Atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda - Ræða Karls Gauta Hjaltasonar

Karl Gauti Hjaltason tók þátt í sérstakri umræðu á Alþingi um atvinnuleysi og stöðu atvinnuleitenda.

Eftirfarandi er ræða Karls Gauta:

"Atvinnuleysi mælist nú samanlagt í febrúar síðastliðnum 12,5%. Enginn landshluti hefur farið verr út úr þessu heldur en Suðurnesin. Þar mælist atvinnuleysi 24%, sýnu verst í Reykjanesbæ þar sem rúmlega 2.600 manns ganga nú atvinnulausir. Á landinu öllu, ef taldir eru með þeir sem eru í minnkuðu starfshlutfalli, ganga rúmlega 25.000 manns atvinnulausir nú um stundir. Það þarf að bregðast við þessu. Á Suðurnesjum er það aðallega ferðaþjónustan sem hefur legið í láginni og valdið þessu atvinnuleysi. Nú kynnir ríkisstjórnin nýtt átak, svokallaðar hvataaðgerðir, sem á að skapa 7.000 störf.

Ég spyr: Kemur þetta í staðinn fyrir hlutabótaleiðina? Á að hætta við hlutabótaleiðina vegna þessarar nýju leiðar, svokallaðra hvataaðgerða? Af þessu tilefni vil ég minna á það að ríkisstjórnin kynnti með trommuslætti fyrir tveimur árum síðan sérstakt átak til aukinna útgjalda til fjárfestinga. Árangurinn var sá að opinberar fjárfestingar minnkuð um tæp 11% á árinu 2019 og tæp 10% á árinu 2020. Er þarna verið að kynna leið sem er með svipuðum hætti og þessi auknu útgjöld sem urðu síðan stórkostlegur samdráttur? Þegar stórkostlegur samdráttur varð í fjárfestingu atvinnuveganna ætlaði ríkisstjórnin að hjálpa þar til en árangurinn varð samdráttur."

Ræðu Karls Gauta og umræður í þingsal má sjá hér