Skýrslubeiðni um uppgang skipulagðrar glæpastarfsemi

Karl Gauti Hjaltason tók þátt í störfum þingsins í dag og vakti þar athygli á beiðni sinni, sem lögð var fram í gær, um að dómsmálaráðherra gefi skýrslu til þingsins um viðbrögð við uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi, sem Karl Gauti lagði fram ásamt þingflokki Miðflokksins.  Með skýrslubeiðninni er óskað eftir að ráðherra flytji Alþingi skýrslu um aðgerðir sem ráðist hefur verið í og til stendur að ráðast í til að vinna gegn uppgangi skipulagðrar glæpastarfsemi eftir ábendingar í skýrslum greiningardeildar ríkislögreglustjóra 2015 og 2017 og 2019.

Þar er óskað eftir að skýrslan taki til eftirfarandi þátta:

Hvort lögð verði áhersla á að fjölga lögreglumönnum sem rannsaka skipulagða glæpastarfsemi, hvort aukin áhersla hafi verið lögð á farþegalistagreiningar við landamæraeftirlit, hvort rannsóknarúrræði lögreglu hafi verið rýmkuð eða þeim fjölgað eftir ábendingar í skýrslunum. Þá er óskað eftir samanburði á rannsóknarúrræðum lögreglu hér á landi við úrræði lögreglu annars staðar á Norðurlöndum. Óskað er eftir upplýsingum um hvort standi til að auðvelda brottvísanir erlendra aðra sem verða uppvísir að afbrotum sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi. Þá er óskað eftir upplýsingum um hvernig og hvort frumkvæðislöggæsla lögreglu við afbrotavarnir hafi verið efld, m.a. með fjölgun almennra lögreglumanna, hvort gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir að þeir sem leita alþjóðlegrar verndar á Íslandi kunni, sökum bágrar félagsstöðu, að sæta misnotkun og kúgunum af ýmsum toga, svo sem mansali, eða hvaða aðgerðir eru áformaðar til að vinna gegn slíku, og hvort gripið hafi verið til aðgerða til að koma í veg fyrir að glæpasamtök misnoti opinbera þjónustu og kerfi sem lið í skipulagðri starfsemi þeirra.

Í skýrslum greiningardeildar er tekið fram að lögreglan telur að henni sé ekki stætt á að halda uppi ásættanlegri frumkvæðislöggæslu vegna fjárskorts, manneklu og aukins álags. Lögreglan sé undirmönnuð og brýnt sé að fjölga lögreglumönnum. Greiningardeildin telur skipulagða glæpastarfsemi alvarlegustu ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi að náttúruhamförum frátöldum. Í skýrslunni kemur fram að geta íslensku lögreglunnar til að sporna við skipulagðri glæpastarfsemi sé lítil.

Karl Gauti lauk ræðu sinni á að segja að standa þyrfti með lögreglunni, hlusta á hana og búa henni þau tæki sem þarf til að hún sé sem best í stakk búin til að tryggja öryggi borgaranna.

Ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér