Þjóðkirkjan á villigötum

 
Kast­ljósið hef­ur fallið á þjóðkirkj­una síðustu daga vegna aug­lýs­ing­ar sem beint er að börn­um sem taka þátt í starfi á veg­um kirkj­unn­ar. Illa grunduð teikn­ing af Jesú með brjóst, kinnafarða og varalit hef­ur sært marga. Þetta á ekki síður við út­skýr­ing­ar starfs­manns Bisk­ups­stofu, ónota­orð sem eru and­stæð bæn­inni sem Jesús kenndi okk­ur, að helga Guðs nafn. Orð sem leiða börn og full­orðna í villu. Auk þess særði það fólk að segja að þjóðkirkj­an væri stolt af mynd­efn­inu. Rangt er að setja son Guðs í þessa mynd sem birt­ist í aug­lýs­ing­unni og slík­ur gern­ing­ur kall­ar ekki á velþókn­un af neinu tagi. Gern­ing­ur­inn er and­stæður þriðja boðorðinu um að leggja ekki nafn Drott­ins Guðs þíns við hé­góma. Í Biblí­unni er Guð kallaður faðir. Krist­ur er karl­maður, son­ur­inn einn. Hann er ekki eitt­hvað annað en hann er. María mey er kona, móðir Krists. Eng­in dæmi eru um að reynt hafi verið að breyta því né ve­fengja. Krist­ur þekk­ir sér­hverja þrá og sorg kon­unn­ar. Hann stóð með kon­um og varði þær. Felldi tár, var áhyggju­full­ur, von­svik­inn en einnig full­ur bjart­sýni og gleði. Hann er frels­ari mann­kyns­ins.
 

Krists­mynd­inni breytt

Jesús Krist­ur er í gær og í dag hinn sami og um ald­ir (Hebr. 13.8). Jesús er kallaður brúðgum­inn og hin tákn­ræna brúður hans er kirkj­an. Þjóðkirkj­an hef­ur hvorki til­efni né leyfi til að breyta krists­mynd­inni og sneiða hjá karl­kyni Krists í þarf­lausri aug­lýs­inga­mennsku.

Með fram­göngu sinni brýt­ur þjóðkirkj­an gegn hinni heil­næmu kenn­ingu og daðrar við óvirðing­ar­um­mæli um Guð. Í öðru Þessalón­íku­bréfi í Biblí­unni er lögð áhersla á að halda fast við kenn­ing­arn­ar. Þar seg­ir: Bræður, standið því stöðugir og haldið fast við þær kenn­ing­ar, er vér höf­um flutt yður munn­lega eða með bréfi. Áður­nefnd mynd hef­ur nú verið fjar­lægð af vef kirkj­unn­ar en ráðgert er að hún birt­ist næstu þrjár vik­ur á strætó. Kirkjuþingi þykir miður að mynd­in hafi sært fólk. En kirkj­an get­ur ekki verið hálf­volg í þessu máli. Fjar­lægja á mynd­efnið með öllu, biðjast af­sök­un­ar og til­kynna breyt­ing­ar. Mis­ráðin her­ferð kirkj­unn­ar vek­ur spurn­ing­ar um á hvaða leið hún er.

Kirkj­an veg­ur að sjálfri sér

Íslend­ing­ar eru krist­in þjóð. Miðflokk­ur­inn hef­ur á Alþingi staðið fast að baki þjóðkirkj­unni. Þing­menn flokks­ins hafa varið kirkjuj­arðasam­komu­lagið og viðbót­ar­samn­inga, sem eru kirkj­unni mik­il­væg­ir. Þing­menn Miðflokks­ins hafa varið hana fyr­ir öfl­um á þingi sem vilja rýra hana og skaða. Þing­menn­irn­ir hafa varið þá vernd sem þjóðkirkj­unni er veitt í stjórn­ar­skrá lýðveld­is­ins Íslands. Miðflokk­ur­inn hef­ur bar­ist fyr­ir kristn­um gild­um, þar á meðal lífs­vernd ófæddra barna í móðurkviði. Þetta mun Miðflokk­ur­inn áfram gera en þá kröfu hlýt­ur að verða að gera til kirkj­unn­ar að hún vegi ekki að sjálfri sér. Hún van­v­irði ekki ímynd frels­ar­ans Jesú Krists. Þjóðkirkj­an á að vera kirkja allra lands­manna og hún á að beina kröft­um sín­um að hlut­verki sínu, sem er boðun fagnaðar­er­ind­is­ins og lög­máls­ins.

 

Birgir Þórarinsson,  þingmaður Miðflokks­ins og með BA-próf í guðfræði.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 21. september, 2020