Sýklalyfjanotkun, neytendur og Alþingi

Hinn 15. maí sl. mælti undirritaður fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um matvæli, nr 93/1995 með síðari breytingum (sýklalyfjanotkun).

https://www.althingi.is/altext/149/s/1189.html.

Markmið frumvarpsins er að bæta miðlun upplýsinga um sýklalyfjanotkun við framleiðslu matvæla til neytenda. Sýklalyfjaónæmi sem m.a. má rekja til of mikillar notkunar á lyfjum í matvælaframleiðslu er ein helsta heilsufarsógn mannkyns og lýsti forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) því yfir 20. september 2017 að neyðarástand væri að skapast í meðhöndlun sjúklinga vegna sýklalyfjaónæmis.

Í skýrslu sem birt var árið 2016 í Bretlandi um aðgerðir gegn sýklalyfjaónæmum bakteríum kemur fram að um 700.000 manns láti lífið á hverju ári af völdum slíkra baktería. (Sjá fylgiskjöl með frumvarpi.)

Íslenskir sérfræðingar, m.a. dr. Karl G. Kristinsson, hafa lýst þungum áhyggjum af þessari þróun og talið mikilvægt að þjóðin sé upplýst um þessa hættu.

Á dagskrá Alþingis er frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að opna fyrir innflutning á fersku ófrosnu kjöti o.fl. Verði það samþykkt er nauðsynlegt að neytendur séu upplýstir um þá áhættu sem fylgir fyrir heilsu manna og dýra.

Þrátt fyrir að málið hafi batnað í meðferð þingsins og nokkrar mótvægisaðgerðir séu boðaðar er ljóst að ef ekki verður breyting á er vafasamt að þær muni virka nógu vel og nógu hratt enda margar hverjar ekki fjármagnaðar eða of skammur tími til að koma þeim í framkvæmd. Í ljósi þess hvað er í húfi er eðlileg krafa að þessar aðgerðir séu útfærðar, tímasettar og fjármagnaðar áður en lögin taka gildi.

Fleiri fljótlegar leiðir en frumvarp Miðflokksins geta bætt upplýsingar til neytenda. Í dag á að merkja ákveðin matvæli með upprunalandi. Einhver misbrestur er á því og er merkingin þannig að leita þarf að henni. Skylda ætti framleiðendur/söluaðila til að merkja með skýrari hætti, t.d. nota rautt letur á gulum grunni og af ákveðinni lágmarksstærð.

Þá fjölgar hratt þeim neytendum sem velja vörur eftir því hvert umhverfisspor þeirra er og er nýlegt framtak íslenskra grænmetisbænda, að kolefnisjafna flutninginn á sínum vörum, lofsvert. Skylda ætti framleiðendur/seljendur til að merkja vörur sínar með upplýsingum um t.d. kolefnisspor vörunnar og framleiðsluaðstæður.

Minni ég á að varaþingmaður Miðflokksins, Þorgrímur Sigmundsson, mælti 28. febrúar 2019 fyrir þingsályktunartillögu um kolefnismerkingar kjötvara. https://www.althingi.is/altext/149/s/0306.html.

Þá má hugsa sér að neytendur geti séð á pakkningum hvort varan er framleidd í verksmiðjubúi eða á fjölskyldubúi og þannig tekið tillit til annarra þátta sem varða uppruna vörunnar.

Allt þetta og meira til er hægt að gera ef viljinn er fyrir hendi.

 

Birtist í Morgunblaðinu 8. júní 2019.