Lagagrundvöllur reglugerðar heilbrigðisráðherra

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn að dómsmálaráðherra á Alþingi í dag varðandi lagagrundvöll reglugerðar heilbrigðisráðherra sem dæmd var ólögleg í héraðsdómi í liðinni viku:

Virðulegur forseti. Ég vil við þetta tækifæri beina fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra er varðar lagagrundvöll reglugerðar hæstv. heilbrigðisráðherra sem dæmd var ólögleg í héraðsdómi hér í liðinni viku eins og allir þekkja. Það er nú margt undarlegt í þessu máli og enn undarlegra varð það nú þegar maður las Morgunblaðið í morgun þar sem flaut upp lögfræðileg álitsgerð sem unnin var fyrir hæstv. dómsmálaráðherra og skilað þann 3. apríl síðastliðinn, sem virðist hafa verið sú álitsgerð sem mest vit var í þegar á reyndi. Það skilur eftir opnar þær spurningar hvernig haldið hefur verið fram að full sátt hefði verið um þetta mál í afgreiðslu ríkisstjórnar áður en reglugerðin er sett. Tekur hæstv. dómsmálaráðherra undir að svo hafi verið? Og ef svo er, hvað varð þess þá valdandi að hæstv. dómsmálaráðherra lætur vinna þessa álitsgerð, sem er dagsett 3. apríl síðastliðinn? Voru það þær efasemdir sem var þá ekki lýst á ríkisstjórnarfundinum eða eitthvað annað sem orsakaði að þetta minnisblað var unnið, eða þessi lögfræðilega álitsgerð?
Hitt atriðið sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í er hvort ráðherrann kunni skýringu á því hvers vegna þetta lögfræðilega álit var ekki hluti af þeim gögnum sem velferðarnefnd fékk afhent hér fyrir nokkrum dögum síðan frá heilbrigðisráðherra þar sem skilningur nefndarmanna var, leyfi ég mér að fullyrða, að þar hefðu öll gögn sem hefðu grundvallað setningu þessarar reglugerðar verið birt. Síðan flýtur þetta upp á blaðsíður Morgunblaðsins nokkrum dögum síðar. Kann hæstv. ráðherra skýringar á þessu fyrir okkur?

Upptöku af fyrirspurn Bergþórs og svar ráðherra má sjá hér