Vextir, vaxtavextir og vextir líka af þeim

                     Vextir, vaxtavextir og vextir líka af þeim

 

Ríkistjórnin hefur undanfarið sýnt hversu víðtæk völd hún hefur við aðstæður eins og nú eru fyrir hendi vegna Covid-19.

Þúsundum fyrirtækja og einstaklinga hefur verið gert ókleyft að afla sér tekna og lífsviðurværis.

Afleiðingarnar eru að sjálfsögðu þær að ekki er með neinu móti hægt að standa við skuldbindingar.

Í þessar aðgerðir hefur verið ráðist af illri nauðsyn og er fullur skilningur á því.

Ríkisstjórnin hefur í hendi sér að ráðast í ýmsar áður óhugsandi aðgerðir vegna Covid-19 og hefur ekki hikað við það eins og áðurnefnd dæmi sýna.

 

En er ekki eitthvað að gleymast?

 

Á sama tíma og nær allir landsmenn verða fyrir skerðingum og í raun sviptingu sjálfsagðra réttinda er einn hluti samfélagsins stikkfrí.

Lánastofnunum hafa engar skorður verið settar.

Flestar lánastofnanir hafa þó upp á eigin spýtur boðið viðskiptavinum sínum upp á greiðsluhlé.

Greiðsluhlé sem felst í því, að afborgun, vextir og verðbætur hvers mánaðar bætist við höfuðstól láns.

Þetta þýðir að þegar greiðsluhléi lýkur hækkar mánaðarleg greiðslubyrði láns til samræmis hækkuðum höfuðstól.

Lánastofnanir munu með þessum hætti engu tapa, heldur hagnast enn frekar eða  sem nemur raðáhrifum hækkunar höfuðstóls.

Lántaki mun þannig greiða vexti, vaxtavexti og vexti líka af þeim.

Á sama hátt og ríkistjórn landsins hikaði ekki við að svipta fyrirtæki og landsmenn þeim grundavallarrétti sínum að afla sér tekna og lífsviðurværis og getu til að standa undir skuldbindingum sínum, skyldi maður ætla að sambærilegar kröfur yrðu gerðar gagnvart lánastofnunum.

Þannig yrði lánastofnunum gert skylt að gera greiðsluhlé á lánum og skuldbindingum lántaka með frystingu höfuðstóls.

Í einföldu máli, lán sem stendur í 30 milljónum 1.mars. stendur í 30 milljónum þegar greiðsluhléi lýkur.

 

Slík aðgerð er ekki flókin.

Áhrif slíkrar aðgerðar yrðu hins vegar gríðarleg.

Gríðarleg í formi réttlætis og sanngirni.

 

Baldur Borgþórsson                                                                                                                                  

Varaborgarfulltrúi Miðflokksins