Stöndum við bakið á landbúnaði

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, tók þátt í störfum þingsins á Alþingi í dag og ræddi þar um íslenskan landbúnað.   

Landbúnaðurinn þarf að fá skýra línu hjá stjórnmálamönnum svo að hægt sé að standa styrkum fótum við bakið á honum.  Miðflokkurinn hefur komið með þá tillögu að fresta útboði á tollum til þess að hægt væri að taka niður kjötbirgðir og mjólkurbirgðir í landinu.

Sigurður Páll:

"Hæstvirtur forseti. Hvernig og hvaða framleiðslu ætlumst við Íslendingar til að landbúnaður standi fyrir? Þessi spurning kom upp í viðræðuþætti í netheimum fyrir stuttu síðan og mér finnst þetta vera spurning sem við ættum að spyrja okkur, stjórnmálamenn, og jafnvel þjóðin öll, vegna þess að undanfarnar vikur og mánuði hefur verið mikil umræða um landbúnaðarmál og sitt sýnist hverjum. Það hefur verið mikið um greinaskrif og það kom fram í ræðu áðan að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í tollamálum nú um áramótin leggist misjafnlega vel í landann.

Við í Miðflokknum komum með þá tillögu fyrir jólin að fresta útboði á tollum til þess að hægt væri að taka niður kjötbirgðir og mjólkurbirgðir í landinu og í millitíðinni taka okkur saman í andlitinu og spyrja okkur þessarar spurningar: Hvernig og hvaða framleiðslu ætlumst við Íslendingar til að landbúnaður standa fyrir?

Við hljótum að vilja standa við bakið á landbúnaðinum, ég hef ekki heyrt neinn koma hér upp í ræðu og andmæla því. En misjafnar eru leiðirnar, það er alveg augljóst. Inn í þessa umræðu blandast mikið loftslagsmál og aðgerðir í loftslagsmálum í landbúnaði.

Þar tala ég fyrir því og við í mínum flokki að þær aðgerðir þurfa að vera í formi hvata, í þessu tilfelli til bænda svo að þeir hafi hvata til að vinna með þeim sem um þessi mál fjalla, þ.e. vísindamenn og fleiri, svo fólk geti unnið saman að því að koma þessum málum í jörð, ef við getum sagt svo.  Þannig að landbúnaður þarf að fá skýra línu hjá okkur stjórnmálamönnum svo að hægt sé að standa styrkum fótum við bakið á honum."

Upptöku úr þingsal má sjá hér