Stjórnmálaályktanir Landsþings Miðflokksins 2021

Stjórnmálaályktanir Landsþings Miðflokksins

Samþykktar á Hilton Reykjavík Nordica þann 15. ágúst, 2021

 

Nýting umhverfisvænnar innlendrar orku til framleiðslu

Mikilvægt er að nýta umhverfisvæna innlenda orku til að auka framleiðslu á Íslandi og framleiða þannig umhverfisvænar afurðir, auka útflutningstekjur og hagvöxt og bæta kjör landsmanna. Velferð verður ekki slitin úr samhengi við verðmætasköpun.

Báknið burt

Nauðsynlegt er að minnka ríkisbáknið, einfalda regluverk og draga úr kerfisræði á Íslandi. Þannig er hægt að draga úr álögum á almenning og lítil og meðalstór fyrirtæki fá aukið frelsi til að skapa ný störf og ný verðmæti. Stjórnvöld eiga að þjónusta almenning, ekki öfugt.

Húsnæðismál

Veita á öllum íslenskum ríkisborgurum tækifæri til að eignast eigið húsnæði. Allir sem á þurfa að halda eigi rétt á mótframlagi ríkisins sem svo verður greitt til baka við sölu fasteignar eða breytt í lán að 10 árum liðnum. Stefna stjórnvalda á að stuðla að því að byggt verið fjölbreytt gæðahúsnæði og lóðaskortur hamli ekki nauðsynlegri uppbyggingu.

Samgöngumál

Ný nálgun í samgöngumálum mun gjörbylta uppbyggingarhraða samgöngumannvirkja.  Með aukinni innviðafjárfestingu verður hvati til aukinnar verðmætasköpunar stóraukinn, sem tryggir getu til að standa undir velferðarkerfum samfélagsins.   Miðflokkurinn vill tryggja með lögum að miðstöð innanlandsflugs verði áfram í Vatnsmýri.

Byggðastefnan Ísland allt

Flokkurinn leggur áherslu á mikilvægi þess að innleiða heildarsýn í byggðamálum þar sem jafnrétti allra, óháð búsetu, verður tryggt. Byggðastefnan Ísland allt hefur aldrei verið eins aðkallandi og nú.  Þannig förum við úr dýrri vörn í arðbæra sókn fyrir landið allt.

Stofnanavæðingu hálendisins hafnað

Miðflokkurinn stendur enn gegn áformum ríkisstjórnarinnar um stofnun hálendisþjóðgarðs á sama tíma og ferðafrelsi landsmanna verður varið. Stofnanavæðingu hálendisins er hafnað.

Einföldun regluverks

Miðflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarstaða og samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði bætt með skattalegum hvötum og einfaldara regluverki þar sem ekki eru lagðar sömu kvaðir á litlu fyrirtækin eins og þau stærstu.

Eflum tækni- og iðnnám

Menntakerfið þarf að endurspegla þörf þjóðarinnar fyrir aukna verðmætasköpun og framþróun á næstu árum og áratugum. Fjármagn verði því sérstaklega eyrnamerkt námi í tækni- og iðngreinum og öllum þeim sem vilja gefið tækifæri til að stunda slíkt nám.

Heilbrigðiskerfið

Tryggja ber öllum Íslendingum jafnt aðgengi að góðri heilbrigðisþjónustu. Í því skyni verði horfið frá samþjöppunarstefnu í heilbrigðismálum og þjónustan færð nær almenningi um allt land. Heilbrigðiskerfið þarfnast endurskoðunar til að tryggja sem besta nýtingu fjármagns með það að markmiði að hámarka þjónustu við sjúklinga. Ríkið þarf því að nýta þjónustu þeirra sem eru best til þess fallnir að veita lækningar á viðunandi kjörum, en einnig krafta góðgerðarsamtaka og sjálfstæðra félaga, sem skipta sköpum við að aðstoða sjúklinga og bæta lýðheilsu.

