Þegar menntunarfólkið fellir sig

Þegar menntunarfólkið fellir sig

Mánudagur, 12. ágúst 2024
 

Mennta­málaráðherra, hin ný­stofnaða Miðstöð mennt­un­ar og skólaþjón­ustu og helstu form­legu tals­menn kenn­ara og skóla­stjórn­enda hafa ekki átt góðar vik­ur und­an­farið. Umræða um stöðu mála í grunn­skól­um lands­ins er þannig vax­in að eng­inn ætti að unna sér hvíld­ar fyrr en til betri veg­ar horf­ir.

Það má segja að þrennt hafi dregið þessa mik­il­vægu umræðu um mennta­mál upp á yf­ir­borðið; viðtal við Jón Pét­ur Zimsen, aðstoðarskóla­stjóra Rétt­ar­holts­skóla í Dag­mál­um Morg­un­blaðsins 3. júlí, þar sagði hann ís­lenskt sam­fé­lag standa frami fyr­ir ham­förum þegar kem­ur að mennt­un barna, um­sögn Viðskiptaráðs um áform mennta­málaráðherra um breyt­ingu á lög­um um náms­mat 22. júlí (sam­ræmdu próf­in) og svo umræða um skýrslu Tryggva Hjalta­son­ar um stöðu drengja í mennta­kerf­inu, sem kynnt var í júní.

Viðbrögðin voru að mörgu leyti jafn sorg­leg og þau voru fyr­ir­sjá­an­leg. Sér­stak­lega gagn­vart um­sögn Viðskiptaráðs og skýrslu Tryggva Hjalta­son­ar. Í báðum til­fell­um mætti hjörðin og hra­kyrt­ist út í að þarna væru aðilar að tjá sig sem væru ekki sér­fræðing­ar í mála­flokkn­um og því lítið mark á þeim tak­andi.

Hjörðin lagði senni­lega ekki í að gagn­rýna orð Jóns Pét­urs Zimsen, enda þar á ferðinni maður með yf­ir­burðaþekk­ingu á mála­flokkn­um. En stefið var slegið: það skulu ekki aðrir en sér­fræðing­ar tjá sig um mennt­un barna og ung­linga.

En hvernig hef­ur sér­fræðing­un­um gengið? Að því er virðist álíka vel und­an­farið og þeim sem sáu um burðarþolið í Brákar­borg! Mun­ur­inn er sá að Brákar­borg var rýmd. Börn­in send annað og haf­in leit að rót vand­ans og von­andi út­færslu not­hæfr­ar lausn­ar í fram­hald­inu.

Grunn­skóla­börn­in, sem geta ekki lesið sér til gagns og hafa þekk­ingu sem er und­ir því sem við ætl­umst til í öðrum mats­hlut­um PISA-út­tekt­ar­inn­ar, hafa hins veg­ar fengið af­hent stutta stráið frá stjórn­völd­um og þeim sveit­ar­fé­lög­um sem hegg­ur nærri að stundi vöru­svik á köfl­um, enda greiða for­eldr­ar barna sama út­svar hvar sem börn þeirra sækja grunn­skóla.

Gæti ekki orðið til gagns að birta niður­stöður PISA-kann­ana, þó ekki væri til ann­ars en að veita for­eldr­um verk­færi til að meta þá þjón­ustu sem þeir borga fyr­ir með út­svari sínu? Veita börn­un­um tæki­færi til þess að njóta betri mennt­un­ar þegar rétt­ir hvat­ar hafa verið inn­leidd­ir gagn­vart þeim sem skól­un­um stýra?

Ef eitt­hvað er raun­veru­lega viðkvæmt hvað birt­ingu varðar, nú þá finna menn leið til að tak­ast á við þau til­teknu atriði en loka ekki á alla birt­ingu upp­lýs­inga eins og nú er gert.

Ein­hend­um okk­ur nú í að nálg­ast mennt­un barn­anna okk­ar út frá hags­mun­um þeirra sjálfra, en ekki kerf­is­ins, þannig að þau hafi til að bera hæfni að afloknu grunn­skóla­námi sem ger­ir þeim kleift að vera virk­ir þegn­ar í sam­fé­lag­inu. Þau eiga það skilið frá okk­ur sem eldri erum.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is