Stenst afgreiðsla leghálssýna lög um persónuvernd?

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, í störfum þingsins:

"Ástæða þess að tekin var ákvörðun um að greina sýni frá leghálsi á rannsóknastofu í Danmörku var sögð vera sú að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar. Allflestir sérfræðingar hafa tjáð sig á þann hátt að þeir dragi í efa þá staðhæfingu. Engir sérfræðingar utan tveggja hafa talið það nauðsynlegt. Allt hefur gengið á afturfótunum vægast sagt. Nú síðast hefur komið í ljós að rannsóknir á leghálssýnum eru útboðsskyldar en engin útboðsvinna var eða er í gangi. Nú eru dæmi þess að konur bíði enn eftir niðurstöðu, konur sem fóru í sýnatöku fyrir mörgum mánuðum. Það tekur á að bíða og það í marga mánuði í fullkominni óvissu. Það er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sem ber ábyrgð á þessu klúðri. Ekki er hægt að kalla allt þetta ferli annað en klúður.

Ég hef óskað eftir því að velferðarnefnd fái álit frá Persónuvernd um hvort þessi afgreiðsla Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins standist lög um persónuvernd. Það getur varla verið eðlileg afgreiðsla að senda sýni til útlanda án þess að upplýsa þann sem gefur sýnið um það. Það eina sem við konur biðjum um er að þjónustan tryggi öryggi, gæði og mannvirðingu."

Ræðu Önnu Kolbrúnar í þingsal má sjá hér