Málefnaályktanir Aukalandsþings Miðflokksins 21. nóvember, 2020

Innlend matvælaframleiðsla verði stórelfd – Nýtt ráðuneyti

Stórefla þarf landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu. Hér liggur eitt af stærstu tækifærum þjóðarinnar til framtíðar þar sem heilnæmi matvæla, fæðuöryggi, matvælaöryggi og vistvæn orka á góðu verði munu spila lykilhlutverk. Formaður flokksins hefur nú nýverið mælt fyrir ítarlegri tillögu til þingsályktunar um aðgerðir sem miða að því að styrkja rekstrarafkomu matvælaframleiðenda til að verja greinina og þau fjölþættu verðmæti sem í henni felast fyrir samfélagið.

Þingsályktunar tillöguna sem er aðgerðaáætlun í 24 liðum má í heild sinni lesa hér

Aukalandsþing Miðflokksins leggur þunga áherslu á að þessu mikilvæga máli verði fylgt fast eftir.

Þá samþykkir aukalandsþing Miðflokksins einnig að stofnað verði sérstakt ráðuneyti sem fer með málefni landbúnaðar- og matvælaframleiðslu í landinu. Þá verði fylgt fast eftir ítarlegri skoðun á því misræmi sem komið hefur fram um innflutning og tollamál landbúnaðarafurða.

Málefni aldraðra

Ráðist verði í löngu tímabærar endurbætur á málefnum eldri borgara.  Skerðingar og afar óréttlát skattheimta verði afnumin ásamt því að aðskilja ber alveg málefni eldri borgara og öryrkja í orði og æði enda alls óskildir hópar.

Þöggun um eignasölu

rðlega tilraunir einstakra ráðherra til þöggunar um sölu á eignum í eigu ríkisins og ríkisfyrirtækja. Aukalandsþingið hvetur þingflokk Miðflokksins einnig til áframhaldandi baráttu fyrir þær þúsundir sem misstu húsnæði sitt á árunum eftir hrun.“

Nýtt þjóðarsjúkrahús á Keldum í Reykjavík

Miðflokkurinn vill hefja undirbúning að framtíðaruppbyggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á Keldum í Reykjavík sem hafi m.a. það hlutverk að vera aðalsjúkrahús landsins. Núverandi byggingar við Hringbraut verði nýttar sem umdæmis- eða héraðssjúkrahús, auk þess er hægt að nýta byggingarnar við Hringbraut sem endurhæfingarúrræði eða hjúkrunarheimili.
Sjúkrahúsin á landsbyggðinni verði sérstaklega efld ásamt því að standa vörð um aðgengi að einkarekinni heilbrigðisþjónustu, aðeins þannig er hægt að ná fram samlegðaráhrifum til hagsbóta.

Heimilum verði veitt skjól

Heimilum sem orðið hafa fyrir tekjufalli verði veitt skjól meðan náð er utan um vandann og varanlegar lausnir fundnar vegna áhrifa veirufaraldursins.

  1. Lækka staðgreiðslu skatta, tekjuskatt og útsvar í 24% til loka árs 2021.
  2. Greiðslur vaxta og verðbóta vegna fasteignalána atvinnulausra falli niður í allt að 18 mánuði.
  3. Vísitöluhækkanir verði bannaðar tímabundið.
  4. Afnema skal skerðingar á greiðslum til eldri borgara og lífeyrisþega.

Tryggja óskorað vald yfir auðlindum þjóðarinnar

  1. Hafna frekari innleiðingu á orkustefnu ESB.
  2. Afturkalla samþykkt um 3. orkupakkann.
  3. Koma í veg fyrir framsal ríkisvalds til erlendra stofnana.

Efling löggæslu og landamæravörslu

Aukning skipulagðra glæpa og vísbendingar um aukna starfsemi erlendra afbrotahópa hérlendis kalla á öflug viðbrögð í löggæslu. Á undanförnum árum hefur áhættumat greiningardeildar ríkislögreglustjóra sýnt að áhætta vegna helstu brotaflokka skipulagðar glæpastarfsemi fari hratt vaxandi hérlendis. Í nýlegri skýrslu deildarinnar var áhættan af þessu metin gífurleg og verður vart tekið sterkar til orða á þeim vettvangi. Bendir greiningardeildin á að skipulögð glæpastarfsemi sé oft fjölþjóðleg í eðli sínu. Upplýsingar greiningardeildar benda til að umsvif erlendra glæpahópa fari vaxandi. Helst hafa þeir látið að sér kveða í framleiðslu, sölu og innflutningi ólöglegra fíkniefna, en einnig í vændi, mansali, ýmis konar misbeitingu og innbrotum.

Nauðsynlegt er að styrkja og efla lögregluna í landinu til að takast á við þessa ógn og vegna fjölmargra nýrra áskoranna í löggæslu. Ekki verður unað lengur við fækkun lögreglumanna. Lögreglan verður að búa við viðunandi starfsskilyrði með nægum mannafla, tækjum og búnaði svo unnt sé að efla frumkvæðisvinnu og forvarnarstarf lögreglu og til þess að meðferðir og rannsóknir alvarlegri mála taki sem skemmstan tíma. Þá þjónar eftirlit lögreglu á landamærum mjög mikilvægu hlutverki og þarf að styrkja.

Aukin meðferðarúrræði

Verið er að vinna gott starf í vímuefnameðferð og stuðningi við fólk í bata en ljóst er að biðin eftir aðstoðinni er algjörlega óviðunandi löng og þarf að laga þann þátt tafarlaust. Biðin kostar mannslíf og það ekki fá.

Málefni hælisleitenda

Miðflokkurinn krefst tafarlausra úrbóta í meðferð umsókna hælisleitenda. Í því skyni verði þegar í stað:

  1. Tekin upp 48 stunda regla að norskri fyrirmynd.
  2. Dyflinarreglugerð verði fylgt og umsóknir hælisleitenda afgreiddar í því Evrópulandi sem umsækjandinn kemur fyrst til.
  3. Ísland taki upp eigið landamæraeftirlit meðan skikki er komið á málaflokkinn.

Mikilvægi nýsköpunar

Miðflokkurinn styður dyggilega við hvers konar framþróun og nýsköpun.

Miðflokkurinn telur þó að fyrirliggjandi frumvarp Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um opinberan stuðning við nýsköpun sem inniber að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands sé samið án fullnægjandi greiningarvinnu á ráðstöfun opinbers fjármagns til rannsóknar og þróunar og án fullnægjandi samanburðar við sambærileg kerfi í öðrum löndum.

Það er auk þess gert án fullnægjandi kostnaðargreiningar á fyrirhuguðum breytingum á fyrirkomulagi tæknirannsókna til framtíðar og starfsemi nauðsynlegra rannsóknastofnana atvinnuveganna. Þá vantar faglega greiningu á hvar helstu tækifæri Íslands í tækni- og orkurannsóknum liggi og án þess að áætlun liggi fyrir um markvissan stuðning við þau svið til að hámarka árangur framlags hins opinbera til tæknirannsókna og nýsköpunar í náinni framtíð.

Miðflokkurinn tel því skynsamalegt að fresta því að afgreiða umrætt frumvarp þar til niðurstöður slíkrar greiningarvinnu liggja fyrir.

 

Samþykkt á Aukalandsþingi Miðflokksins þann 21. nóvember, 2020