Lög Miðflokksins

1.           Heiti og markmið

1.1 .        Heiti stjórnmálasamtakanna er Miðflokkurinn, samtökin starfa skv. lögum nr. 162/2006 um starfsemi stjórnmálasamtaka. Miðflokkurinn starfar um Ísland allt en lögheimili Miðflokksins er í Hamraborg 1, 200 Kópavogi og varnarþing er í Reykjavík.

1.2.         Miðflokkurinn er flokkur með djúpar rætur á miðju stjórnmálanna. Flokkur fyrir skynsamt fólk með skýra sýn á grundvallarmál samfélagsins. Miðflokkurinn er flokkur sem vill veita og varðveita stöðugleika og standa vörð um hefðbundin grunngildi en um leið vera flokkur hugmyndaauðgi og framfara, samfélaginu öllu til heilla. Flokkur sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir, sama hvaðan þær koma. Miðflokkurinn leitar ætíð að skynsamlegustu lausninni á hverju viðfangsefni á grundvelli rökhyggju og rökræðu. Til að ná markmiðum Miðflokksins samfélaginu til heilla er tilgangurinn að bjóða fram í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna.

2.           Félagar í Miðflokknum

2.1.         Félagar í Miðflokknum geta allir orðið sem náð hafa 16 ára aldri. Félagar sem náð hafa 18 ára aldri geta valist til trúnaðarstarfa fyrir Miðflokkinn og tekið sæti á framboðslistum á vegum flokksins. Þó geta félagsmenn valist sem fulltrúar kjördæmafélaga Miðflokksins á landsþingi frá 16 ára aldri.

2.2 .        Inntökubeiðnir skulu sendar skriflega eða rafrænt til skrifstofu flokksins á þar til gerðu skráningarformi á vefsíðu Miðflokksins. Úrsagnir skulu tilkynntar skriflega eða með rafrænum hætti til skrifstofu Miðflokksins.

2.3 .        Aðeins skráðir félagar í Miðflokknum geta tekið sæti í stjórn, ráðum, nefndum og á framboðslistum, eða tekið við öðrum trúnaðarstörfum á vegum flokksins.

2.4  .       Taki félagi í Miðflokknum við trúnaðarstörfum fyrir annan stjórnmálaflokk, eða skrái sig sem félaga í öðrum stjórnmálasamtökum, jafngildir það úrsögn úr Miðflokknum. Sama á við ef viðkomandi er opinberlega að vinna með öðru stjórnmálafli sem ekki býður fram með Miðflokknum eða kemur að stofnun slíks félags. Félögum í Miðflokknum er þó heimilt að taka sæti á framboðslistum til sveitarstjórna, sem bornir eru fram af samtökum íbúa viðkomandi sveitarfélags eða á sameiginlegum listum fleiri en eins stjórnmálaflokks, með samþykki viðkomandi kjördæmafélags.

2.5.         Félagsmenn í Miðflokknum skulu gæta virðingar í orðum og framkomu í flokksstörfum sínum.

 3.      Skipulag

3.1.      Stjórn

3.1.1 .     Stjórn Miðflokksins er skipuð formanni og varaformanni auk fjögurra stjórnarmanna.  Auk formanns og varaformanns eiga sæti í stjórn; formaður þingflokks eða varaformaður þingflokks eða formaður laganefndar sbr. 3.1.4 . Tveir fulltrúar kosnir á landsþingi og formaður fjármálaráðs sem er skipaður af formanni án tilnefningar. Atkvæði formanns hefur tvöfalt vægi. Formaður Miðflokksins er opinber talsmaður flokksins og hefur yfirumsjón með flokksstarfinu í heild. Varaformaður Miðflokksins er jafnframt formaður nefndar um innra starf flokksins og er staðgengill formanns. Stjórnarmenn sem eru kosnir á Landsþingi flokksins eru þar kosnir til formennsku vegna eftirfarandi málaflokka;

 a) málefnastarfs og b) upplýsingamála. Stjórn Miðflokksins ber ábyrgð á starfi og fjárhag flokksins ásamt því að hafa umsjón með félagatali.

 3.1.2.      Formaður Miðflokksins er opinber talsmaður flokksins og hefur yfirumsjón með flokksstarfinu í heild.  Stjórnarmenn, sem eru kosnir á Landsþingi flokksins, skipta með sér formennsku vegna eftirfarandi málaflokka;, a) málefnastarfs og b) upplýsingamála.

 3.1.3.   Stjórn ræður framkvæmdastjóra Miðflokksins. Hann situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt, ásamt því að  stýra skrifstofu og fjárreiðum flokksins í samráði við stjórn og fjármálaráð. Framkvæmdastjóri lýtur boðvaldi stjórnar.

 3.1.4.     Hætti formaður störfum eða forfallast, tekur varaformaður við skyldum formanns þar til formaður snýr aftur eða boðað hefur verið til aukalandsþings skv. reglum flokksins, geti formaður ekki snúið aftur til starfa.

 Forfallist formaður fastanefndar sem kosinn hefur verið í stjórn á landsþingi, eða hættir, þá tekur varaformaður viðkomandi nefndar sæti hans í stjórn fram að næsta landsþingi eða flokksráðsfundi, ef styttra er í hann, og skal þá kosinn nýr formaður.

