Þjóðarsjóður í skugga skattheimtu

Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp í annað sinn um að stofna þurfi þjóðarsjóð til þess að vera einskonar áfallavörn fyrir þjóðarbúið ef á þurfi að halda í framtíðinni.  Nota á arð úr fyrirtækjum landsmanna á næstu árum til að leggja í sjóðinn.  Ætlunin er að þegar mest og best verði þá standi sjóðurinn í 3-400 milljörðum króna. 

Er skynsemi fólgin í því að stofna þjóðarsjóð þegar þjóðin skuldar fleiri hundruð milljarða?

Vegakerfið komið að þolmörkum

Á sama tíma berast af því fréttir að þeir fjármunir sem lagðir voru til á núverandi fjárhagsári hafi ekki dugað LHS og því þurfi að skera niður.  Heilbrigðiskerfið er fjársvelt og hefur verið um alltof langt skeið.  Það vantar ekki bara innspýtingu í mannvirki, tæki og tól heldur þarf einnig að endurskoða kjarasamninga við heilbrigðisstéttina.

Læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar eru að niðurlotum komnir og geta ekki lengur staðið vaktina undir öllu því álagi sem starfinu fylgir. Vegakerfið er löngu komið að þolmörkum hins skynsamlega niðurskurðar og orðið hættulegt á stórum köflum. Svo ég tali nú ekki um kjör eldri borgara og öryrkja sem þarf að stórbæta.

Húsið lekur og gluggarnir ónýtir

Hverjum dettur í hug að spara peninga ef vera kynni að einhverntímann í framtíðinni gæti eitthvað hræðilegt gerst en á meðan á söfnuninni stendur lekur húsið því þakið og gluggarnir eru ónýtir?

Ætlum við að leggja til hliðar fjármuni á meðan við stóraukum skattheimtu heimilanna með ýmiskonar gjöldum og sköttum svo sem vegtollum? Ætlum við að liggja með 3-400 milljarða inn á bankareikning á meðan fólkið okkar týnir lífi vegna fjársveltis í geðheilbrigðismálum?

Forgangsröðum betur

Við þurfum að forgangsraða betur en raun ber vitni um, það getur ekki orðið forgangsatriði að leggja fjármuni til hliðar þegar við skerum niður hjá sjúkum og veikum. Við þurfum oftar að setjast niður og hugsa hvað myndi góður, skynsamur og grandvar maður (bonus pater familias) gera.

 

Höfundur:  Hallfríður Hólmgrímsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 26. október, 2019