yrði í síðari umræðu.

Þetta mál allt er óvandað og í ógöng­um.

 

Höf­und­ur:  Sveinn Óskar Sigurðsson, bæj­ar­full­trúi Miðflokks­ins í Mos­fells­bæ og 1. vara­for­seti bæj­ar­stjórn­ar Mos­fells­bæj­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 28. október, 2019