Sérhæfð sérdeild fyrir einhverf börn

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, spurði mennta- og menningarmálaráðherra í dag um afstöðu hennar á máli einhvers barns um fyrirhugaða synjun þess um skólavist í sérhæfðri sérdeild sem Ólafur hefur haft til umfjöllunnar undanfarið

"Áhyggjufullir foreldrar einhverfs barns sneru sér til mín fyrir skömmu og sýndu mér bréf Reykjavíkurborgar vegna barns síns sem fætt er árið 2015 og á því að byrja grunnskólagöngu sína í haust. Fyrir liggur niðurstaða Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um að barninu sé best borgið í sérdeild fyrir einhverfa og þar var sótt um fyrir barnið. Foreldrunum barst svar frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar 21. apríl með eftirfarandi yfirskrift, með leyfi forseta:

„Fyrirhuguð synjun umsóknar um skólavist í sérhæfðri sérdeild fyrir einhverfa nemendur.“

Í bréfinu kemur fram að sótt hafi verið um fyrir 38 nemendur í sérdeildum en aðeins átta pláss séu til ráðstöfunar.

Í lögum um grunnskóla segir um rétt nemenda, með leyfi forseta:

„Allir nemendur grunnskóla eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan.“

Fyrirhuguð synjun um skólavist í sérhæfðri sérdeild fyrir einhverfa nemendur fer í bága við þetta afdráttarlausa ákvæði grunnskólalaga. Samkvæmt lögum um grunnskóla er sú kennsla á ábyrgð og kostnað sveitarfélags þar sem barnið býr, Reykjavíkurborgar í þessu tilfelli. Menntamálaráðuneyti hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem grunnskólalögin kveða á um. Ráðherra skal á þriggja ára fresti leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum landsins.

Af þessu tilefni spyr ég hæstvirtan ráðherra, í fyrsta lagi: Hver eru viðbrögð ráðherra við tilvitnuðu bréfi borgaryfirvalda?

Í öðru lagi: Hefur hæstvirtur ráðherra gripið til aðgerða vegna málsins, sem snertir a.m.k. 30 börn, eða áformar hæstvirtur ráðherra aðgerðir á næstunni?

Og loks: Hvert er að dómi hæstvirts ráðherra inntak þeirrar eftirlitsskyldu sem lögin leggja ráðherra á herðar?"

Fyrirspurn Ólafs í þingsal má sjá hér