Sé formaður þingflokks Miðflokksins einnig formaður fastanefndar, varaformaður flokksins eða formaður fjármálaráðs, tekur varaformaður þingflokks sæti þingflokksformanns í stjórn flokksins. Sé varaformaður þingflokks einnig formaður fastanefnda eða formaður fjármálaráðs, tekur formaður laganefndar sæti í stjórn flokksins

Hafi flokkurinn ekki starfandi þingflokk tekur formaður laganefndar sæti í stjórn flokksins,

 3.2.     Félög Miðflokksins

3.2.1.      Innan Miðflokksins skulu starfa kjördæmafélög, eitt í hverju kjördæmi samkvæmt kjördæmaskiptingu landsins, í Reykjavíkurkjördæmum norður og suður starfar eitt sameiginlegt kjördæmafélag

 Kjördæmafélög Miðflokksins eru eftirfarandi:

Miðflokksfélag Norðausturkjördæmis

Miðflokksfélag Norðvesturkjördæmis

Miðflokksfélag Suðurkjördæmis

Miðflokksfélag Suðvesturkjördæmis

Miðflokksfélag Reykjavíkurkjördæma norður og suður

 3.2.2 .     Innan  kjördæmafélaga í Suður- , Suðvestur- , Norðvestur-  og Norðausturkjördæma er heimilt að stofna deildir sem halda utan um félagsstarf í sveitarfélögum eða á viðkomandi svæðum.   Deildir halda úti sjálfstæðu starfi og skulu velja sér formann, og varaformann auk 1-5 stjórnarmanna. Deildir eru formlega hluti kjördæmafélaga og eru ekki fjárhagslega sjálfstæðar. Deildir Miðflokksins skulu halda aðalfund fyrir lok mars ár hvert og skila fundargerð aðalfundar til stjórnar viðkomandi kjördæmafélags og skýrslu stjórnar til nefndar um innra starf Miðflokksins. Stjórn Miðflokksins setur reglur um fjárhagsleg samskipti Miðflokksins, kjördæmafélaga og deilda. Einungis ein almenn deild Miðflokksins getur starfað í hverju sveitarfélagi.  Heimilt er að stofna borgarmáladeild í Reykjavík . Tilgangur þeirrar deildar er að bjóða fram lista til borgarstjórnar og vera vettvangur fyrir borgarmálastarf Miðflokksins.

3.2.3.      Kjördæmafélög eru fjárhagslega ábyrg fyrir starfi deilda í sínu kjördæmi.  Kjördæmafélög skulu koma upplýsingum um starf félagsins og deilda þess til skrifstofu með reglulegum hætti. Ef ágreiningur rís um fjárhag kjördæmafélaga og deilda skal honum vísað til stjórnar Miðflokksins, sem sker úr eða leitar til fagaðila um úrskurð. Kjördæmafélagið í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur er ábyrgt fyrir fjárhag borgarmáladeildar og skal í samráði við stjórn Miðflokksins setja sér reglur um fjárhag og fjárframlög til borgarmáladeildarinnar við stofnun hennar. Borgarmáladeild telst ekki löglega stofnuð fyrr en slíkar reglur hafa verið settar, kynntar og fengið samþykki laganefndar flokksins.

3.2.4 .  Kjördæmafélög skulu halda aðalfundi fyrir lok apríl ár hvert. Á aðalfundi skal kjósa félaginu 5-7 manna stjórn.  Formaður skal kosinn beinni kosningu á aðalfundi og stjórn skal skipta með sér öðrum hlutverkum á fyrsta stjórnarfundi. Á aðalfundi skal einnig kjósa tvo menn í uppstillinganefnd vegna framboðs til Alþingis. Stjórnarfundir í kjördæmafélögum teljast löglegir hafi meirihluti stjórnar setið fundinn.

3.2.5. Kjördæmafélög setja sér starfsreglur sem skulu lagðar fram til samþykktar á aðalfundi félaganna. Stjórnir félaganna eru ábyrgar fyrir því að starfsreglur séu í samræmi við lög flokksins. 

3.2.6 .     Skráðir félagar í Miðflokknum eru einnig skráðir félagar í kjördæmafélagi í sínu kjördæmi og deild samkvæmt lögheimili hverju sinni.

3.2.7.  Félagar í Miðflokknum eru skráðir í deildir og kjördæmafélög eftir búsetu. Heimilt er að veita undanþágu og skrá félaga í aðrar deildir en búseta þeirra segir til um, svo sem ef um tímabundna búferlaflutninga er að ræða vegna náms, heilsu eða starfs. Skal slíkri beiðni beint með skriflegum hætti til skrifstofu flokksins og staðfest af stjórn áður en skráningu er breytt í félagatali. Félagsmaður getur ekki kosið í tveimur deildum/kjördæmafélögum á sama almanaksárinu.

 3.3   Flokksráð

3.3.1 .    Flokksráð fer með æðsta vald í málefnum Miðflokksins á milli landsþinga.

