Sundabraut

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók þátt í störfum þingsins á Alþingi í dag og ræddi þar Sundabraut og mikilvægi hennar. 

Herra forseti. Nú hefur birst skýrsla sem sýnir það sem flestir vissu nú líklega fyrir, nema hugsanlega borgarstjórinn í Reykjavík og samgönguráðherrann, að Sundabraut sé gríðarlega hagkvæm framkvæmd og hagkvæmnin nemi jafnvel á þriðja hundrað milljörðum kr. Engu að síður hefur markvisst verið þvælst fyrir þessari framkvæmd. Það hafa oft komið yfirlýsingar frá núverandi ríkisstjórn, og jafnvel að einhverju leyti frá borgaryfirvöldum, um áform um Sundabraut, en ekkert hefur gengið eftir í þeim efnum. Má reyndar fara lengra aftur í tímann og sjá hversu treglega hefur gengið að standa við fyrirheit um þessa hagkvæmu framkvæmd, en það er ekki hvað síst vegna andstöðu borgarinnar við þessa framkvæmd. Það er ekki hægt að líta aðgerðir borgarinnar, sem margar eru til þess fallnar að þvælast fyrir þessari framkvæmd, öðruvísi en svo að þar sé um hreina andstöðu að ræða.
Það sama birtist hvað varðar aðrar fyrirhugaðar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu, jafnvel þær framkvæmdir sem var sérstaklega samið um í svokölluðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, þar sem ríkisstjórnin tók að sér að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík um borgarlínu gegn því að fá þá að ráðast í aðrar arðbærar nauðsynlegar framkvæmdir til að bæta ástand umferðar á höfuðborgarsvæðinu. Að minnsta kosti tveir formenn skipulagsráðs Reykjavíkur hafa síðan lýst andstöðu við þessi verkefni, þessi raunverulegu úrbótaverkefni, á meðan öll áhersla, með stuðningi ríkisstjórnarinnar, er lögð á hina mun síður hagkvæmu borgarlínu. Ég tel því rétt að þingið fari að fylgja þessum málum betur eftir og ýti á að ráðist verði í þessa mikilvægu framkvæmd, Sundabraut.

Ræðuna má sjá hér