Áherslur þingflokks Miðflokksins á 150. löggjafarþingi

Báknið burt

Ár eftir ár vex umgjörð stjórnkerfisins á Íslandi og kostnaðurinn sem því fylgir. Sá kostnaður er greiddur af skattgreiðendum. Nái landsframleiðsla ekki að halda í við vöxtinn mun sífellt stærri hluti þjóðartekna fara í að standa undir rekstri kerfisins. Miðflokkurinn vill að haldið verði áfram róttækri vinnu, sem þegar hafa verið lögð drög að, við að draga úr íþyngjandi regluverki og draga saman báknið. Þannig verði íbúum og fyrirtækjum landsins gert auðveldara og ódýrara að lifa lífi sínu og skapa ný verðmæti.

Skattalækkanir – ríkisfjármál

Skattar á Íslandi eru með þeim hæstu í heimi þegar lífeyrisgreiðslur eru teknar með í reikninginn (eins og annars staðar). Það er löngu orðið tímabært að draga úr álögum á almenning og fyrirtæki og leysa þannig úr læðingi aukna verðmætasköpun. Það gagnast samfélaginu öllu að leyfa fólki í auknum mæli að ráðstafa eigin tekjum. Á sama tíma þarf ríkið að fara betur með það almannafé sem það tekur til sín og fá meira fyrir hið mikla fjármagn sem það hefur til ráðstöfunar. Miðflokkurinn leggur áherslu á ráðdeild og skilvirkni við meðferð almannafjár.

Varðstaða um fullveldi þjóðarinnar

Nú standa Íslendingar aftur frammi fyrir því að þurfa að gera ráðstafanir til að verja fullveldi sitt. Leitast er við að breyta eðli alþjóðasamninga þannig að þeir feli í sér vald erlendra stofnana yfir innanlandsmálum. Unnið er að því að breyta stjórnarskrá landsins í því skyni að gera frekari eftirgjöf auðveldari. Miðflokkurinn mun beita sér fyrir því að þessi óheillaþróun verði stöðvuð og standa vörð um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.

Kjör lífeyrisþega og lífeyrissjóðir

Enn bíða eldri borgarar og aðrir sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur eftir réttlætinu sem þeim var lofað fyrir áratug. Skerðingar og aðrir neikvæðir hvatar hafa mikil og óæskileg áhrif á kjör þeirra sem fyrir verða og vinna gegn eðlilegri sjálfsbjargarhvöt fólks til að bæta hag sinn. Óeðlilegar skerðingar hafa einnig neikvæð áhrif á andlega og jafnvel líkamlega heilsu fólks og draga úr verðmætasköpun. Miðflokkurinn mun beita sér fyrir sanngjarnara og skynsamlegra lífeyriskerfi.

Nútímavæðing heilbrigðiskerfisins

Ekki er hægt að laga heilbrigðiskerfið á Íslandi með því að bæta í það fjármagni án þess að laga kerfið sjálft. Álag á heilbrigðiskerfið mun aukast jafnt og þétt næstu ár og áratugi. Ef við ætlum að tryggja framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla mun þurfa að fá meira fyrir það fjármagn sem varið er til heilbrigðismála. Lýsandi dæmi um vanda kerfisins birtist í því að sjúklingar séu sendir til útlanda í aðgerðir sem kosta þrefalt meira en þær myndu gera á Íslandi. Annað dæmi um þennan vanda eru gríðarlega dýrar og óskynsamlegar framkvæmdir við gamla Landspítalann í stað þess að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús fyrir 21. öldina.

 Skipulags- og húsnæðismál og fallegra umhverfi

Skipulags og húsnæðismál á Íslandi þarfnast verulegra úrbóta. Þörf er á heildarsýn fyrir landið í húsnæðismálum með það að markmiði að auka framboð húsnæðis á viðráðanlegu verði um allt land. Um leið þarf að gæta þess að uppbygging verði til þess fallin að skapa betra umhverfi og vernda og styrkja söguleg einkenni byggðanna. Allt þetta er hægt að gera með jákvæðum hvötum, breyttu regluverki og skýrri framtíðarsýn eins þeirri sem Miðflokkurinn hefur kynnt.

