Arðgreiðslur frá bönkum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók til  máls í óundirbúnum fyrirspurnartíma í vikunni.

Hann spurði þar forsætisráðherra um arðgreiðslur frá bönkum.

Herra forseti. Ráðherrar í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra hafa verið nokkuð yfirlýsingaglaðir að undanförnu og eins og hv. þm. Logi Einarsson nefndi áðan birtist það til að mynda í því þegar menningar- og viðskiptaráðherra og sitthvað fleira fór að tjá sig um bankamál og hóta því að taka að nýju upp bankaskatt. Ég hef skilning á því að ráðherrar séu ekki enn búnir að átta sig alveg á verkaskiptingunni í Stjórnarráðinu. Þetta er orðið býsna flókið eins og þessu var skipt upp. En svo kom hæstv. fjármálaráðherra, ráðherra bankamála, fram og sló þessar hugmyndir kaldar. Það sem var hins vegar ekki síður áhugavert var að hæstv. forsætisráðherra, hafandi lýst því í viðtali að viðskiptaráðherrann gæti átt spjall við bankamenn og spurt hvort þeir væru ekki til í að lækka vexti, gerði að umtalsefni þá staðreynd að ríkið ætti enn þá Landsbanka og Íslandsbanka að mestu leyti og arðgreiðslur af þessum bönkum yrðu notaðar í félagsleg úrræði eftir kórónuveirufaraldurinn. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Var hæstv. forsætisráðherra búin að semja við hæstv. fjármálaráðherra um að þetta yrði raunin því að það eina sem við höfum heyrt frá hæstv. fjármálaráðherra um nýtingu þessa fjármagns til þessa er annars vegar að það eigi að renna í niðurgreiðslu skulda og hins vegar hugsanlega í að fjármagna borgarlínuævintýri Samfylkingarinnar í Reykjavík? Reyndar vildi svo til að á sama tíma, nokkurn veginn, og hæstv. forsætisráðherra var með þessar yfirlýsingar í viðtali birtist á heimasíðu fjármálaráðuneytisins tilkynning um að hæstv. fjármálaráðherra hygðist klára að selja Íslandsbanka, klára að einkavæða Íslandsbanka að fullu á þessu ári. Hefur hæstv. ráðherra samið við hæstv. fjármálaráðherra um nýtingu þess fjármagns sem þannig skilar sér í ríkissjóð?

Fyrirspurnina má sjá í heild sinni hér.