3.3.2.      Stjórn flokksráðs boðar flokksráðsfund á því ári sem landsþing er ekki haldið. Stjórn flokksráðs getur boðað til flokksráðsfundar hvenær sem þurfa þykir með a.m.k. viku fyrirvara. Við sérstakar aðstæður er stjórn flokksráðs heimilt að boða til fundar í tengslum við afmörkuð málefni, svo sem þátttöku í ríkisstjórn og er þá heimilt að boða fundinn innan tilgreinds tímaramma. Endanlegur fundartími skal þá staðfestur með minnst 24 klukkustunda fyrirvara. Flokksráði er heimilt að boða til aukalandsþings við sérstakar aðstæður. Aukalandsþing skal boða með að lágmarki tveggja vikna fyrirvara.

3.3.3.     Stjórn flokksráðs er skipuð formanni flokksins, sem jafnframt er formaður stjórnar, stjórn flokksins, stjórn þingflokks, formönnum kjördæmafélaga, formanni sveitarstjórnaráðs og formönnum sérsambanda og fastanefnda, sem ekki eiga fulltrúa í stjórn flokksins. Stjórn flokksráðs skal funda a.m.k. árlega og skal sá fundur haldinn fyrir 15. maí ár hvert.

3.3.4. Stjórn flokksráðs skal setja fastanefndum og fjármálaráði skipunarbréf til staðfestingar á setu þeirra í viðkomandi nefndum eða ráði.

3.3.5.   Stjórn flokksráðs skal samþykkja ársreikninga flokksins.

3.3.6. Stjórn flokksráðs skipar tvo fulltrúa í trúnaðarráð flokksins til 2ja ára í senn . Fulltrúar í trúnaðarráði geta verið úr sama kjördæmi en skulu ekki tengjast náið að öðru leyti.

3.3.7.     Flokksráð skal fjalla um málefnasamning um ríkisstjórnarsamstarf og tekur jafnframt ákvörðun um þátttöku Miðflokksins í ríkisstjórn.

3.3.8.      Í flokksráði eiga sæti:

Stjórn Miðflokksins.

Stjórnir kjördæmafélaga og formenn deilda. Sé aðalmaður fjarverandi á flokksráðsfundi getur hann tilnefnt varamann í sinn stað og velur þá sjálfur úr hópi félaga í viðkomandi félagi. Tilnefni forfallaður aðalmaður ekki varamann hefur stjórn flokksins heimild til að tilnefna varamann.

Þingmenn og ráðherrar Miðflokksins og fyrrverandi þingmenn, sem skráðir eru í Miðflokkinn.

Efstu fimm frambjóðendur á listum flokksins í hverju kjördæmi til síðustu alþingiskosninga.

Kjörnir sveitarstjórnarmenn Miðflokksins.

Efstu tveir frambjóðendur á listum flokksins í hverju sveitarfélagi til síðustu sveitarstjórnakosninga.

Formenn landssambanda.

Fimm félagsmenn tilnefndir af stjórn hvers kjördæmafélags. Þeir skulu tilnefndir á aðalfundi til 2 ára í senn.

Aðalmenn fastanefnda.

3.3.9. Reglulega flokksráðfundi skal að öllu jöfnu halda í Norðvestur-, Norðaustur-, eða Suðurkjördæmi, í þessari röð. Skulu stjórnir viðkomandi kjördæmafélaga annast framkvæmd fundanna í samvinnu við stjórn ráðsins. Aðra fundi flokksráðs skal halda eftir hentugleikum á stöðum þar sem samgöngur eru sem greiðastar.

3.3.10   Óski fleiri en þrjú kjördæmafélög, að undangenginni samþykkt félagsfundar,  að bera fram ósk um að flokksráð verði kallað saman, er stjórn flokksráðs skylt að verða við þeirri beiðni.

 3.4 .     Landssambönd

3.4.1 .     Heimilt er með samþykki stjórnar Miðflokksins að stofna landssambönd innan Miðflokksins sem starfa á landsvísu að málefnum er að þeim lúta. Aðeins eitt landssamband hverrar tegundar getur starfað á hverjum tíma. Þeir einir geta orðið félagar í landssambandi sem eru fullgildir félagar í einu af fimm kjördæmafélögum Miðflokksins. 

3.4.2 .   Stjórn flokksráðs setur landssamböndum starfsreglur.

 3.5.      Fastanefndir

 Innan Miðflokksins skulu starfa fimm fastanefndir og trúnaðarráð.

3.6.  Málefnanefnd skal skipuð sex aðalfulltrúum og sex varafulltrúum auk formanns, sem jafnframt á sæti í stjórn flokksins. Formaður er kosinn beinni kosningu á landsþingi en auk hans skal skipaður einn aðalfulltrúi og einn varafulltrúi karl og kona úr hverju kjördæmafélagi, þó tveir aðal- og tveir varafulltrúar frá sameinuðum kjördæmafélögum Reykjavíkur, tilnefnd af stjórn viðkomandi kjördæmafélags, til tveggja ára og skulu tilnefningar kynntar á landsþingi. Flokkurinn leggur nefndinni til starfsmann.  Nefndin hefur heimild til að opna fyrir aðkomu sérsambanda að vinnu nefndarinnar.

