Tryggjum öruggt og barnvænt umhverfi

Miðflokkurinn leggur áherslu á að tryggja að fjölskyldur landsins geti búið við öruggt og barnvænt umhverfi. Umhverfi þar sem allir einstaklingar geti hafist til þroska og búið um leið við öryggi og áhyggjuleysi. Þetta kann að virðast sjálfsagt og við erum sem samfélag stöðugt að setja okkur markmið þar um og skrifa undir hástemmdar yfirlýsingar og samninga sem eiga að tryggja rétt barna og unglinga. En því miður steðja margar hættur að og foreldrar eiga oft í mestu vandræðum með að vernda og styðja við börn sín samfara öðrum áskorunum sem umhverfið leggur á þau, svo sem þegar kemur að vinnu, íbúðakaupum og almennt að tryggja efnahagslega velferð fjölskyldunnar. 

Öruggt og barnvænt umhverfi getur falist í mörgu. Meðal annars því að tryggja að fólk geti gengið óáreitt um götur og átt heilbrigð samskipti við annað fólk án þess að óttast um öryggi sitt. Að börnin geti alist upp í heilbrigðu umhverfi. Við sjáum víða blikur á lofti. Skýrslur greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um ört vaxandi umsvif skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi eru þannig sláandi og gefa vísbendingu um að það sem við teljum bundið við erlend borgarhverfi geti allt eins gerst hér. Það er óskiljanlegt að þær hafi ekki vakið meiri athygli en raun ber vitni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki hvað síst Miðflokksins, til að efna til umræðu um innihaldið. Í störfum mínum sem lögfræðingur sem hef helgað mig, málefnum barna og ungmenna, verð ég vör við vaxandi umsvif erlendra glæpagengja við innflutning og sölu fíkniefna, misnotkun hælisleitendakerfisins, mansal og margt annað sem við getum ekki sætt okkur við að viðgangist (og aukist) í íslensku samfélagi. Þessi þróun kallar á skjót viðbrögð, við verðum að standa vörð um börnin og ungmennin okkar.

Við höfum talað fyrir því að auka öryggi borgaranna og tryggja þannig umfram annað velferð barna og unglinga. Því höfum við í Miðflokknum lagt áherslu á það að setja á fót sérstaka löggæsludeild til að takast á við brotastarfsemi og auka um leið öryggisgæslu í öllum hverfum borgarinnar. Slík deild gæti þannig orðið að öflugu liði með nægan mannafla, tækjabúnað, þekkingu, tækni, úrræði, samstarf við sams konar lögreglu í nágrannalöndunum og annað sem þarf til að takast á við þessa miklu ógn. Þetta er dæmi um verkefni sem mun spara miklu meira fyrir samfélagið en það kostar og tryggir um leið að ef hætta steðjar að borgurum þá geti þeir fengið aðstoð strax. Það þekkir fólk í Grafarvoginum að það er óþægilegt að bíða eftir að hjálp berist á staðinn. Svo ekki sé minnst á þau verðmæti sem felast í því að tryggja öryggi og forða sem flestum frá fíkniefnaneyslu og annarri ánauð. Þannig teljum við að eigi að standa að málum til að tryggja öruggt og barnvænt umhverfi.

 

Vilborg Þóranna Bergmann Kristjánsdóttir er lögfræðingur og sáttamiðlari og skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi Alþingiskosningum.