Sigmundur tók til máls í störfum þingsins í vikunni og kallaði þar eftir viðbrögðum stjórnvalda við hækkanir á nauðsynjavörum.
Herra forseti. Miklar hækkanir á nauðsynjavörum kalla á viðbrögð stjórnvalda. Til að mynda eru olía og bensín komið í hæstu hæðir. Þar er gjaldtaka ríkisins hátt í 60%, nærri 60% af verðinu. Það má segja að ríkið græði að miklu leyti á verðhækkunum á heimsmörkuðum. Það er því tilefni til að ráðast í endurskoðun á gjaldtöku á eldsneyti, þó ekki væri nema tímabundið, til að draga úr þeim áhrifum sem ella verða á lífskjör almennings í landinu. Skattar eins og þessir virka að miklu leyti eins og nefskattur. Það þurfa jú allir að komast leiðar sinnar og flestir gera það á sínum bíl eða með strætisvagni, sem notar líka eldsneyti, svoleiðis að ríkið þarf að grípa inn í þar sem það getur komið að gagni við þetta alvarlega ástand sem blasir nú við. Það sama á við á húsnæðismarkaði, fasteignamarkaði, þar sem er í raun ófremdarástand, ástand sem kallar á inngrip ríkisins í formi m.a. lægri gjaldtöku af framkvæmdum til að lækka byggingarkostnað húsnæðis. Svo bætist auðvitað við sá mikli lóðaskortur sem hefur sett verulegt strik í reikninginn, sérstaklega hérna í Reykjavík. Ég heyri að þingmenn stjórnarliðsins eru nú hver á eftir öðrum að átta sig á að það þurfi aukna orkuframleiðslu hér samhliða áformum um kolefnishlutleysi, orkuskipti. Ég hefði talið eðlilegra að menn skoðuðu það samhliða því að þeir bjuggu til þessar tillögur sínar en þær voru ekki heildartillögur, þær voru fyrst og fremst ætlaðar til að vekja „jákvæða umræðu“. En hér þurfum við á sviði orkumála, á sviði fasteignamála að bregðast hratt við. Nú getum við ekki beðið lengur með það, herra forseti.
Ræðuna má sjá hér