Sjálfstæðisflokkurinn fjármagnar kosningaloforð Samfylkingarinnar

Fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar bauð Samfylkingin, undir forystu borgarstjórans, fyrst og fremst fram á grundvelli tveggja kosningaloforða. Um allan bæ birtust skilti með mynd af borgarstjóranum yfir orðunum „Borgarlína“ eða „Miklubraut í stokk“.

Bent var á að áformin væru í senn óljós og ófjármögnuð. Það sem lá þó fyrir um hina svokölluðu borgarlínu var að hún yrði gífurlega dýr og myndi þrengja að umferð með því að leggja undir sig eina akrein í hvora átt auk miðsvæðis.

Áformin voru ekki trúverðug enda höfðu sömu loforð verið notuð áður í kosningabaráttu án þess að neitt yrði úr því. Frambjóðendur Miðflokks og Sjálfstæðisflokks kröfðust svara en fengu þau ekki. Oddviti sjálfstæðismanna benti á að verið væri að boða 19. aldar samgönguhugmyndir algjörlega úr samhengi við raunveruleika 21. aldarinnar. Hættan á að farið yrði út í verkefnið var þó talin takmarkast af því að borgin gæti ekki með nokkru móti fjármagnað það.

Ríkið lætur skattgreiðendur borga

Nú hafa hins vegar orðið þau ótrúlegu tíðindi að ríkisstjórnin hefur ákveðið að nýta skattfé ríkisins til að borga kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík. En ekki bara það. Til að safna fjármagni svo borgarstjórinn geti framkallað hin langsóttu kosningaloforð sín mun ríkið selja verðmætasta byggingarland Íslands og taka gjald af fólki fyrir að nota vegi höfuðborgarsvæðisins. Vegina sem það er þegar búið að greiða með sköttum og gjöldum (langt umfram það sem nýtt var í vegagerðina).

 

Keldnalandið sem ríkisstjórnin vill nú selja til að fjármagna óútfærða en firnadýra 19. aldar samgönguhugmynd hafði verið nefnt sem kjörinn staður fyrir nýtt 21. aldar þjóðarsjúkrahús. Áður hafði ríkið svo gott sem gefið framtíðarbyggingarland Landspítalans við Vífilsstaði.

Hvað á gjaldið að heita?

Gjöldin sem til stendur að leggja á fólk fyrir að komast á milli staða á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið útfærð. Meiri vinna hefur verið lögð í að finna þeim nafn. Í fyrstu voru þau kölluð tafagjöld. Það þótti hins vegar of lýsandi fyrir eðli gjaldanna enda eru þau til þess ætluð að refsa fólki fyrir að sitja fast í umferðarteppum sem stefna undanfarinna ára hefur skapað. Á tímum ímyndarstjórnmála eru slík réttnefni auðvitað ótæk. Einhver auglýsingamaður lagði þá til að refsigjöldin yrðu kölluð forgangsgjöld. Loks var sæst á að kalla þau flýtigjöld. Hvers vegna gengu menn ekki alla leið og kölluðu þau gleðigjöld?

Svona virkar kerfið

Í allri þessari ímyndarvinnu gættu menn þess að halda þinginu, sem fer með fjárveitingarvaldið, óupplýstu um málið. Ráðherra málafloksins neitaði að mæta á fund samgöngunefndar og að afhenda samningsdrögin.

 

Það er svona sem „kerfið“ fer sínu fram. Það virkar eins og gangverk, tannhjól sem geta bara snúist í aðra áttina. Þegar tekist hefur að fá einhverja stjórnmálamenn til að samþykkja einn áfanga leiðir sá næsti af því og verður óhjákvæmilegur.

Við höfum séð þetta gerast hvað eftir annað. Flestum hefur t.d. lengi verið ljóst að hin gölnu áform um viðbyggingar við ónýt hús Landspítalans við Hringbraut væru óskynsamleg. Eina vitið væri að byggja nýtt sjúkrahús fyrir nýja tíma. Rökin fyrir því að það væri ekki hægt voru iðulega þau að það væri búið að vinna svo lengi að áformunum að það þyrfti að halda áfram á sömu braut, á sömu teinum, á sömu línu. Eitt hafði leitt af öðru frá árinu 1974 og því ekkert við þessu að gera.

Það sama má segja um fjölmörg verkefni sem öðlast eigið líf innan kerfisins. Nýjasta dæmið birtist í orkupökkunum. Ísland samþykkti 1 og 2 og átti þess vegna að samþykkja 3 hvort sem fólki líkaði það betur eða verr. Afleiðingarnar koma svo jafnt og þétt í ljós og eitt leiðir af öðru.

