Lausnir fyrir Lilju

Lausnir fyrir Lilju

Mánudagur, 29. apríl 2024
 

Ég átti orðastað við Lilju Dögg Al­freðsdótt­ur ráðherra fjöl­miðlamála í liðinni viku. Þar rædd­um við mik­il­vægi þess að draga úr yf­ir­burðastöðu Rík­is­út­varps­ins á fjöl­miðlamarkaði og auka svig­rúm einka­rek­inna miðla.

Þegar ráðherr­ann hafði greint frá því að hún teldi lausn­ina ekki fel­ast í því að taka Rík­is­út­varpið af aug­lýs­inga­markaði sagði hún: „Ef hátt­virt­ur þingmaður er með ein­hverja frá­bæra lausn á þessu máli þá má hann al­veg deila henni hér með mér.“ Ég sagðist glaður koma lausn­um Miðflokks­ins í þessu máli til ráðherr­ans hið fyrsta.

Og því erum við hér í dag.

Miðflokk­ur­inn hef­ur lagt fram betri og raun­hæf­ar leiðir til að styðja við einka­rekna miðla um leið og fíll­inn í stof­unni er send­ur í megr­un.

Til­lög­urn­ar eru tvíþætt­ar:

Ann­ars veg­ar að al­menn­ing­ur fái að velja með hvaða hætti stuðning­ur skil­ar sér til einka­rek­inna fjöl­miðla með því að ráðstafa sjálf­ur hluta út­varps­gjalds­ins á skatt­skýrslu hvers árs, til fjöl­miðils að eig­in vali.

Hins veg­ar er horft til þess að styrkja inn­lenda dag­skrár­gerð í gegn­um sam­keppn­is­sjóð sem verður fjár­magnaður með aug­lýs­inga­sölu hjá Rík­is­út­varp­inu. Skoðum þetta aðeins nán­ar:

Val­frelsi al­menn­ings: Við skatt­skil hefðu ein­stak­ling­ar sjálfræði um það til hvaða fjöl­miðils greiðslur þeirra til fjöl­miðla, eða út­varps­gjaldið, renni.

 Miðað er við að á fyrsta ári verði að há­marki 10% heild­ar­upp­hæðar út­varps­gjalds­ins ráðstafað með þess­um hætti, 20% á öðru ári og hlut­fallið nái há­marki á þriðja ári þegar allt að 30% af út­varps­gjald­inu verði ráðstafað til einka­rek­inna miðla.

 Þing­menn Miðflokks­ins hafa þris­var lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu þessa efn­is en hún ekki kom­ist til at­kvæðagreiðslu.

Sam­keppn­is­sjóður til stuðnings inn­lendri dag­skrár­gerð: Helm­ing­ur af aug­lýs­inga­sölu og tekj­um af kost­un hjá Rík­is­út­varp­inu renni í sjóð sem styðji við inn­lenda dag­skrár­gerð.

 Auðvelt verður að halda utan um þetta í dótt­ur­fé­lagi Rík­is­út­varps­ins sem þegar held­ur utan um aug­lýs­inga­sölu og kost­un.

 Með þessu næst fram mark­mið um að styðja með öfl­ug­um hætti við inn­lenda dag­skrár­gerð.

 Með þess­ari nálg­un mæt­um við þeim áhyggj­um sem lýst hef­ur verið af að erfitt verði að ná til til­tek­inna hópa ef Rík­is­út­varpið verður tekið af aug­lýs­inga­markaði. Þannig er einnig brugðist við at­huga­semd­um um að fjár­magn sem nú renn­ur til aug­lýs­inga­kaupa hjá Rík­is­út­varp­inu kynni að leita til er­lendra aðila en ekki til einka­rek­inna ís­lenskra fjöl­miðla, verði Rík­is­út­varpið tekið af aug­lýs­inga­markaði.

Þessu til viðbót­ar eru fleiri góðar leiðir til að styðja við einka­rekna fjöl­miðla – aðrar en að setja þá á fjár­lög. En þess­um lausn­um er hér með komið á fram­færi við ráðherra og henni er frjálst að gera þær að sín­um. Við í Miðflokkn­um erum nefni­lega í lausna­brans­an­um.

Höf­und­ur er þing­flokks­formaður Miðflokks­ins. bergt­horola@alt­hingi.is