 Málefnanefnd hefur umsjón með undirbúningi og framkvæmd málefnastarfs flokksins á landsvísu og hefur heimild til að stofna málefnahópa um ráðgefandi stefnumörkun í einstökum málefnum. Við val á slíkum hópum skal nefndin leitast við að meðlimir hópanna hafi góða þekkingu á  málaflokkum viðkomandi hóps. Málefnanefnd tekur saman niðurstöður málefnastarfs og leggur drög að málefnaályktunum fyrir landsþing Miðflokksins. Málefnanefnd er heimilt að leggja fram málefnaályktun á flokksráðsfundi ef meirihluti nefndarinnar telur ástæðu til. Nefndin hefur samráð við þingflokk Miðflokksins til upplýsinga og samræmingar.  Niðurstöðu málefnanefndar skal kynna fyrir stjórn flokksins áður en þær eru lagðar fyrir landsþing eða flokksráðsfund.

Nýkjörin málefnanefnd tekur til starfa að afloknu landsþingi og kýs sér fyrsta og annan varaformann, konu og karl, á fyrsta fundi eftir landsþing

 3.7.  Nefnd um innra starf Miðflokksins skal skipuð sex aðalfulltrúum og sex varafulltrúum auk formanns, sem jafnframt er varaformaður flokksins sem kosinn er beinni kosningu á landsþingi en auk hans skal skipaður einn aðalfulltrúi og einn varafulltrúi karl og kona úr hverju kjördæmafélagi, þó tveir aðal- og tveir varafulltrúar frá sameinuðum kjördæmafélögum Reykjavíkur, tilnefnd af stjórn viðkomandi kjördæmafélags, til tveggja ára og skulu tilnefningar kynntar á landsþingi. Flokkurinn leggur nefndinni til starfsmann.  Nefndin hefur heimild til að opna fyrir aðkomu sérsambanda að vinnu nefndarinnar. Nefndin kýs sér fyrsta og annan varaformann, konu og karl, á fyrsta fundi eftir landsþing.

Nefnd um innra starf hefur umsjón með innra starfi flokksins, uppbyggingu félagakerfis og stuðning við félaganetið.

 3.8. Upplýsinganefnd

Upplýsinganefnd skal skipuð formanni upplýsinganefndar, sem kosinn er beinni kosningu á landsþingi, auk tveggja annarra fulltrúa sem tilnefndir eru af stjórn flokksins. Nefndin kýs sér varaformann á fyrsta fundi eftir landsþing

Upplýsinganefnd sér um kynningarmál flokksins, bæði inn á við og út á við.  Nefndin skal vinna áætlanir og skipuleggja miðlun upplýsinga innan flokksins og frá flokknum.

 3.9.  Fjármálaráð

Fjármálaráð skal skipað þremur fulltrúum. Formanni, sem skipaður er af formanni flokksins, auk tveggja annarra, sem formaður fjármálaráðs velur sér til samstarfs og skulu þeir aðilar hljóta samþykki stjórnar Miðflokksins. Fjármálaráð hefur það meginhlutverk að afla Miðflokknum fjár með framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Fjármálaráð skal einnig leggja fyrir landsþing tillögu að árgjöldum flokksmanna til tveggja ára í senn og einnig skiptingu fjár milli kjördæmafélaga og flokksins.

 3.10.     Laganefnd

Laganefnd skal skipuð 5 fulltrúum. Formanni, sem kosinn er beinni kosningu á landsþingi, og fjórum fulltrúum sem einnig eru kosnir  á landsþingi. Nefndin kýs sér varaformann á fyrsta fundi eftir landsþing. Laganefnd hefur umsjón með endurskoðun laga Miðflokksins eftir því sem þörf krefur.

 3.10.1.      Ágreiningsmál

 Rísi ágreiningur um hvernig túlka beri lög og/eða starfsreglur Miðflokksins, kjördæmafélaga, landssambanda, deilda eða annarra félaga innan Miðflokksins skal stjórn Miðflokksins vísa ágreiningnum til laganefndar sem skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem verða má.

Öllum erindum er varða túlkun laga Miðflokksins skal beina til stjórnar flokksins, sem vísar þeim til meðferðar laganefndar eftir atvikum.

 3.11      Trúnaðarráð

3.11.1.     Flokksmenn Miðflokksins virða alla að jöfnu og hafna hvers kyns mismunun.

3.11.2 .   Trúnaðarráð tekur við ábendingum frá félagsmönnum vegna samskiptavanda innan Miðflokksins, svo sem einelti, áreitni, ofbeldi eða mismunun. Trúnaðarráði er ætlað að koma slíkum málum í réttan farveg og hafa forgöngu um að leitað sé til fagaðila við úrlausn málanna. Trúnaðarráð skal gæta fyllsta trúnaðar og manngæsku við störf sín.

 4.         Landsþing

4.1        Landsþing hefur æðsta vald í málefnum Miðflokksins.

 4.2        Landsþing mótar stefnu flokksins, kýs formann, varaformann og tvo fulltrúa í stjórn til tveggja ára í senn og setur lög flokksins.

 4.3        Landsþing skal halda annað hvert ár, hið minnsta, og er boðað af stjórn Miðflokksins.

 4.4        Landsþing er opið öllum félagsmönnum í Miðflokknum með málfrelsi og tillögurétt.

 4.5         Fulltrúar sem atkvæðisrétt hafa á landsþingi eru eftirfarandi:

 Stjórn Miðflokksins.

Fulltrúar í flokksráði.

Stjórnir kjördæmafélaga, deilda og landssambanda.

Formenn og fulltrúar í fastanefndum flokksins.

