Staða stóriðjunnar - Sérstök umræða

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, var málshefjandi í sérstökum umræðum um stöðu stóriðjunnar á Alþingi í dag. 

Til andsvara var ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.

Helstu áherslur og spurningar málshefjanda eru:

Staða stóriðjunnar á Íslandi í alþjóðlegu samhengi, staða raforkumála og afstaða stjórnvalda til framtíðaráforma um frekari uppbyggingu.

  • Hverjar telur ráðherra vera helstu ógnir við samkeppnisstöðu stóriðju á Íslandi í alþjóðlegu samhengi og hvaða leiðir telur ráðherra vænlegastar til að bæta samkeppisstöðu þeirra félaga sem hér starfa?
  • Telur ráðherra það vera til bóta í umhverfislegu tilliti leggist stjóriðjustarfsemi niður hér á landi?
  • Hefur ráðherra áhyggjur af þeim takmörkunum á frekari orkuvinnslu sem birtast í frumvörpum ríkisstjórnarinnar um rammaáætlun, hálendisþjóðgarð og tengd mál?
  • Getur ráðherra upplýst um stöðu samninga á milli álversins í Straumsvík og Landsvirkjunar, sem virtust vera á réttri leið undir lok síðasta árs, en hefur verið hljótt um síðan?
  • Hverja telur ráðherra vera helstu ástæðu þess að ekki hefur verið ráðist í virðisaukandi fjárfestingar hjá Norðuráli á Grundartanga, til samræmis við yfirlýstan vilja fyrirtækisins?

Bergþór Ólason:

"Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstvirtum ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir að eiga orðastað við mig í þessari sérstöku umræðu um stöðu stóriðjunnar. Það hefur varla farið fram hjá neinum sú óvissa sem mörg þeirra fyrirtækja sem skilgreind eru sem stóriðjufyrirtæki eða orkufrekur iðnaður hafa búið við undanfarin misseri. Heimsmarkaðsverð hefur leikið sum þeirra grátt og óvissa sem snýr að endurnýjun raforkusamninga hefur gert öðrum erfitt fyrir. Heimsmarkaðsverðið höfum við lítil áhrif á en aðra þætti höfum við áhrif á, svo sem raforkusamninga, endurnýjun þeirra eða viðbætur, dreifingarkostnað og almennt regluumhverfi starfseminnar. Mér hefur þótt sá tónn sem mætir þessum burðarfyrirtækjum á hverju svæði vera æði neikvæður um langa hríð. Hópar sem margir hverjir hafa lítinn skilning á verðmætasköpun hafa gengið fram með þeim hætti að augljóst er að þeir vilja fyrirtækin, hið minnsta sum þeirra, í burt. Þar tel ég að stjórnvöld verði að gæta þess vel að bæta ekki í. Auðvitað er hinum ýmsu félagasamtökum og einstaklingum frjálst að hafa allt á hornum sér gagnvart þessum mikilvægustu orkukaupendum landsins. En þegar skilaboð stjórnvalda virðast á löngum köflum vera þau að stuðningur við slíka starfsemi sé horfinn þá versnar í því.

Ef við förum hringinn í kringum landið og byrjum í Norðvesturkjördæmi þar sem við höfum járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og Norðurál, færum okkur svo yfir í Norðausturkjördæmi þar sem við höfum PCC á Bakka og Fjarðarál, og svo áfram yfir í Kragann þar sem við höfum álverið í Straumsvík, má öllum vera ljóst hvers lags kjarnafyrirtæki þetta eru á hverju svæði, bæði þau sjálf og síðan öll þau afleiddu störf sem starfseminni fylgja á hverjum stað. Þau eru jafnframt ófá framúrskarandi fyrirtækin sem hafa orðið til í tengslum við að þjónusta þessi mikilvægu fyrirtæki. Blikur hafa verið á lofti um langa hríð hvað sum þessara mikilvægu fyrirtækja varðar. Niðurstaða íbúakosningar í Hafnarfirði var verulegt áfall hvað rekstrarskilyrði álversins í Straumsvík varðar. Þróun á heimsmarkaðsverði hefur haft verulega neikvæð áhrif á PCC á Bakka þó að nú standi vonir til að starfsemi geti hafist þar aftur.

Undanfarið hafa þó mestar fréttir borist af því að fyrirtækin kveinki sér undan uppfærðum raforkusölusamningum. Ekki ætla ég að standa hér og halda því fram að raforka skuli afhent fyrirtækjunum á útsöluprís en ýmislegt sem skilar sér til fjölmiðla, og þá hefur maður eftir föngum reynt að sigta út strategísk samningaútspil beggja aðila, bendir til þess að með heldur ákveðnum hætti sé gengið fram hvað það varðar að ná fram verðhækkunum í raforkusölusamningum eða viðhalda ósjálfbæru verði. Ég hef verið þeirrar skoðunar að okkar mesta framlag til loftslagsmála á heimsvísu hafi verið framleiðsla á umhverfisvænasta áli í heimi. Ég fullyrði að ekki er til grænna ál í heiminum en það sem er framleitt hér á landi með endurnýjanlegri orku.

Í þessu samhengi langar mig til að rifja upp orð forstjóra Landsvirkjunar í Morgunblaðinu undir áramót þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Það vill reyndar oft brenna við, þegar bent er á endurnýjanlega, umhverfisvæna raforkuvinnslu að menn láta eins og það skipti litlu máli því sú orka sé nýtt í mengandi starfsemi. Álverin eru þá gjarnan nefnd til sögunnar, en staðreyndin er sú að þau eru með hvað lægsta kolefnisfótspor álfyrirtækja í heiminum. Ef Ísland hættir að framleiða ál og sú framleiðsla færist til Kína þar sem raforka er að mestu unnin með kolum, mun losun í heiminum aukast um 10 milljón tonn af koltvísýringi árlega. Það er meira en tvöföldun núverandi heildarlosun Íslands“.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig það horfir við ráðherranum út frá umhverfislegum sjónarmiðum heltist álver eins og það sem starfar í Straumsvík úr lestinni og framleiðslan færist til landa þar sem orkan er framleidd með óumhverfisvænni hætti, svo sem með kolabruna. Sem sagt: Telur ráðherra það vera til bóta í umhverfislegu tilliti leggist stóriðjustarfsemi niður hér á landi?

Til viðbótar þessu langar mig að heyra sjónarmið hæstv. ráðherra varðandi það hverjar ráðherrann telur vera helstu ógnir við samkeppnisstöðu stóriðju á Íslandi í alþjóðlegu samhengi og hvaða leiðir ráðherrann telur vænlegastar til að bæta samkeppnisstöðu þeirra félaga sem hér starfa. Og hefur ráðherrann áhyggjur af þeim takmörkunum á frekari orkuvinnslu sem birtast í málum ríkisstjórnarinnar um rammaáætlun og hálendisþjóðgarð sem umhverfisráðherra hefur nú lagt fram hér á þinginu? Og getur ráðherra upplýst um stöðu samninga á milli álversins í Straumsvík og Landsvirkjunar sem virtust vera á réttri leið undir lok síðasta árs en hefur verið hljótt um síðan?

Að endingu: Hverjar telur ráðherra vera helstu ástæður þess að ekki hefur verið ráðist í virðisaukandi fjárfestingar hjá Norðuráli á Grundartanga til samræmis við yfirlýstan vilja fyrirtækisins?"

Hér má sjá umræðuna um málið á Alþingi í dag