Með því að eyða biðlistum, fjölga hjúkrunar- og þjónusturýmum og efla heimaþjónustu  má draga úr óþarfa kostnaði í heilbrigðiskerfinu og bæta líf sjúklinga og eldri borgara á Íslandi. Það er mikilvægt að þjónusta við sjúklinga verið byggð upp um allt land, núverandi heilbrigðisstofnanir verði betur nýttar og nýjar byggðar upp. Meðal annars verði hafinn undirbúningur að nútímalegu sjúkrahúsi á nýjum stað á höfuðborgarsvæðinu.

Málefni eldri borgara

Eldri borgarar geta ekki beðið lengur eftir réttlæti. Miðflokkurinn leggur áherslu á að núverandi fyrirkomulag skerðinga verði afnumið og þess í stað komið á sanngjörnu kerfi þar sem ævistarf fólks er virt og komið á jákvæðum hvötum sem stuðla að vinnu, verðmætasköpun og sparnaði. Þeir sem vilja vinna lengur en núverandi lög um starfslok gera ráð fyrir eiga að hafa rétt á því. Það er réttlátt og hagkvæmt fyrir ríkissjóð, lífeyriskerfið og samfélagið allt.

Málefni öryrkja

Sömu viðmið um sanngirni, eðlilegt lífsviðurværi og jákvæða hvata skulu eiga við um örorkulífeyri.

Málefni Hælisleitenda

Kerfi hælisveitinga er í ólestri á Íslandi og þarfnast gagngerrar endurskoðunar á borð við það sem gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndum. Ótækt er að Ísland verði í auknum mæli að áfangastað glæpagengja sem féfletta hælisleitendur og leggja þá í stórhættu þegar nágrannalöndin hafa mætt þessum veruleika og náð árangri.

Miðflokkurinn telur rétt að líta til stefnu danskra jafnaðarmanna hvað varðar endurskoðun hælisleitendakerfisins. Þannig mun það fjármagn sem er til ráðstöfunar nýtast sem best til að hjálpa þeim sem mest eru hjálpar þurfi.

Endurskoðun Schengen samstarfsins

Schengen samstarfið þarfnast endurskoðunar í ljósi þess að fjölmörg Evrópulönd hafa á undanförnum árum vikið frá grundvallarreglum Schengen fyrirkomulagsins til að verja landamæri sín. Ísland þarf að vera fært um að nýta stöðu landsins sem eyja til að hafa stjórn á eigin landamærum en þó í góðu áframhaldandi samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir.

Efling löggæslu til að takast á við skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi

Aukin umsvif skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi eru verulegt áhyggjuefni og kalla á viðbrögð sem taka mið af umfangi vandans. Skýrslur greiningardeildar Ríkislögreglustjóra draga upp dökka mynd af auknum umsvifum erlendra glæpagengja við innflutning og sölu fíkniefna, misnotkun hælisleitendakerfisins, mansal og í öðrum alvarlegum afbrotum. Miðflokkurinn tekur undir ábendingar greiningardeildarinnar um mikilvægi þess að koma á lögreglu sem hefur fjármagn, mannskap, þekkingu, tækjabúnað, tæknikunnáttu og önnur úrræði til að takast á við þessa vaxandi ógn.

Stöndum vörð um frelsi einstaklinga

Miðflokkurinn leggur áherslu á að allir einstaklingar séu jafnréttháir og skuli metnir af eigin verðleikum en ekki út frá neinum öðrum persónulegum einkennum. Flokkurinn telur mikilvægt að standa vörð um frelsi einstaklinga og rétt þeirra til að hafa ólíkar skoðanir og tjá sig án þess að vera látnir gjalda fyrir.

Miðflokkurinn stendur vörð um frjálslyndi og þá grundvallarhugsjón lýðræðis að allir skuli hafa jafnan rétt á að hafa áhrif á stjórn samfélagsins. Stjórnmálamenn mega því ekki gefa eftir vald til stjórnkerfis sem ekki ber ábyrgð gagnvart kjósendum.

Stjórnmálamönnum ber að standa við þau fyrirheit sem þeir gefa kjósendum og það mun Miðflokkurinn gera fái hann umboð til.

 

Samþykkt á Landsþingi Miðflokksins þann 15. ágúst 2021