Ráðherrar Miðflokksins

Fyrrverandi þingmenn Miðflokksins sem eru félagar í flokknum.

Fulltrúar kjördæmafélaga sem tilnefndir eru skv. eftirfarandi reglu:

 Þrisvar sinnum fjöldi Alþingismanna í viðkomandi kjördæmi, í undangengnum kosningum til Alþingis.

Fjöldi fulltrúa kjördæmafélaga breytist til samræmis við breytingar sem verða á fjölda þingmanna í kjördæmi við hverjar alþingiskosningar og tekur breytingin gildi á næsta landsþingi eftir kosningar til Alþingis, þar sem þingmaður hefur færst á milli kjördæma.

 Núverandi fjöldi fulltrúa frá Kjördæmafélögum er eftirfarandi:

Reykjavík norður og suður, sameiginlegt kjördæmafélag 66 fulltrúar.

Suðvesturkjördæmi 39 fulltrúar.

Norðausturkjördæmi 30 fulltrúar.

Suðurkjördæmi 30 fulltrúar.

Norðvesturkjördæmi 24 fulltrúar.

 4.6 .     Stjórnir kjördæmafélaga tilnefna fulltrúa á landsþing, skv. reglum sem flokksráð setur. Ætíð ber að gæta þess að val fulltrúa endurspegli búsetu í kjördæminu og að félagsmenn í viðkomandi kjördæmi hafi jöfn tækifæri til setu á landsþingi.

4.7.     Stjórn  setur dagskrá fyrir reglulegt landsþing. Stjórn er heimilt að skipuleggja dagskrá í samræmi við tilefni og umfang landsþings hverju sinni, með tilliti til fastra liða.  Fastir liðir í dagskrá reglulegs landsþings skulu vera:

4.7.1. Dagskrá landsþings:

 1. Þingsetning.

 2. Tilnefning og kosning þingforseta og þingritara auk 3ja manna kjörstjórnar þingsins.

 3. Ræða formanns.

 4. Lög flokksins.

 5. Kosningar:

 Kosning formanns sbr. gr. 3.1.1.

 b) kosning varaformanns sbr. gr. 3.1.1

 c) Kosning tveggja stjórnarmanna sbr.gr.3.1.1.

 d) Kosning formanns og fjögurra  fulltrúa í laganefnd sbr .gr 3.10.

 e) Skipun sex aðalmanna og sex varamanna í málefnanefnd, sbr. gr. 3.6.

 f) Skipun sex aðalmanna og sex varamanna manna nefndar um innra starf flokksins, sbr.gr. 3.7.

 6. Afgreiðsla málefnaályktana.

 7. Önnur mál.

 8. Þingslit.

 4.8 .          Á landsþingi starfa málefnahópar, skv. tillögu formanns málefnanefndar, og er hópunum stýrt af meðlimum málefnanefndar.

4.9.         Framboð til embætta formanns, varaformanns og tveggja stjórnarmanna skulu send skriflega eða rafrænt til skrifstofu Miðflokksins, undirrituð með nafni, kennitölu og lögheimili. Framboðsfrestur til þessara embætta skal vera til kl. 12.00 árdegis sjö dögum fyrir upphaf landsþings. Landsþingsfulltrúar kjósa milli þeirra framboða. Stjórn Miðflokksins er heimilt við sérstakar aðstæður að stytta framboðsfrest niður í fimm daga

 4.10.       Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd kosninga á landsþingi, afhendingu kjörgagna og talningu atkvæða. Kosning formanns, varaformanns og síðan tveggja stjórnarmanna skal vera bundin, leynileg og skrifleg. Nöfn allra sem í framboði eru, sbr. gr. 4.9, skulu tilgreind með viðeigandi hætti á kjörseðli og skulu landsþingsfulltrúar merkja við eitt nafn til formanns, eitt nafn til varaformanns og allt að tvö nöfn til setu í stjórn flokksins. Kosningu í embætti formanns hlýtur sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði, sama á við um kosningu varaformanns þ.e.a.s. að sá er flest atkvæði hlýtur er réttkjörinn varaformaður Til  stjórnar eru þeir tveir fulltrúar kosnir sem hljóta flest atkvæði í kosningu um stjórnarsæti.   Framboð til formennsku og varaformennsku í flokknum, skal jafnframt skoðast sem framboð til stjórnar nái frambjóðandi ekki kosningu til embættis formanns eða varaformann, óski hann þess. 

 4.11 .      Hafi ekkert framboð borist til embættis innan tilgreinds framboðsfrests skal kosið í embættið með óhlutbundinni kosningu milli allra félagsmanna.

4.12 .      Tillögur frá flokksmönnum til breytinga á lögum Miðflokksins skulu hafa borist laganefnd eigi síðar en 14 dögum fyrir landsþing og skal flutningsmanna getið.

4.13.       Breytingar á lögum Miðflokksins skulu hljóta meirihluta greiddra atkvæða fulltrúa á landsþingi til að öðlast gildi. Lagabreytingar taka að öllu jöfnu gildi við slit landsþings. Laganefnd er þó heimilt að leggja fyrir landsþing tillögu um að lagabreytingar öðlist þegar í stað gildi og skal greiða sérstaklega atkvæði um tillögu þar að lútandi eftir að lagabreytingar hafa verið samþykktar. Slík tillaga skal hljóta 2/3 greiddra atkvæða til samþykktar.

