Sérstök umræða um skóla án aðgreiningar

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, var málshefjandi að sérstakri umræðu um skóla án aðgreiningar á Alþingi í dag.  Til andsvara var mennta- og menningarmálaráðherra.

Flutningsræða Karls Gauta var eftirfarandi:

"Við áttum okkur ekki alveg fyllilega á því þegar við erum börn hversu mikilvægur skólinn er fyrir framtíðina. Svo var alls ekki um þau orkumiklu börn sem voru að alast upp í Kópavogi þegar ég var krakki, þegar bærinn var á ofurspretti í uppbyggingu og fullorðna fólkið hamaðist við að sjá fyrir sér og sínum. Þarna var barnafjöldinn allsráðandi, síðasta barneignasprengjan að renna sitt skeið. Það er ekki fyrr en löngu síðar sem maður áttaði sig á mikilvægi skólagöngunnar og skildi að mennt er máttur og til lífsfyllingar. Það er í raun óskiljanlegt hvernig kennaranum mínum í barnaskóla, Auði Brynju Sigurðardóttur, tókst að tjónka við okkur krakkana, sem vorum alls ekki auðveld viðureignar, og vekja áhuga okkar á þjóðlegri menningu, sögu, náttúru og fjölmörgu öðru.

Sagt hefur verið að kennari ætti að hafa hámarksáhrif og lágmarksvöld. Kennarar leggja mikilvægan grunn að framtíð barnanna okkar og þannig þjóðfélagsins í heild. Kennarastéttin hefur verið og er vel mönnuð og hefur mörgum afburðakennurum á að skipa. Kennarar í dag eru hlaðnir verkefnum, það eru fundir og skýrslugerðir ásamt oft miklum og erfiðum samskiptum við foreldra, sem skipta sér sífellt meira af innra starfi skólanna en áður. Kennarar leggja sig fram við mjög svo krefjandi aðstæður en eru ekki ofsælir af sínum kjörum.

Annar þáttur í öllu samspil í skólastarfinu eru foreldrarnir. Ég get auðvitað ekki annað en minnst á ábyrgð þeirra, minna á skyldu foreldra að gefa sér tíma með börnum sínum þrátt fyrir mikla starfsannir. Aðstæður í skólakerfinu eru misjafnar og eru í ýmsu tilliti breyttar frá fyrri árum. Þar tala margir um að agaleysi í skólum sé orðið meira og of áberandi. Börnum sem hafa annað tungumál hefur fjölgað mikið og áskoranir með kennslu því orðnar svolítið aðrar en áður var. Við erum því í breyttu umhverfi, herra forseti, en við verðum samt að vera vel vakandi þegar við verðum þess vör að árangur af skólastarfi er á einhvern hátt ekki eins og við viljum helst hafa hann.

Ég hef einmitt áhyggjur af árangrinum. Ég hef sérstakar áhyggjur af því hversu illa íslenskir grunnskólanemendur koma út í samanburði við börn í öðrum löndum. Í stuttu máli má segja að PISA-kannanir, sem mæla getu nemenda í fjölmörgum löndum, komi skelfilega út fyrir Ísland. Samkvæmt þeim eru íslenskir grunnskólanemendur í frjálsu falli í lesskilningi og hafa lækkað þar nær samfellt síðustu 20 árin og eru langt undir meðaltali OECD-landa. Tölurnar eru sláandi, herra forseti.

Sömu sögu er að segja af stærðfræði og náttúrufræði. Árangurinn er að mestu aðeins niður á við og við erum í öllum greinum neðst Norðurlandanna. Þetta eitt og sér á að hringja viðvörunarbjöllum og kveikja rauð ljós í menntakerfinu. Því fagna ég að geta átt orðastað um stefnuna við hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Eðlilegt er að spyrja beint út: Hringja bjöllur í ráðuneyti hæstv. menntamálaráðherra og loga rauð ljós í stofnunum hennar?

Staða íslenskra drengja er háalvarleg. Meira en þriðjungur íslenskra drengja getur ekki lesið sér til gagns eftir grunnskólagöngu og staða þeirra versnar upp skólakerfið. Nú er svo komið að karlar eru rétt þriðjungur þeirra sem útskrifast með meistarapróf úr háskóla og kynjahlutföll í doktorsnámi eru körlum mjög í óhag. Eðlilegt er að spyrja: Hvað er að? Fyrir rúmum tveimur árum efndi ég til sérstakrar umræðu hér á Alþingi um stöðu drengja sem vakti verðskuldaða athygli. Ýmsir hafa sannarlega tekið undir áhyggjur mínar í þeim efnum og hefur mikil umræða skapast um stöðu drengja almennt, en kannski sérstaklega í skólakerfinu. Fyrir liggja órækar tölulegar upplýsingar um að staða drengja í skólum sé að ýmsu leyti fjarri því að vera fullnægjandi. Þær staðreyndir benda til að skólakerfið skorti úrræði til að mæta þörfum drengja þannig að þeir geti notið hæfileika sinna.

Að þessu leyti höfum við ratað í miklar ógöngur og tafarlausra úrbóta er þörf. Viðurkenna verður þennan vanda, ekki aðeins í orði heldur líka í verki. Ýmsir hafa bent á að meðalnemandanum sé ekki nægilega sinnt í skólunum eins og kerfið er byggt upp í dag, þeir verði út undan, gleymist. Allur tíminn fari í erfiðustu nemendurna sem eru mest áberandi í hverjum bekk. Hvað með afburðanemendur? Fá þeir næga athygli og verkefni við hæfi? Hvar liggur vandinn í skólakerfinu? Þarf að leggja meiri áherslu á sérskóla og sérdeildir innan skólanna en nú er gert? Hvar bregðumst við? Þarf frekari sérfræðiaðstoð inn í skólana; sálfræðinga eða talmeinafræðinga? Er ekki sett nægilegt fjármagn inn í kerfið? Er þeim ekki nægilega vel varið? Árangurinn er lélegur. Búum við e.t.v. við stórlega laskað skólakerfi? Er skóli án aðgreiningar einungis hugmyndafræði eða er stefnan í raun framkvæmanleg? Er þessi stefna of dýru verði keypt?"

 

Upptöku af umrlæðum í þingsal má sjá hér