Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni um verndun og varðveislu skipa og báta.
Með tillögunni er mennta- og menningarmálaráðherra falið að skipa starfshóp sem geri úttekt á því hvernig staðið er að verndun og varðveislu skipa og báta og geri tillögur að úrbótum. Starfshópurinn taki m.a. saman yfirlit yfir skip og báta sem hafa menningarlegt og atvinnusögulegt gildi, óháð aldri, og endurskoði aldursmörk skipa og báta samkvæmt lögum um menningarminjar, nr. 80/2012. Í starfshópnum eigi sæti fulltrúar frá félagasamtökum er sinna verndun skipa og báta, fulltrúar frá greinum sjávarútvegsins og fulltrúar héraðssafna auk fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Þjóðminjasafns Íslands og Minjastofnunar Íslands. Starfshópnum verði jafnframt falið að finna fjárstreymis- eða fjáröflunarleiðir til verkefnisins og móta reglur um meðhöndlun fjármagnsins. Starfshópurinn skili úttekt sinni og tillögum til mennta- og menningarmálaráðherra innan árs frá samþykkt tillögu þessarar. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.
Hérlendis hafa verið smíðuð fjölmörg skip og bátar. Mikilvægt er að viðhalda þekkingu á smíði gamalla báta og skipa, enn fremur hefur það menntunargildi. Þannig væri hægt að nýta gömul skip við fræðslu ungmenna og nýta uppgerð skip til kennslu. Þá hafa fjölmörg samtök og áhugafélög tekið að sér að viðhalda skipum og bátum og má telja að án aðstoðar þeirra hefði skipum og bátum, sem í eru fólgin menningarverðmæti og arfleifð handverks, verið eytt. Að mati flutningsmanna er mikilvægt að veita þessum samtökum stuðning.
Tilgangur tillögu þessarar er að gera úttekt á því hvernig staðið hefur verið að verndun og varðveislu skipa og báta, m.a. með hliðsjón af lögum um menningarminjar, auk þess að taka saman yfirlit yfir skip og báta sem talin eru hafa menningarlegt og atvinnusögulegt gildi, óháð aldri, í þeim tilgangi að fá heildarmynd af stöðunni. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að starfshópurinn geri tillögur að úrbótum.
Mikilvægt er að starfshópurinn hafi til hliðsjónar hvort tilefni sé til að verndun skipa og báta sem hafa varðveislugildi verði sambærileg og verndun byggingararfs. Jafnframt skoði starfshópurinn hvort falla eigi frá því að miða aldursmörk við ártal, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um menningarminjar, og þess í stað verði frekar miðað við aldur.
Málið gengur nú til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér.
Flutningsmaður: Sigurður Páll Jónsson
Meðflutningsmenn: Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Karl Gauti Hjaltason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þorsteinn Sæmundsson.
Flutningsræðu Sigurðar Páls má sjá hér