4.14.       Heimilt er að innheimta þinggjald af félagsmönnum sem sækja landsþing og skal upphæð gjaldsins auglýst á vef Miðflokksins með að minnsta kosti sjö daga fyrirvara.

4.15. Landsþing skal ávallt haldið í Reykjavíkur- eða Suðvesturkjördæmum og skulu kjördæmafélög í þeim kjördæmum annast framkvæmd landsþings í samvinnu við stjórn flokksins.

  5. Framboð

5.1. Framboð til Alþingis

Framboðslistar til Alþingiskosninga skulu bornir fram af viðkomandi kjördæmafélagi og skal framboðslisti borinn upp á félagsfundi kjördæmafélags til  samþykktar og hafa hlotið meirihluta atkvæða. Framboðslisti til Alþingis á vegum Miðflokksins verður að hljóta staðfestingu meirihluta stjórnar Miðflokksins áður en hann er borinn fram.

Uppstillingarnefnd á landsvísu skal skipuð til eins árs í senn og hefur hún það hlutverk að vera kjördæmafélögum til stuðnings. Í uppstillingarnefnd á landsvísu sitja þrír einstaklingar, formaður flokksins og tveir aðrir fulltrúar valdir af stjórn Miðflokksins .

5.1.1 Val á framboðslistum til Alþingis

Við val á framboðslistum til Alþingis eru tvær aðferðir heimilar. a) kosning á kjörfundi, b) með uppstillingu.

Stjórnir kjördæmafélaga skulu ákveða a.m.k. 5 mánuðum fyrir reglubundnar Alþingiskosningar hvor aðferðin skuli viðhöfð. Við val á framboðslistum við óreglubundnar Alþingiskosningar skulu stjórnir kjördæmafélaga ákveða aðferð við val á framboðslistum eigi síðar en 10 dögum eftir þingrof.

5.2.  Kosning á kjörfundi

Stjórn kjördæmafélags getur ákveðið að boða til félagsfundar þar sem val á lista fer fram með kosningu. Skal fundurinn auglýstur á miðlum flokksins með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara og jafnframt skal auglýstur framboðsfrestur, sem skal vera að lágmarki 48 klst. fyrir auglýstan fundartíma. Kjörfundur skal vera samfelldur.

Heimilt er í Norðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi að halda kjörfundi á allt að 3 stöðum. Séu kjörfundir á fleiri en einum stað skal vera til staðar fullkominn fjarfundabúnaður og skal fulltrúi stjórnar Miðflokksins samþykkja búnaðinn. Séu kjörfundir haldnir á fleiri en einum stað skulu fulltrúar stjórnar Miðflokksins vera á hverjum fundarstað og hafa yfirumsjón með framkvæmd kjörfundar.

Kjósa skal um fimm efstu sæti listans með leynilegri kosningu. Gæta skal jafnréttis við kosningu á framboðslista. Kosning skal fara þannig fram að fyrst er kosið í fyrsta sæti og úrslit tilkynnt, síðan 2.-5. sæti með sama hætti, með sérstakri kosningu um hvert sæti. Sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði fær það sæti er kosið var um. 

Uppstillinganefnd sem skipuð er formanni og varaformanni viðkomandi kjördæmafélags, tveimur fulltrúum kosnum á aðalfundi kjördæmafélags sbr.gr 3.2.4, og uppstillingarnefnd á landsvísu, velur svo frambjóðendur frá og með 6. sæti listans með þeim fjölda sem nauðsynlegur er og skal kynjahlutfall vera þannig að ekki mega fleiri en tveir þriðju hlutar frambjóðenda á lista vera af sama kyni.

Frambjóðendum til þeirra sæta er kosið er um skal gefinn kostur á að halda fimm mínútna kynningarræðu áður en kosning hefst í hvert sæti, þó eru þeim frambjóðendum sem boðið sig hafa fram í sæti sem áður er búið að kjósa um gefin kostur á þriggja mínútna ræðu við endurtekið framboð.

Kjörgengi við val á framboðslista til Alþingiskosninga hafa allir skráðir félagar í Miðflokknum sem greitt hafa árgjald til Miðflokksins áður en auglýstur framboðsfrestur rennur út eða þegar uppstillinganefnd birtir framboðslista.

Kosningarétt við val á framboðslista hafa allir sem skráðir eru félagar í flokknum við lok framboðsfrests og hafa greitt árgjald til Miðflokksins.

 5.2.1 Séreglur um Reykjavíkurkjördæmi

Ef ákveðið er að viðhafa kosningu á kjörfundi í Reykjavíkurkjördæmum, skal kjósa um tíu sæti samanlagt, fyrstu fimm sætin í hvoru kjördæmi.

Fyrst er kosið um fyrsta sætið í því kjördæmi sem hlaut hærra stuðningshlutfall í undangengnum kosningum til Alþingis, næst um fyrsta sætið í hinu kjördæminu, þar á eftir annað sætið í því kjördæmi sem fyrst var kosið um sæti í og svo koll af kolli.

Uppstillingarnefnd velur svo fulltrúa í önnur sæti listanna.

