Endurskoðun laga um almannatryggingar - Tillaga til þingsályktunar

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni um endurskoðun laga um almannatryggingar.

Með tillögunni er félags- og barnamálaráðherra falið að skipa starfshóp sem skoði hvort rétt kunni að vera að skipta upp lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, þannig að sérstök löggjöf gildi um ellilífeyri og önnur um greiðslur til öryrkja og fólks með skerta færni. Félags- og barnamálaráðherra skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshópsins fyrir lok maímánaðar 2021.

Töluverðar lagabreytingar hafa verið gerðar á þeim hluta laga um almannatryggingar sem lýtur að eldri borgurum en ekki hefur tekist að ná fram viðlíka breytingum í málefnum öryrkja.

Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Tryggingastofnun ríkisins og stöðu almannatrygginga kemur fram að breytingar á lögum um almannatryggingar hafi verið tíðar. Við endurútgáfu þeirra 1. janúar 2007 höfðu verið gerðar 40 breytingar á eldri lögum sem tóku gildi í janúar 1994. Hinn 1. janúar 2020 hafði núgildandi lögum verið breytt 45 sinnum til viðbótar. Að mati flutningsmanna eru lög um almannatryggingar orðin ógagnsæ og flókin eftir stöðugar breytingar og umbætur. Þá eru dæmi um að mikilvæg ákvæði laganna séu opin til túlkunar sem taki breytingum í meðferð Tryggingastofnunar án þess að nokkuð í lagaumhverfinu hafi breyst. Ríkisendurskoðun telur einnig að meta þurfi hvort rétt kunni að vera að skipta lögunum upp þannig að sérstök lög gildi um ellilífeyri og önnur um greiðslur til öryrkja og fólks með skerta færni. Þótt báðir hópar sæki þjónustu og greiðslur til Tryggingastofnunar er um eðlisólíka hópa að ræða og hagsmunir þeirra oft mismunandi. Það getur tafið nauðsynlega umbótavinnu og því er líklegt að lagasetning yrði skilvirkari ef hún fjallaði um afmarkaðra efni og ef breytingarnar næðu til þrengri hóps en allra lífeyrisþega landsins.

Flutningsmaður:  Anna Kolbrún Árnadóttir

Meðflutningsmenn:  Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson. 

Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér.  Málið gengur nú til Velferðarnefndar Alþingis.

Flutningsræðu Önnu Kolbrúnar í þingsal má sjá hér