Útvegun bóluefnis og staða bólusetninga

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson beindi fyrirspurn um bóluefni og útvegun bóluefna til forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag:

"Stjórnvöld hafa eftirlátið sérfræðingum að stýra sóttvörnum. Það hefur gefið mjög góða raun og er ástæða til að fylgja áfram þeirri stefnu að fylgja leiðsögn þess fólks sem hefur náð árangri á sviði sóttvarna hér á Íslandi. Því er hins vegar öðruvísi farið hvað varðar bóluefni og útvegun bóluefna sem er hápólitískt mál, eins og við sjáum af fréttum og höfum reyndar gert síðustu misseri.  Á því sviði þurfa stjórnvöld að beita sér og því spyr ég hæstvirtan forsætisráðherra:

Hvað er að frétta af tilraunum til að afla bóluefnis utan við samkomulagið sem gert var við ESB?

Þetta var til umræðu hér ekki alls fyrir löngu og hæstv. ráðherra upplýsti þá um að vinnan héldi áfram. En hvað er að frétta af þessari vinnu við að afla bóluefnis fram hjá samkomulaginu við ESB? Þetta var fyrri spurningin.

Sú seinni tengist líka bólusetningu en hún snýr að því hvort hæstv. ráðherra geti ekki farið að gefa okkur einhverja hugmynd um hvað taki við þegar ákveðnum áföngum er náð varðandi bólusetningu. Nú hefur danski forsætisráðherrann t.d. tilkynnt að þar verði opnað þegar búið verður að bólusetja þá sem eru eldri en 50 ára og styttist í að þeir geti náð því í Danmörku.

Hvað ætla íslensk stjórnvöld að gera þegar tilteknum áfanga er náð, t.d. þeim áfanga að búið verði að bólusetja þá sem eru eldri en 50 ára á Íslandi?"

Upptaka af fyrirspurn Sigmundar Davíðs og svar ráðherra má sjá hér