Skógrækt gegn loftslagsvandanum

Ég var spurður að því um daginn hvað hægt væri að gera í þessum loftslagsmálum án þess að setja alla á hausinn. Jú, þar hittir þú á réttan mann sagði ég, við Miðflokksmenn reynum einmitt að nálgast þennan málaflokk með það að markmiði að finna skynsamar lausnir. Ein sú helsta felst í skógrækt. Í raun ættu allir að fagna þessari lausn því hún nýtist okkur einstaklega vel. Bæði er það að Ísland hefur nánast enga skóga og svo hitt að þekkingu á bindingu réttra plantna hefur fleygt fram og meðal okkar góðu náttúruvísindamanna er til mikill áhugi á þessu máli. Vilji er allt sem þarf.

Skógar á landinu binda nú um 400 þúsund tonn af koldíoxíð árlega. Skortur er á skógum en 95% skóglendis hér á landi hefur verið eytt og um 40% jarðvegs á Íslandi hafa eyðst. Í dag er svo komið að innan við 1% landsins eru þakið ræktuðum skógi. Áætlanir hafa verið um að ræktaðir og náttúrulegir skógar geti þakið um 4% landsins árið 2040. Að mati okkar í Miðflokknum má bæta verulega í, bæði til að standa við loftslagsmarkmið okkar og koma okkur undan sektum vegna þess að við náum þeim ekki.

Það er engin spurning að eins og aðstæður eru í dag þá er lang ódýrast að nýta sér skógrækt til bindingar koltvísýrings þó að það taki nokkur ár eftir útplöntun að skila sér. Ég er ekki að gera lítið úr öðrum verkefnum eins og Carbfix verkefninu, en skógrækt er margfalt ódýrari og þekktari aðferð til bindingar. Auk þess skapar hún mörg störf en nýleg innlend rannsókn á mannaflaþörf í skógrækt leiddi í ljós að 20,6 ársverk sköpuðust vegna hverrar einnar milljónar gróðursettra plantna.

Ráðast þarf í stórátak

Allir sjá að skógrækt er öflug aðgerð til að binda koldíoxíð úr andrúmslofti og var viðurkennd mótvægisaðgerð strax með Kyotobókunni en því miður hafa íslensk stjórnvöld verið lengi að taka við sér. Við megum engan tíma missa og verðum að rækta nýjan skóg sem byrjar strax að vaxa og binda CO2 (í trjám, öðrum gróðri og jarðvegi). Ég tel að norðvesturhluti landsins sé kjörinn staður til skógræktar og þá sérstaklega Snæfellsnesið og Borgarfjörðurinn.

Könnun sem Gallup gerði fyrir Skógræktina, Skógræktarfélag Íslands og Landssamtök skógareigenda sýndi mjög jákvætt viðhorf landsmanna til skógræktar. Langflestir Íslendingar telja að skógrækt hafi jákvæð áhrif á landið og telja mikilvægt að binda kolefni með skógrækt.

Athyglisvert er að í könnuninni kom fram að ungir Íslendingar eru jákvæðastir fyrir skógrækt og 55 ára og eldri telja skógrækt mikilvægasta fyrir kolefnisbindingu. Ef marka má þessa könnun er mikill og vaxandi stuðningur meðal landsmanna við að rækta skóg til að binda kolefni og hamla þannig gegn loftslagsbreytingum. Jafnframt telja Íslendingar að skógrækt hafi jákvæð áhrif á landið. Það er líka skoðun okkar Miðflokksmanna.

 

Sigurður Páll Jónsson alþingismaður Miðflokksins.

Höfundur skipar 2. sætið á lista Miðflokksins í NV kjördæmi

Greinin birtist í Skessuhorni þann 17. september, 2021