Það er óumdeilt að Sundabraut er mikil samgöngubót fyrir okkur sem búum á Vesturlandi og mun efla allt atvinnu- og mannlíf á svæðinu. Það er miður ef dráttur verður á framkvæmdinni vegna þess að núverandi stjórnvöld geta ekki komið sér saman um útfærslur og leiðir.
Það blasir við öllum að framkvæmdin mun tengja Akranes og Borgarnes við höfuðborgarsvæðið með miklu skilvirkari hætti en áður. Þá er ljóst að höfnin á Grundartanga og sú iðnaðarstarfsemi sem þar er verður hluti af miklu stærra og öflugara atvinnusvæði. Vestlendingar verða að vona að við stjórnvölin verði fólk sem getur knúið á um að þessi framkvæmd fari af stað sem fyrst af fullum krafti. Það er það sem við í Miðflokknum höfum barist fyrir.
Það er mikið baráttumál fyrir sveitarfélög á Vesturlandi að sem fyrst verði hafist handa við undirbúning að framkvæmdum við Sundabraut. Nú liggja fyrir nokkuð skýrir valkostir um legu Sundabrautar og þverun Kleppsvíkur. Þau gögn sem liggja fyrir ættu að vera ágætur grunnur fyrir ákvörðunartöku um að hefja undirbúning sem allra fyrst. Nú þarf að hugsa stórt og nýta tímann sem best. Því munum við í Miðflokknum berjast fyrir.
Þörf á heildstæðri nálgun
Það er mikilvægt að hugsa allt verkefnið í heild og fara á sama tíma í allt verkið, þannig að framkvæmdir við þverun Kollafjarðar og vegalagningu á Álfsnesi, Gufunesi og Geldinganesi verði ekki látnar bíða efir því að þverun Kleppsvíkur verði lokið. Jafnvel mætti hugsa sér, til að flýta framkvæmdum eins og kostur er, að hefja lagningu Sundabrautar að norðanverðu sem allra fyrst eins og sveitastjórnarmenn á Vesturlandi hafa reyndar lagt til.
Það getur engin velkst lengur í vafa um mikilvægi Sundabrautar. Hún verður ekki aðeins mikilvæg samgöngubót fyrir íbúa höfuðborgarinnar, hún verður ekki síður stór samgöngubót fyrir Vestlendinga, Vestfirðinga, Norðlendinga og jafnvel Austfirðinga. Sundabraut styttir vegalendir, eykur umferðaröryggi, bætir almenningssamgöngur, dregur úr mengun og tryggir greiðari umferð. Það felur síðan í sér sterkari og heildstæðari vinnumarkað á suðvesturhorni landsins sem og bætt aðgengi Vesturlands og annarra landshluta að miðstöð viðskipta og stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu. Það er ástæða til að taka undir með sveitarfélögunum á Vesturlandi og hvetja samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Reykjavíkurborg að hefja nú þegar undirbúningsvinnu við lagningu Sundabrautar þannig að verkefninu verði lokið sem allra fyrst. Ef einhverntímann hefur verið ástæða til að flýta framkvæmd þá er það gerð Sundabrautar.
Höfundar:
Bergþór Ólason og Sigurður Páll Jónsson, þingmenn Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi
Greinin birtist í Skessuhorni þann 26. maí, 2021