Verðbólga af mannavöldum

Þorsteinn Sæmundsson tók til máls í störfum þingsins í dag og bar þar upp vangaveltur sínar um verðbólguna:

"Herra forseti. Það eru vonbrigði að Seðlabanki Íslands hafi hækkað meðalvexti sína í morgun, en í raun og veru er bankinn hugsanlega nauðbeygður til þess arna vegna hárrar verðbólgu. Þessi verðbólga er af mannavöldum. Hv. þingmaður, sem hér talaði á undan mér, átti mjög góða ræðu í gær þar sem hann skammaði kollega sína í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir það að húsnæðisverð rýkur upp úr öllu valdi vegna þess að framboðið er ónóg. Þeir sem bera ábyrgð á því að framboðið er ónóg eru fyrst og fremst flokksfélagar hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar ásamt meðreiðarsveinum sem tekið hafa þann pól í hæðina að gera samkomulag við auðmenn um að byggja upp á dýrustu svæðum í Reykjavík þannig að ungt fólk, sem hv. þingmaður hefur skiljanlega áhyggjur af, getur ekki keypt sér íbúðir hér á höfuðborgarsvæðinu.  En ég er glaður yfir því að hann hafi brýnt félaga sína til dáða í gær og aftur nú af því að þarna liggur hundurinn grafinn að hluta.

Að þessu sinni er ekki við krónuna að sakast. Hún er búin að styrkjast verulega síðan í janúar þannig að þeim sem versla með innfluttar vörur er engin vorkunn að lækka þær. Það er mjög eftirtektarvert, herra forseti, að sú mynt sem er kannski þrjóskust við að lækka er breska sterlingspundið. Breskum efnahag hefur verið spáð bráðum dauðdaga undanfarið eftir að þeir losnuðu úr ofbeldissambandinu um síðustu áramót. Krónan hefur hins vegar styrkst um u.þ.b. 5% síðan í janúar að meðaltali og mönnum er engin vorkunn að láta þá lækkun koma fram í vöruverði og kveða þessa verðbólgu niður. Ég óttast hins vegar að þessi tímabundna hækkun Seðlabankans verði sprek á bálið, því miður."

Ræðu Þorsteins í þingsal má sjá hér