Þjóðaröryggisstefna

Bergþór Ólason tók þátt í störfum þingsins á Alþingi í vikunni og fjallaði þar um þjóðaröryggisstefnu.

Herra forseti. Á forsíðu Fréttablaðsins í morgun var fjallað um utanríkismál og þar var m.a. komið inn á það að í stefnu Vinstri grænna, flokks forsætisráðherra Íslands og formanns þjóðaröryggisráðs, hafi frá stofnun verið lögð áhersla á að hér sé hvorki innlendur né erlendur her, að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga og segja sig úr NATO. Haft er eftir hæstv. forsætisráðherra: „Stefna Vinstri grænna hefur ekki breyst.“ Síðan segir hæstv. forsætisráðherra: „Við virðum hins vegar þá þjóðaröryggisstefnu sem samþykkt var á Alþingi árið 2017 með yfirgnæfandi stuðningi, en aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu er ein af stoðum hennar.“

Ég rifjaði upp tillögu til þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem lögð var fram af þáverandi utanríkisráðherra, Gunnari Braga Sveinssyni, í nóvember 2015. Þar greiddu 42 þingmenn tillögunni atkvæði sitt en sex sátu hjá og þar á meðal núverandi formaður þjóðaröryggisráðs. En af því að nú er því haldið fram að Vinstri grænir standi bak við þjóðaröryggisstefnuna eins og hún liggur fyrir þá langar mig sérstaklega að rifja upp að það er sérstök bókun við þingsályktunina sem er grundvöllur þjóðaröryggisstefnunnar. Á fylgiskjali 4 er bókun fulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu, sem var grundvöllur þjóðaröryggisstefnunnar. Þar segir, þegar búið er að fara yfir málið holt og bolt: Fulltrúar VG í nefndinni standa því ekki að þeim tillögum nefndarinnar er lúta að og/eða leiða af aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Undir þetta skrifa núverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, og núverandi sendiherra Íslands í Moskvu, Árni Þór Sigurðsson, bæði þáverandi þingmenn.

Herra forseti. Er þetta einhvers lags pólitískur ómöguleiki sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir núna? (Forseti hringir.) Það er auðvitað ómöguleg staða fyrir hæstv. forsætisráðherra og formann þjóðaröryggisnefndar að tala fyrir máli sem blasir við að flokkur hennar er svo einlæglega á móti.