Aukin skógrækt til kolefnisbindingar

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um aukna skógrækt til kolefnisbindingar, sem er eitt af forgangsmálum Miðflokksins á þessu þingi.  

Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að vinna áætlun sem miði að því að settur verði kraftur í nýskógrækt, sérstaklega til kolefnisbindingar, þannig að frá og með árinu 2025 verði árlega gróðursettar 12 milljónir trjáplantna í stað þriggja milljóna.  

Áætlun þessi verði unnin í samstarfi stjórnvalda við Skógræktina, skógræktarfélög, bændur, atvinnulíf og almenning. Hún miði að því að stórauka kolefnisbindingu með skógrækt og skapa ný, fjölbreytt og varanleg „græn“ atvinnutækifæri í sveitum landsins.
    Markmið áætlunarinnar verði:
     –      að auka kolefnisbindingu skóga á Íslandi,
     –      að efla íslenska skógrækt,
     –      að fjórfalda árlega gróðursetningu til skógræktar á næstu fimm árum,
     –      að skapa græn störf um allt land, bæði til skamms tíma og til framtíðar.

Fram undan eru tækifæri til að ná verulegum árangri í loftslagsmálum og byggja upp auðlind til hagsbóta fyrir land og þjóð í framtíðinni. Ræktun skóga hefur í för með sér margþættan ávinning, allt frá því að bæta ræktunarskilyrði fyrir akurrækt yfir í að skapa framtíðarviðarauðlind fyrir komandi kynslóðir landsmanna. Loftslagsávinningurinn er þó líklega stærsti ávinningurinn til langs tíma. Með skógrækt er hægt að ná þessum markmiðum og fleirum án þess að þurfa að leggja í mikinn kostnað. Á erfiðum tímum er tilhneigingin oft sú að halda að sér höndum og reyna að þrauka en á slíkum tímum þarf að horfa til framtíðar og byggja upp. Fátt eykur bjartsýni fólks eins mikið og gróðursetning trjáa. Nýtum það lag og blásum til grænnar sóknar – og ræktum skóga.

Flutningsmenn leggja því til að ráðherra verði falið að gera áætlun um þetta efni og kynna hana Alþingi fyrir 1. mars 2021.

Flutningsmaður þingsályktunartillögunnar var Karl Gauti Hjaltason,  en allir þingmenn Miðflokksins eru meðflutningsmenn hennar.

Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér