Skerðingar á skerðingar ofan

Óhætt mun að full­yrða að víðtæk samstaða rík­ir í land­inu um nauðsyn þess að strengja ör­ygg­is­net und­ir þá sem höll­um fæti standa.  Al­manna­trygg­ing­um er ætlað að gegna þessu hlut­verki og eiga þær langa og merka sögu.  Eng­um bland­ast hug­ur um að aðgerðir til að rétta hlut bág­staddra þurfa að vera mark­viss­ar svo þær gagn­ist sem best.  Þar ligg­ur nauðsyn­in á að tak­marka eða skerða greiðslur til þeirra sem ekki verða tald­ir þurfa þeirra með.  Skerðing­ar á bót­um al­manna­trygg­inga hafa hins veg­ar reynst fara fram úr öllu hófi.

Dæm­in blasa við.  Skerðing­ar bóta al­manna­trygg­inga vegna at­vinnu­tekna hefjast við krón­ur 100 þús. á mánuði.  Sam­an­lögð skerðing og skatt­lagn­ing tekna á tekju­bil­inu 25 þús. til 570 þús. króna get­ur numið yfir 90%.  Með þessu er fólki gert nán­ast ókleift að bæta hag sinn með auk­inni vinnu í krafti sjálfs­bjarg­ar­viðleitni sem hverj­um manni er eðlis­læg.  Níu krón­ur af hverj­um tíu eru hirt­ar af fólki.

Fjár­magn­s­tekj­ur hafa um­tals­verð áhrif á greiðslur frá TR.  Sölu­and­virði fast­eigna, þar á meðal sum­ar­húsa, reikn­ast sem fjár­magn­s­tekj­ur sem skerða bæt­ur.  Sama á við um leigu­tekj­ur ef fólk er í aðstöðu til að leigja út frá sér til að drýgja tekj­ur sín­ar.  Langt er seilst gagn­vart fólki með því að reikna sölu­and­virði fast­eigna, t.d. ef fólk kýs að selja sum­ar­bú­stað fjöl­skyld­unn­ar, og leigu­tekj­ur skil­yrðis­laust til skerðing­ar á líf­eyri.  Fyr­ir þessu finna eldri borg­ar­ar og ör­yrkj­ar sem vilja bæta lífsaf­komu sína með því að minnka við sig í hús­næði með því að selja eða leigja út frá sér. Fólki eru nán­ast all­ar bjarg­ir bannaðar.

Bæt­ur al­manna­trygg­inga skulu breyt­ast ár­lega í sam­ræmi við fjár­lög hverju sinni.  Seg­ir í lög­um um al­manna­trygg­ing­ar að ákvörðun þeirra skuli taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag sam­kvæmt vísi­tölu neyslu­verðs.  Meg­in­regl­an er skýr: Taka ber mið af launaþróun.  Þessi hef­ur samt ekki verið raun­in mörg und­an­far­in ár.  Bæt­ur hafa hækkað mun minna en sem nem­ur launaþróun.  Í þessu felst skipu­leg og mark­viss skerðing á kjör­um þeirra sem njóta eiga bóta al­manna­trygg­inga.  Þær hafa ekki haldið í við al­menna kjaraþróun í land­inu eins og hún mæl­ist í launa­breyt­ing­um.

Þá eru ótald­ar skerðing­ar sem hjón búa við sem nema um eitt hundrað þúsund krón­um á mánuði.  Við hjóna­skilnað myndi hag­ur hvors um sig batna um sem næst 50 þúsund krón­um á mánuði.  Þetta skerðing­aroffors geng­ur svo langt að skjóti ein­stak­ling­ur skjóls­húsi yfir ætt­ingja sem þá yrði skráður á heim­ili hans miss­ir hann bæt­ur sem svara til um 50 þúsund króna á mánuði.  Að síðustu eru bæt­ur TR skert­ar veru­lega á móti greiðslum úr líf­eyr­is­sjóði þannig að fólk nýt­ur ekki sem skyldi þeirra iðgjalda sem það hef­ur staðið skil á á starfsævi sinni.

 

Höf­und­ur: Ólaf­ur Ísleifs­son, þingmaður Miðflokksins

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 18. október, 2019