Bóluefnaútvegun til Íslands er óforsvaranleg

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, í störfum þingsins:

"Það kemur betur í ljós með degi hverjum þvílíkt ógæfuspor það var þegar ríkisstjórnin ákvað að binda trúss sitt við Evrópusambandið í því að útvega bóluefni gegn kórónuveirunni.

Við sjáum að víðast hvar í kringum okkur gengur þó nokkuð betur vegna þess að þau ríki sem voru með okkur á klafa Evrópusambandsins hafa reynt að brjótast þaðan út, samanber Danmörk og Austurríki o.fl., og hafa náð miklu meiri árangri í að bólusetja en Íslendingar. Það er líka mark takandi á að í Bretlandi er nú þegar búið að bólusetja alla sem eru fimmtugir og eldri. Við erum að berjast við að klára að bólusetja 80 ára og eldri. Við erum ekki búin að útvega efni til að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk að fullu.  Nú er svo komið að langlundargeð sóttvarnalæknis er þrotið og hann lét hafa eftir sér í gær eða fyrradag að bóluefnaútvegun til Íslands væri óforsvaranleg. Þetta hefur verið ámálgað hér nokkrum sinnum en því tekið með hefðbundnum hroka og fálæti. Nú er kominn tími til að menn íhugi það mjög alvarlega að gera hér bragarbót á.

Ég verð að spyrja eins og hvæstvirtur þingmaður Anna Kolbrún Árnadóttir gerði hér um daginn: Hvers vegna hafa menn ekki leitað samstarfs við Bretland sem virðist vera að ná miklum árangri í bólusetningum? Það er ekki eftir neinu að bíða og ríkisstjórnin er búin að boða opnun landsins að því er virðist löngu áður en hjarðónæmi verður náð.

Það er alvarlegt, herra forseti."

Ræðu Þorsteins í þingsal má sjá hér