Fyrirvarinn

Í tilviki samgönguáætlunar borgarstjórans hefur ríkisstjórnin borið fyrir sig að fyrirvari hafi verið gerður um samþykki Alþingis. Ekki eru þó mörg ár liðin frá því að fulltrúar ríkis og borgar undirrituðu leynilegan viðauka við samkomulag um athugun á framtíð Reykjavíkurflugvallar. Leyniskjalið var svo dregið fram fyrir dómstólum og leiddi til lokunar neyðarbrautar Reykjavíkurflugvallar án þess að þingið hefði neitt um það að segja.

Hvað er borgarlína?

Fjármálaráðherrann sem skrifaði undir samgönguáætlun borgarstjórnarmeirihlutans virðist hafa eigin hugmyndir um hvað borgarlína þýðir. Sú hugmynd er gjörólík því sem borgarstjórn hefur boðað, unnið að og kynnt í skýrslum. Borgarlínan ber öll merki innviðaverkefnis sem mun reynast eilífðarvandamál, kostnaðurinn verður margfalt meiri en lagt er upp með, árangurinn mun lakari en gert er ráð fyrir og rekstrarkostnaðurinn eilífðarvandamál fyrir skattgreiðendur.

 

Það nægir að líta til reynslu annarra þjóða af sambærilegum verkefnum. Kostnaður hefur undantekningalaust farið úr böndunum og þau ekki skilað tilætluðum árangri. Við getum líka litið til fyrri áforma og fyrirheita hér á Íslandi.

Árið 2011 féllst ríkisstjórnin á hið sérkennilega tilboð borgaryfirvalda um að ráðist yrði í framkvæmdastopp í samgöngumálum í Reykjavík gegn því að ríkið greiddi milljarð króna á ári í niðurgreiðslu almenningssamgangna (strætó) í borginni. Útskýrt var að með því mætti tvöfalda hlutfall þeirra sem nýttu sér strætisvagna. Þegar verkefnið, ef verkefni skyldi kalla, hófst var hlutfallið 4%. Nú, nærri átta árum seinna, er það 4% (ferðamenn meðtaldir).

Þannig verður því farið með borgarlínuna svokölluðu. Gallarnir við hugmyndina eru fleiri en svigrúm er til að nefna í þessari grein. Það blasir þó við hverjum skynsömum manni að þótt kostnaðurinn verði mun meiri en lagt er upp með verði árangurinn það ekki. Um leið mun borgarlínan þrengja að annarri umferð enda leikurinn m.a. til þess gerður.

Samþykki þingið áformin mun það þó halda áfram hvað sem kemur í ljós í millitíðinni. Fleira fólk verður ráðið í verkefnið, fleiri einstaklingar og stofnanir munu hafa hag af því að það haldi áfram og kerfisræðið mun ráða för. Haldið verður áfram á sömu braut, á sömu teinum á sömu línu.

Opinbert fasteignafélag

Ein af afleiðingum áætlunar borgarstjórans, sem ríkisstjórnin ætlar að fjármagna, er stofnun nýs opinbers fyrirtækis. Ríkið og sveitarfélög ætla að búa til opinbert fasteignafélag til að braska með lóðir í Keldnaholti. Fáist ekki eins mikið fyrir lóðirnar og væntingar standa til mun ríkið hlaupa í skarðið. Þarna verður til enn eitt ríkið í ríkinu. Apparat sem mun ekki lúta stjórn kjósenda heldur vinna með kerfinu að markmiðum þess.

Byggt á gömlum syndum

Kosturinn við þetta allt saman á víst að vera sá að með því verði samgönguframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu flýtt. Þegar betur er að gáð felur það hins vegar ekki í sér neina markverða viðbót við það sem þegar var stefnt að í samgönguáætlun að frátalinni borgarlínunni sem mun soga til sín megnið af fjármagninu sem kemur úr ríkissjóði, fasteignabraskinu og nýju gjaldtökunni.

 

Í auglýsingastofukynningunum kemur þó fram að með áformunum verði verkefni sem hefðu tekið 50 ár á núverandi framkvæmdahraða kláruð á 15 árum. Þetta er ósvífin staðhæfing í ljósi þess að tímabilið sem notað var til viðmiðunar var að mestu leyti sá tími þegar í gildi var „framkvæmdastopp“. Hvers vegna völdu þau ekki styttra tímabil þegar ekkert var að gerast og sögðu að á 15 árum yrðu kláruð verkefni sem ella hefðu tekið 200 ár. Líklega hafa auglýsingamennirnir talið það of langt gengið.

 „Góðu fréttirnar“

Loks er útskýrt að ástæðulaust sé að hafa áhyggjur af því að íbúum höfuðborgarsvæðisins verði mismunað með því að greiða eina ferðina enn fyrir samgöngubæturnar sem þeir eru þegar búnir að fjármagna og hafa beðið lengi eftir. Það fylgir nefnilega sögunni að þeir sem ferðast um vegi landsbyggðarinnar verði einnig beittir refsigjöldum. Þar höfum við það. Enginn mun komast undan Dagsskipun kerfisins.

 

Höfundur:  Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 28. september, 2019