Umhverfismál og stefna Miðflokksins

Miðflokkurinn er umhverfissinnaður flokkur, en hann er það ekki á sama hátt og flestir hinna flokkanna. Við leitumst við að benda á raunhæfar lausnir í þessum málaflokki sem öðrum.

Urða eða brenna sorpið?

Greinarhöfundur hefur þrisvar lagt fram tillögu fyrir Alþingi um að hér verði reist hátæknivædd sorpbrennslustöð, án þess að ríkisstjórnarflokkarnir eða yfirleitt neinir aðrir hafi tekið undir þá tillögu. Þess í stað höldum við áfram að urða sorpið sem veldur því að frá urðunarstöðunum streymir metan sem er 20-50 sinnum meira mengandi en koltvísýringur fyrir loftslag jarðar. Nú síðustu ár hefur útflutningur á sorpi stóraukist með tilheyrandi mengun vegna flutninga. Sorpbrennslur í Evrópu hafa tekið upp háþróaða tækni til brennslunnar og mengun frá þeim er minni en frá urðun og framleiðir að auki orku, bæði rafmagn og varmaorku.

Skógur til kolefnisbindingar

Skógur er í raun kolefnisforðabúr. Öflugar trjátegundir geta bundið geysimikið magn kolefnis. Hér á landi er komin reynsla á að ösp og greni vaxa hér ágætlega. Fyrir hrun voru Íslendingar að planta 6 milljónum trjáplantna árlega. Fljótlega minnkaði gróðursetningin niður í um 3 milljónir plantna. Þrátt fyrir að þessi tala hafi lítið hækkað síðustu 13 ár stærir ríkistjórnin sig af því að vera umhverfisvænusta ríkisstjórn frá upphafi vega. Áherslan hefur verið á sjálfsáningu birkis. Birkiskógar eru fallegir, en nýtast lítt til kolefnisbindingar. Birkikjarr, sem algengt er víða um land, bindur t.d. ekki nema 0,5 til 1 tonn á hektara af CO2 á ári meðan lúpína bindur allt að fimm tonn á sama svæði. Til samanburðar geta öflugustu aspartegundirnar bundið yfir 25 tonn á hektara á ári hér á landi. Tækifærin eru augljós en við höfumst ekki að. Skógrækt gæti þess vegna bundið alla okkar losun og til þess þyrfti ekki nema 2% landsins, til að jafna kolefnisbúskap landsmanna, ef réttar trjátegundir yrðu notaðar. Þetta á við alla losun, ekki aðeins bifreiðar, heldur einnig skipin, flugið og stóriðjuna.

Orkan fyrir orkuskiptin

Ríkisstjórnin hugðist útiloka möguleika okkar á frekari nýtingu á grænni orku á miðhálendinu, en Miðflokknum tókst að koma í veg fyrir það. Á sama tíma er rætt um nauðsyn orkuskipta í samgöngum, í bílaflotanum, helst líka flugvélunum og jafnvel skipunum eða að minnsta kosti þeirra sem liggja við höfn. Fer þetta saman eða hvaðan á að taka þá orku sem orkuskiptin útheimta? Á kannski að loka stóriðjuverunum hér á landi?

Nýtum tækifærin hér

Hér á landi höfum við fjölmörg tækifæri til að virkja græna orku, bæði í fallvötnum og jarðhita svo ekki sé talað um aðra möguleika. Jarðarbúar eru allir undir sama lofthjúpnum og við Íslendingar getum lagt þar gott til með því að leggja til okkar grænu orku svo ekki þurfi að nota kol eða olíu annars staðar á jarðarkringlunni til stóriðju eða annara nota. Mengandi verksmiðjur í Asíu hafa áhrif á ástand lofthjúpsins um allan hnöttinn. Við getum ekki skilað auðu þegar kemur að sameiginlegum baráttumálum mannkyns við hættulega þróun í umhverfismálum.

 

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins og oddviti í Suðvesturkjördæmi

kgauti@althingi.is

Greinin birtist í Kópavogs- og Garðapóstinum þann 21. september, 2021