Velferðarsamfélag

Velferðarsamfélag er orð sem mikið er notað. En hvað þýðir það? Það þýðir, að mínu mati, að allir þegnar samfélagsins sitji við sama borð og njóti jafnt allrar þjónustu sem í boði er hverju sinni.


Ég var svo heppin að verða boðið að sitja, fyrir Miðflokkinn, í Velferðarráði Akureyrarbæjar og það opnaði virkilega augu mín fyrir öllu góðu hlutunum sem verið er að gera í samfélaginu okkar. Það er margt í boði til að aðstoða fólk og ég og eflaust margir aðrir hafa ekki hugmynd um allt sem gert er. Það er jú oftast þannig að við heyrum bara það neikvæða að ekkert sé verið að gera. Það er oftast ekki rétt þó svo að vissulega megi alltaf gera betur.


Velferð fólks hefur alltaf verið mér hugleikin og þá sér í lagi hjá þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Stundum er það nú svo að fólk vill ekki sjá og ekki viðurkenna vanda samfélagsins og nefni ég þar vímuefnavanda sem er, því miður, vaxandi hjá ungu fólki. Þegar fólk vil snúa baki við fyrra lífi og bæta sig verðum við að geta boðið hjálp því við viljum jú að sem flestum eða öllum líði sem best. En þá þarf að viðurkenna vandann og byggja samfélagið okkar þannig að fólkið okkar geti verið hér áfram. Þá er ég að hugsa um áfangaheimili sem að er í bígerð hér á Akureyri og því ber að fagna. Það hefur þó tekið of langan tíma. Þegar það kemst á laggirnar getum við tekið á móti fólkinu okkar úr vímuefnameðferðum og stutt við bakið á því í heimabyggð því að það er svo dýrmætt að geta hjálpað unga fólkinu okkar. Allir þurfa að eiga heimili en það er ákveðinn hópur sem á ekki heimili en er með húsaskjól hjá vinum og vandamönnum. Þessum vanda þarf að bregðast við og hef ég fulla trú að ef allir leggjast á árarnar muni það takast innan tíðar.


Búsetusvið er að gera góða hluti einnig, en það er alltaf þörf fyrir fleiri búsetuúrræði og þar vantar aukna fjármuni. Heimaþjónusta og fleiri úrræði heyra undir þetta svið og er það mín upplifun að það er heilmikið í boði fyrir fólk þar. Búsetumál fatlaðs fólks heyra undir sviðið og hefur búseta fatlaðs fólks breyst með árunum sem er vel.


Öldrunarþjónusta Akureyrar er að standa sig vel. Þar er endalaust hugsað í lausnum og nýjungum. Það væri nú áhugavert fyrir sem flesta að kynna sér þá þjónustu sem þar er og sem miðar að því að fólk haldi virðingu sinni og sjálfstæði. Vitaskuld kemur stundum fram gagnrýni og eftir henni verður að hlusta og bregðast við.


Einn er sá málaflokkur sem ég heillast mikið af er aðstoð við börn og foreldra sem á því þurfa að halda. Stuðningsfjölskyldur er eitt af úrræðunum sem í boði er.


Þegar námskeið fyrir stuðningsfjölskyldur var auglýst ákvað fjölskylda mín og ég að sækja slíkt námskeið. Við töldum að með því gætum við lagt samfélaginu okkar lið. Skemmst er frá því að segja að eftir námskeiðið fengum við leyfi til að starfa sem stuðningsfjölskylda. Nú erum við helgarstuðningsfjölskylda


Dætur okkar sem eru fluttar að heiman og búnar að stofna sínar fjölskyldur koma þessar helgar og taka þátt í heilmiklu lífi og fjöri. Þetta hefur sko aldeilis auðgað líf okkar og fyllt heimili og hjörtu okkar af gleði og þakklæti að geta látið gott af okkur leiða í samfélaginu og hjálpað til. Eina helgi í mánuði trítla litlir fætur um húsið og leikum við okkur saman förum í útivist og ýmislegt fleira.. Öll fjölskyldan er þáttakandi í þessu. Foreldrar sem fá þennan stuðning þurfa svo sannarlega á þessu að halda og sumir eiga ekkert bakland og þá er nú gott að geta hjálpað bæði börnum og foreldrum. Ég vil því hvetja alla sem hafa tök á að skoða þennan kost samfélagsþjónustu.

 

Sigrún Elva Briem, fulltrúi Miðflokksins í Velferðarráði Akureyrar. 

Greinin birtist á Vikudagur.is 15. september, 2019.