Frá Miðflokknum
Þingflokkur Miðflokksins fer fram á að Alþingi verði kallað saman eigi síðar en mánudaginn 28. desember.
Í ljósi þeirrar óvissu sem nú er uppi varðandi komu bóluefna vegna COVID-19 hingað til lands er nauðsynlegt að þingheimur fái tækifæri til að ræða málið við ríkisstjórnina. Undanfarna daga hafa birst mjög misvísandi upplýsingar um þá samninga sem gerðir hafa verið og ekki síður hvernig bólusetningu verður háttað. Þar vegast upplýsingaóreiða og ráðaleysi stjórnvalda á.
Ríkisstjórnin verður sem fyrst að veita áreiðanlegar og nákvæmar upplýsingar um hver raunveruleg staða er á samningum um virk og nothæf bóluefni og hvernig bólusetning þjóðarinnar mun ganga fyrir sig og hvenær þess er að vænta að þjóðlíf geti færst í hefðbundið ástand.
Ríkisstjórnin verður að gefa skýringar á því hvort öll úrræði þ.m.t. aðkoma einkafyrirtækja að útvegun bóluefnis hafa verið nýtt.
Hagur almennings og þá sérstaklega aldraðra og þeirra sem eru í áhættuhópum er í húfi, réttur fólks til upplýsinga er mikilvægur, og landsmenn verða að fá áreiðanlegar upplýsingar um hvenær hjarðónæmi verður náð.
.