Sundabraut á nýrri öld

Engum dylst að meiri­hlutinn í Reykja­vík telur sig hafa hag af því að skapa ó­vissu um fram­tíð Sunda­brautar og nú­verandi ríkis­stjórn virðist eiga í vand­ræðum með að fast­setja verk­efnið. Það er ó­þolandi staða fyrir lands­menn en fáar fram­kvæmdir eru mikil­vægari. Fyrir því eru margar á­stæður eins og við þing­menn Mið­flokksins höfum verið að reyna að vekja at­hygli á að undan­förnu. Það er því miður á­stæða til að óttast að hönnunar­vinna dragist á langinn og verk­efnið tefjist. Nú eru þrjú ár síðan bæjar­stjórn Akra­ness skoraði á Reykja­víkur­borg og ríkið að hefja án tafar undir­búning að lagningu Sunda­brautar.

Sunda­braut er búin að vera inni á aðal­skipu­lagi Reykja­víkur­borgar frá árinu 1984 og um mikil­vægi fram­kvæmdarinnar þarf ekki að deila. Fyrst er að líta til þess hve gríðar­leg sam­göngu­bót Sunda­braut er en hún hefur í för með sér um­tals­verða styttingu til og frá höfuð­borginni fyrir þá sem sækja norður og vestur. Á­vinningurinn af því að stytta þá leið er veru­legur, bæði í tíma, peningum, um­ferðar­öryggi og þegar kemur að mengun. Af öllu þessu verður mikill þjóð­hags­legur sparnaður.

Meira en bara sam­göngu­bót

En Sunda­braut mun líka hafa veru­leg á­hrif á byggða­þróun höfuð­borgar­svæðisins sem aug­ljós­lega þarf að huga að því að náttúran setur fram­kvæmdum til suðurs og vesturs frá höfuð­borginni tak­mörk. Það er líka á­stæða til að horfa til þeirra sóknar­færa sem Sunda­braut skapar þegar til verður verð­mætt byggingar­land með fram allri leiðinni, álag minnkar á Vestur­lands­vegi og ný tæki­færi opnast til upp­byggingar milli Reykja­víkur og Mos­fells­bæjar og allt upp á Kjalar­nes. Við á Vestur­landi sjáum fyrir okkur að brautin geti skapað gríðar­leg tæki­færi með því að tengja þétt­býlis­svæðin á Akra­nesi og Borgar­nesi og at­vinnu­svæðið á Grundar­tanga við höfuð­borgar­svæðið sem þarf á land­rými að halda.

Er­lendis hafa verk­efni af þessu tagi verið hugsuð heild­stætt þannig að sam­göngu­bótin haldist í hendur við byggða­upp­byggingu sem nýtist bæði at­vinnu­lífi og ein­stak­lingum. Fyrir nokkrum árum var greint frá því að fjár­­fest­ar hefðu leitað upp­­­lýs­inga hjá Vega­­gerðinni og sam­göngu­ráðu­neyt­inu um Sunda­braut með það í huga að leggja braut­ina gegn end­ur­­greiðslu. At­hug­an­ir þess­ar hafa ekki leitt til frek­ari samn­inga­við­ræðna enn sem komið er en lík­lega yrði vanda­laust að fjár­magna fram­kvæmdina þegar og ef ráðist er í verk­efnið.

 

Höfundar:

Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson, þingmenn Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 1. júní, 2021