 5.3. Uppstilling

Stjórn kjördæmafélags getur ákveðið að viðhafa uppstillingu á framboðslista til Alþingiskosninga. Við uppstillingu skal sjö manna uppstillinganefnd sem skipuð er formanni og varaformanni viðkomandi kjördæmafélags, tveimur fulltrúum kosnum á aðalfundi kjördæmafélags sbr.gr 3.2.4, og uppstillingarnefnd á landsvísu.

Kjörgengi við val uppstillinganefndar hafa allir þeir sem skráðir eru í Miðflokkinn við birtingu tillögu uppstillingarnefndar.

Komi fram tillaga í uppstillinganefnd um að einhver hinna fjögurra fulltrúa kjördæmafélags taki sæti á lista, skal sá fulltrúi víkja af fundi á meðan tillagan er afgreidd. Samþykki fulltrúi kjördæmafélags í uppstillinganefnd að taka eitt af fimm efstu sætum listans, eða sækist eftir slíku sæti skal hann víkja úr nefndinni og stjórn kjördæmafélags kjósa nýjan fulltrúa.

Tillaga uppstillingarnefndar að framboðslista skal borinn upp á félagsfundi viðkomandi kjördæmafélags og telst samþykkt með einföldum meirihluta. Hafni félagsfundur tillögu uppstillingarnefndar að framboðslista skal nefndin svo fljótt sem verða má gera tillögu að nýjum lista og bera upp á fundi kjördæmafélags. Félagsfundur þar sem greidd eru atkvæði um framboðslista skal vel auglýstur í miðlum flokksins og- eða fjölmiðlum.

 5.4  Skil á Framboðslistum.

Stjórnir kjördæmafélaga skulu hafa skilað endanlegum framboðslista samþykktum á fundi viðkomandi kjördæmafélaga til stjórnar Miðflokksins 30 dögum fyrir lok framboðsfrest  sbr. 1. mgr. 36. gr. kosningalaga nr. 112/2021 við reglubundnar Alþingiskosningar. Við óreglubundnar Alþingiskosningar skulu skil á framboðslistum vera 14 dögum fyrir lok framboðsfrests.

Stjórnir kjördæmafélaga eru ábyrgar fyrir söfnum tilskilins fjölda meðmælenda og skulu skila til yfirkjörstjórnar ásamt framboðslistum fyrir lok framboðsfrests. Við sérstakar vel rökstuddar ástæður geta stjórnir kjördæmafélaga sótt um undanþágu til stjórnar miðflokksins á tímamörkum við skilum á framboðslistum. Skulu slíka beiðnir innihalda tímaáætlun fyrir gerð- og skil framboðslista.

 5.5  Framboðslistar stjórnar Miðflokksins

Hafi viðkomandi kjördæmafélög ekki skilað framboðslistum fyrir tilgreindan tíma sbr. 1. mgr. gr. 5,4 í lögum þessum, er stjórn Miðflokksins heimilt, með eða án samráðs við stjórn kjördæmafélag,  að bjóða fram lista til Alþingiskosninga í viðkomandi kjördæmi.

5.6  framboð til sveitarstjórna

5.6.1 . Deildir kjördæmafélaga bera fram framboðslista Miðflokksins til sveitastjórnarkosninga í sveitarfélögum á sínu svæði í samráði við stjórn kjördæmafélags. 

Við val á framboðslista til sveitarstjórnar gilda eftirfarandi reglur:  Stjórnir deilda í sveitarfélögum öðrum en Reykjavíkurborg velja framboðslista til sveitarstjórnarkosninga en er heimilt að boða til deildarfundar til að kjósa um eitt eða fleiri sæti á framboðslista. Um framboð til borgarstjórnar fer eftir ákvæðum gr. 5.6.2.  í lögum þessum.

Sé ekki starfandi deild í viðkomandi sveitarfélagi er stjórn kjördæmafélagsins heimilt að bera fram framboðslista fyrir sveitarfélagið sem samþykkja skal á félagsfundi.

Heimilt er að frambjóðendur á lista Miðflokksins til sveitastjórna séu ekki félagar í Miðflokknum en mega þó ekki vera félagar í öðrum stjórnmálasamtökum. Framboðslistinn skal samþykktur á deildarfundi.

Framboðslisti til sveitarstjórnar á vegum Miðflokksins verður að hljóta staðfestingu stjórnar viðkomandi kjördæmafélags áður en hann er borinn fram. Þegar endanlegur framboðslisti liggur fyrir skal hann tilkynntur stjórn flokksins. Hafi slíkt ekki verið gert sjö sólarhringum fyrir lok framboðsfrests er stjórn flokksins heimilt að taka ákvörðun um framboð og skipan lista og tilkynna framboð til yfirkjörstjórnar sveitarfélagsins.

 5.6.2. Framboð til borgarstjórnar Reykjavíkur.

 Borgarmáladeild kjördæmafélags Reykjavíkurkjördæmis norður og  suður ber fram framboðslista til borgarstjórnar. Deildin kýs fjóra einstaklinga í uppstillingarnefnd auk þess sem stjórn  kjördæmafélags velur tvo fulltrúa. Einn fulltrúi í kjörstjórn skal skipaður af stjórn Miðflokksins. Formaður flokksins hefur seturétt, málfrelsi og tillögurétt á fundum uppstillingarnefndar en ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt fulltrúi í nefndinni.

