Þær eru kaldar kveðjur Ásmundar Einars Daðasonar, ráðherra barnaog menntamála, til kvenna á Íslandi þessi dægrin. Hann hefur nú lagt til að leggja niður Kvennaskólann í Reykjavík og binda þar með enda á 150 ára sögu skólans. Það voru konur sem stofnuðu skólann á sínum tíma – konur sem ekki fengu inni í Lærða skólanum (nú Menntaskólanum í Reykjavík) og gripu til sinna ráða. Konur sem mátu menntun mikils og skildu að hún væri grundvöllur betra lífs og sjálfstæðis. Skólinn ruddi brautina í menntun kvenna og starfar enn í dag við góðan orðstír og er eftirsóttur af nemendum þessa lands ár hvert. Ráðherranum virðist standa á sama um þetta allt og telur viðeigandi að loka einfaldlega dyrunum.
Þetta eru í raun ótrúleg skilaboð ráðherrans og Framsóknarflokksins til kvenna – þeirra saga skiptir ekki máli og má slaufa með einu pennastriki. Engar fleiri ungar konur skulu fá möguleika á því að setja mark sitt á þessa 150 ára sögu Kvennaskólans. Það má vona að af þessu verði ekki og ráðherrann verði hrakinn til baka með þessa tillögu sína. Það er auðvelt að tala og þykjast styðja sögu og réttindi kvenna en annað að standa við það og velja leiðir við völd sem endurspegla þá afstöðu.
Þessi sami ráðherra lét þetta ekki nægja heldur hefur hann verið önnum kafinn við að lofa nýjum þjóðarleikvangi, með pomp og prakt. Svo kom fjármálaáætlun ríkisstjórnar hans og þar var hvergi minnst á eina krónu í nýjan þjóðarleikvang. Ráðherrann hefur ekki látið ná í sig síðan, mætir ekki í fyrirspurnatíma í þinginu enda erfitt að horfast í augu við eigið innihaldsleysi.
Framsóknarflokkurinn lætur ekki staðar numið þar heldur lætur til sín taka víðar. Nú í höfuðborginni þar sem einörð áætlun þeirra um að afmá Reykjavíkurflugvöll verður æ augljósari. Nýr oddviti flokksins í borginni lagðist flatur fyrir Degi B. Eggertssyni og hans áætlunum hvað varðar útrýmingu vallarins.
Innviðaráðherra Framsóknarflokksins lætur borgarstjórann svo raðplata sig þegar kemur að málefnum Reykjavíkurflugvallar. Honum er það ómögulegt að verja hagsmuni þjóðarinnar í þessu og bognar við hvert orð frá Degi B. Með þessu er ráðherrann auðvitað að koma í veg fyrir að landsmenn geti komist hratt og örugglega milli landshluta, sótt heilbrigðisþjónustu með tryggum hætti og svo mætti lengi telja.
Kötturinn í sögu Lewis Carrols um Lísu í Undralandi sagði eitthvað á þá leið að ef þú veist ekki hvert þú ert að fara, þá liggja allar leiðir þangað. Þetta, því miður, lýsir stefnuleysi og stjórnleysi þeirra sem fara með völd hjá ríki og borg nú um stundir. En það verður hægt að breyta um fólk í brúnni í næstu kosningum og velja fólk til leiks sem stýrist af sannfæringu og veit hvert það ætlar. Þá munar um Miðflokkinn.
Bergþór Ólason, alþingismaður.
Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 1. maí, 2023.