Frumvarp um neysluskammta

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins í störfum þingsins þann 11. maí:

"Fyrir Alþingi liggur frumvarp ríkisstjórnarinnar um að kaup og varsla á takmörkuðu magni ávana- og fíkniefna, svokallaðra neysluskammta, verði heimiluð. Rétt í þann mund sem þjóðin er að brjótast út úr veirufaraldrinum áformar ríkisstjórnin að efna til eiturlyfjafaraldurs sem mun koma þyngst niður á ungu fólki. Læknar og lögregla leggjast fast gegn frumvarpinu. Embætti landlæknis ítrekar nauðsyn þess að meta áhrif, bæði tilætluð og óvænt. Tillaga sem þessi muni hafa áhrif á aðra einstaklinga og hópa en tilgreindir séu í frumvarpinu. Landlæknisembættið bendir á að í frumvarpinu komi hvergi skýrt fram tillaga eða áætlun um auknar forvarnir. Í niðurlagi spyr embættið: Hver er ávinningurinn með þessari breytingu? Læknafélag Íslands bendir á að hvergi í frumvarpinu sé gert ráð fyrir neinum hliðaraðgerðum sambærilegum þeim sem gripið hefur verið til í öðrum löndum sem hafa farið þá leið að lögleiða neyslu fíkniefna. Þá bendir Læknafélagið á að frumvarpið geri ekki tilraun til að skilgreina hvað sé neysluskammtur. Að mati ríkislögreglustjóra er með því að gera vörslu fíkniefna refsilausa gengið lengra en markmið frumvarpsins er, þ.e. hin svokallaða afglæpavæðing neysluskammta til eigin nota. Ríkislögreglustjóri leiðir í ljós að í þeim ríkjum sem talin eru hafa hvað mildasta löggjöf um fíkniefni er varsla fíkniefna refsiverð. Lögreglustjórinn á Norðurlandi segir, með leyfi forseta:

„Það er mat embættisins að hörðum refsingum sé ekki beitt fyrir vörslu fíkniefna á Íslandi. Þá er á það bent að neysla er ekki óheimil heldur varsla, sala, kaup o.s.frv.“

Af síðasttöldu umsögninni sést að frumforsenda málsins, að hverfa beri frá hörðum refsingum, stenst ekki. Þær eru ekki fyrir hendi. Samþykkt frumvarpsins væri eins og villidýri væri sleppt lausu á æskulýð landsins. Slíku slysi verður að afstýra."

Ræðu Ólafs í þingsal má sjá hér