Stöndum vörð og sækjum fram

Mikilvægustu þjóðfélagsmálin hafa verið látin sitja á hakanum síðustu þrjú misserin. Umræðan hefur snúist um veirur, sóttvarnir og bólusetningar. Ríkisstjórnin treystir á skammtímaminni landsmanna og að hún njóti umbunar fyrir að okkar færustu sérfræðingum tókst vel með sóttvarnir og í baráttunni við veiruna.

Ráðherrar ferðast um landið með loforðalistana og ausa fé úr ríkissjóði sem er þó þurrausinn eftir faraldurinn. Skuldadagarnir eru handan við hornið. Vinstri flokkarnir hafa yfirlýsta stefnu um að úr vandanum mætti komast með því að auka skattlagningu og fjölga opinberum starfsmönnum.

Miðflokkurinn vill minnka ríkiskerfið, einfalda það og lækka skatta svo hjól atvinnulífsins geti snúist af fullu afli. Ryðja þarf þeim steinum úr vegi sem hindra öfluga atvinnusköpun.

Á liðnu kjörtímabili tók þingheimur afstöðu til þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Ráðgjafar ríkisstjórnarinnar höfðu bent á að tiltekin ákvæði í regluverkinu gætu brotið í bága við stjórnarskrá Íslands. Þeir höfðu einnig bent á að með lögfestingunni gætu erlendir aðilar haft a.m.k. óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og hagnýtingu orkuauðlinda landsins. Miðflokknum tókst ekki að fá þingheim til að svo mikið sem íhuga að leggja þessi atriði í pakkanum fyrir sameiginlegu EES-nefndina að nýju. Það skipti engu máli í hugum meirihluta þingheims þótt í EES-samningnum sé ákvæði einmitt um það að mál gætu farið þangað að nýju.

Svona á svo sannarlega ekki að standa vörð um stjórnarskrá lýðveldisins. Áfram skal haldið á braut óvissu um fullveldi okkar og varðstöðu um auðlindirnar ekki sinnt. Þjónkun við regluverk EB er allsráðandi.

Stofnanavæðing hálendisins er trúarbrögðum líkust. Ekkert er hlustað á sveitarfélögin, bændur eða ferðaþjónustuna. Miðstýringaráráttan er allsráðandi. Friðunarglaður ráðherrann mætir ekki nokkurs staðar nema lýsa yfir friðun alls þess sem fyrir augu ber, bæði laust og jarðfast.

Heilbrigðiskerfið er að verða að óskapnaði. Sovétið er mætt og ríkisrekstur er kjörorð dagsins. Biðlistar og rándýrar utanstefnur sjúklinga og sýna eru helstu verkefnin. Innlendum aðilum er ekki treystandi, sér í lagi ef ríkisstimpillinn er ekki á launaseðli þeirra. Sveitarfélögin eru látin greiða hallarekstur hjúkrunarheimila og flýja nú óviðunandi aðstæður sem ríkisvaldið skapaði og viðheldur í rekstri þeirra. Spítalaþjónusta úti á landi heyrir nánast sögunni til og öllum landsmönnum er stefnt til höfuðborgarinnar ef þeir þurfa á henni að halda. Sjúklingar þurfa að fara í löng og erfið ferðalög. Kostnaðurinn við þetta fyrirkomulag er ómældur og sjaldnast er tekið með í reikninginn öll fyrirhöfnin, vinnutapið og tíminn sem fer í súginn, ekki síst fyrir aðstandendur.

 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

kgauti@althingi.is

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 13. júlí, 2021