Uppstillinganefnd getur ákveðið að kosið verði um einstök sæti listans á almennum félagsfundi. Skal slíkur fundur auglýstur tryggilega á miðlum flokksins og/eða í fjölmiðlum og í auglýsingunni komi fram hvert efni fundarins er.

Þegar endanlegur framboðslisti liggur fyrir skal hann jafnframt tilkynntur stjórn flokksins. Hafi slíkt ekki verið gert sjö sólarhringum fyrir lok framboðsfrest er stjórn flokksins heimilt að taka ákvörðun um framboð og skipan lista og tilkynna til yfirkjörstjórnar Reykjavíkurborgar.

 6.      Þingflokkur

6.1.       Kjörnir þingmenn Miðflokksins mynda þingflokk Miðflokksins. Á fundum þingflokks eiga einnig seturétt, með málfrelsi og tillögurétti, ráðherrar Miðflokksins, formaður og  framkvæmdastjóri flokksins.

6.2.      Þingflokkur kýs stjórn þingflokks, formann og tvo varaformenn. Þingflokksformaður á sæti í stjórn Miðflokksins sbr. gr. 3.1.1.

6.3 .      Þingflokkur kýs ráðherra flokksins að fenginni tilnefningu formanns Miðflokksins.

6.4 . Þingflokkur Miðflokksins setur sér starfsreglur. Starfsreglur þingflokks skulu endurskoðaðar við upphaf hvers þings.

6.5. Þingflokkur Miðflokksins skal funda a.m.k. einu sinni á ári með stjórn flokksráðs.

6.6.  Þingflokkur Miðflokksins skal funda með sveitarstjórnarráði flokksins a.m.k. einu sinni á ári, en oftar óski meirihluti þingflokks eða sveitarstjórnarráðs eftir því.

 7.      Sveitarstjórnarráð

7.1       Í sveitarstjórnarráði eiga sæti aðal- og varafulltrúar í sveitarstjórnum, sem eru félagar í Miðflokknum. Sveitarstjórnarráð kýs sér formann til tveggja ára í senn. Kjörtímabil formanna sveitarstjórnarráðs  byrja eða enda við almennar kosningar til sveitarstjórna. Sveitarstjórnaráð fundar ársfjórðungslega hið minnsta. Formaður nefndar um innra starf Miðflokksins situr fundi sveitarstjórnarráðs og er tengiliður ráðsins við þingflokk Miðflokksins.

7.2.         Sveitarstjórnarráð er stjórn og málefnanefnd Miðflokksins til ráðgjafar um mótun stefnu flokksins í sveitarstjórnarmálum og er samstarfsvettvangur sveitarstjórnarfulltrúa Miðflokksins. Sveitarstjórnarráð skal funda a.m.k. einu sinni á ári með stjórn Miðflokksins.

 8.      Fjárreiður

8.1.         Reikningsár Miðflokksins er almanaksárið. Framkvæmdastjóri skal árlega leggja ársreikninga fyrir liðið starfsár fram á fundi stjórnar ásamt fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár. Stjórn staðfestir reikninga með áritun sinni, eftir að þeir hafa verið samþykktir af stjórn flokksráðs. Firmaritun er í höndum meirihluta stjórnar.

8.2.         Öll útgjöld umfram það sem telst til daglegs reksturs flokksins skulu sæta umfjöllun fjármálaráðs. Stjórn setur framkvæmdastjóra reglur um útgjöld eftir ráðgjöf fjármálaráðs. Fjármálaráð aðstoðar við gerð rekstrar- og kostnaðaráætlana og annast eftirfylgni þeirra í samráði við framkvæmdastjóra. Heimilt er að semja til allt að tveggja ára í senn við endurskoðunarfyrirtæki til að sjá um bókhald og uppgjör flokksins. Framkvæmdastjóri í samvinnu við fjármálaráð semur við endurskoðunarstofu/bókara en stjórn þarf að veita samþykki fyrir samningnum. Heimilt er að framlengja samningnum um 1 ár í einu með samþykki stjórnar flokksins.

8.3.        Fjármálaráð skal leggja til reglur er snúa að fjármögnun kosningabaráttu og almennri fjármagnsskipan flokksins fyrir stjórn flokksráðs til samþykktar.

 9.    Ýmis ákvæði

9.1       Framkvæmdastjóri sér um umsjón og vörslu félagaskrár fyrir hönd stjórnar Miðflokksins. Stjórn setur almennar reglur um aðgang trúnaðarmanna að gögnum úr félagaskrá. Geymsla, umsýsla og aðgangur að gögnum í félagaskrá skal ætíð vera í samræmi við persónuverndarlög. Félagar í Miðflokknum er gegna trúnaðarstörfum fyrir hann og fá aðgang að gögnum úr félagaskrá skulu fara með þau í trúnaði og er óheimilt að dreifa þeim á nokkurn hátt, hið sama á við starfsmenn flokksins.

9.2       Ákvörðun um slit félagsins skal taka á Landsþingi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til félagasamtaka sem vinna í anda þess sem Miðflokkurinn var stofnaður til. 

9.3       Lög þessi öðlast gildi við þingslit, á sama tíma falla eldri lög flokksins úr gildi.

 

Lög þessi voru samþykkt á Landsþingi Miðflokksins 28. október 2023 og koma í stað laga sem samþykkt voru 5. júní 2021.