Vörn og sókn fyrir íslenskan landbúnað

Nú er sótt að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar frá landnámi úr ýmsum áttum. Látið er undan ósanngjörnum og hættulegum kröfum um aukinn innflutning matvæla sem standast ekki heilbrigðiskröfur, matvæla sem eru ekki framleidd við þau skilyrði sem íslenskum landbúnaði er ætlað að uppfylla. Einstaklega óhagstæður tollasamningur hefur nýlega tekið gildi og á sama tíma er gert ráð fyrir síminnkandi stuðningi við íslenska matvælaframleiðendur og neytendur. Um leið aukast íþyngjandi kröfur á íslenskan landbúnað jafnt og þétt. Það skekkir enn samkeppnisstöðu greinarinnar gagnvart erlendri framleiðslu. Landbúnaður og matvælaframleiðsla eru undirstaða byggðar víða um land. Nú stendur grein sem hefur haldið landinu í byggð í meira en 1100 ár frammi fyrir ögurstund. Við því þarf nýtt þing að bregðast með afgerandi hætti.

Nútímaleg umhverfisvernd

Náttúruvernd og önnur umhverfisvernd eru á meðal mikilvægust viðfangsefna samtímans. Viðbrögð stjórnvalda hafa hins vegar ekki verið í samræmi við það. Þau hafa allt of oft byggst á gagnslausri og jafnvel skaðlegri sýndarmennsku sem til dæmis birtist í nýjum sköttum án þess að þeim fylgi markmið eða aðferðir við að meta árangur af þeim. Þessu vill Miðflokkurinn breyta með umhverfisstefnu sem tekur mið af íslenskum aðstæðum og staðreyndum. Aðeins með því að beita vísindum og skynsemishyggju getum við náð raunverulegum framförum á sviði umhverfismála.

Efling löggæslu og réttarríkis

Breytt samfélag kallar á breytta og eflda löggæslu til að takast á við ný viðfangsefni. Baráttan gegn glæpagengjum og fíkniefnaógninni þarf að vera forgangsatriði og löggæsluyfirvöld þurfa að hafa fjármagn og úrræði í samræmi við það. Í allri meðferð valds þurfa lögregla, dómstólar og löggjafarvald að fylgja grundvallarreglum réttarríkisins, reglum sem hafa lagt grunn að árangri vestrænna samfélaga og er hornsteinn mannréttinda. Í því skyni þarf þingið að starfa á þeim grunni.

Nýsköpun og iðnaður

Íslensk iðnaðar- og nýsköpunarfyrirtæki standa frammi fyrir gríðarlegum sóknarfærum ef ríkisvaldið veitir jákvæða hvata og spillir ekki fyrir frumkvöðlastarfi. Allt of mörg fyrirtæki eru í þeirri stöðu að komast ekki af stað eða verja of miklum tíma í að fást við íþyngjandi reglur og gjöld fremur en að skapa ný verðmæti.  Skattalegir hvatar, stuðningur við rannsóknir og  verklegt nám og skýr stefna um að einfalda regluverk mun leysa úr læðingi mikla verðmætasköpun og fjölga eftirsóknarverðum störfum á Íslandi.

Öflug ferðaþjónusta um allt land

Stærsta útflutningsgrein landsins býr enn þá við allt of mikla óvissu. Greinin hefur vaxið hratt undanfarin ár en þarf nú að takast á við hægari vöxt og jafnvel samdrátt. Mikilvægt er að bregðast við þessu með því að bæta rekstraraðstæður greinarinnar strax, t.d. með hraðari lækkun tryggingagjalds og lækkun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, sem mun einnig gagnast atvinnulífi í heild. Draga þarf út sértækri skattlagningu á ferðaþjónustuna til að örva greinina og viðhalda atvinnustigi.

Heildstæð byggðastefna Miðflokksins

Miðflokkurinn mun áfram fylgja eftir stefnunni sem kynnt var fyrir kosningar 2017 undir nafninu „Ísland allt“. Í henni felst heildstæð stefna á öllum sviðum samfélagsins með það að markmiði að nýta kosti landsins alls og renna traustum stoðum undir byggðirnar hringinn í kringum landið. Þar skipta m.a. samgöngumálin gríðarlega miklu máli. Það er tímabært að hverfa frá viðvarandi og árangurslítilli vörn í samgöngumálum og hefja sókn á því sviði og fjárfesta í öðrum innviðum sem eru til þess fallnir að Ísland virki sem sterk heild í þágu samfélagsins alls.