Yfirvofandi þrautaganga þríbólusettra?

Landspítalinn hefur nú loksins birt mikilvægar upplýsingar og yfirlit yfir inniliggjandi sjúklinga á spítalanum. Innlagnir sjúklinga hafa verið flokkaðar eftir veiruafbrigði, bólusetningarstöðu og því hvort ástæða innlagnarinnar sé vegna Covid-19- sýkingar, með Covid-19 eða hvort óvíst sé um orsakasamhengi milli Covid-19 og innlagnar sjúklings á spítala.

Þessar upplýsingar hafa ekki verið aðgengilegar í tvö heil ár – tvö ár þar sem aðgerðir stjórnvalda, stórkostlegar takmarkanir á lífi allra landsmanna, byggðu á tölulegum upplýsingum um innlagnir á Landspítalann – þ.e. álaginu á Landspítalann.

Það verður að teljast í besta falli áhugavert að þingmenn og almenningur allur hafi ekki verið upplýstur um svo veigamikil atriði. Upplýsingaóreiðan hefur haft vinninginn hingað til – í boði ríkisstjórnarinnar.

En í þessum fyrstu tölum sem birtar voru á landspitali.is kom til dæmis fram að af þeim 37 sem liggja inni með Covid-19 er ekki staðfest að nema 29 séu þar vegna Covid-19-sýkingar. Næsta spurning hlýtur að vera hvort þetta gefi ástæðu til að uppfæra upplýsingar um fjölda þeirra sem sagðir eru hafa látist vegna Covid-19- sýkingar hér á landi?

Þá vekur einnig athygli í þessum nýju upplýsingum sá fjöldi þríbólusettra sem þarfnast spítalainnlagnar vegna sýkingar af Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar. Af þeim 10 sem liggja á spítalanum vegna Ómíkronsmits eru 2 óbólusettir, 2 fullbólusettir (tvær sprautur) og 6 fullbólusettir með örvun (þrjár sprautur).

Sé því haldið fram að fjöldinn sé of lítill til að lesa megi eitthvað markvert út úr þessum tölum, þá er rétt að halda til haga að súlurit sem sýnir upplýsingar um 14 daga nýgengi innlagna eftir stöðu bólusetningar og birt er á covid.is segir sömu sögu. Þegar það súlurit var síðast uppfært 5. janúar með tölum frá 4. janúar (uppfært hvern miðvikudag) voru fullbólusettir með örvun um það bil að sigla fram úr fullbólusettum hvað nýgengi innlagna á spítala varðar.

Það væri því gott ef sóttvarnalæknir eða aðrir vísindamenn á þessu sviði gerðu tilraun til að útskýra hvaða sögu þetta segir okkur í stað þess að þegja eða hrakyrðast í garð þingmanna og annarra sem hafa uppi efasemdir eða önnur sjónarmið en þau sem stjórnvöld hafa hingað til fylgt í blindni við ákvarðanatöku um líf, heilsu og frelsi fólks

Að lokum er gott að glöggva sig á því að fjöldi sjúklinga á gjörgæsludeild Landspítalans hefur verið mest átta manns og minnst sjö manns það sem af er ári.

Í gær 10. janúar voru 8.593 undir eftirliti hjá göngudeild Covid. Af þeim voru tveir merktir rauðir, sem þýðir að innlögn sé líkleg. Tveir af 8.593! Erum við ekki á einhverjum villigötum?

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 11. janúar, 2022.