Starfslokaaldur ríkisstarfsmanna

Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður beindi eftirfarandi fyrirspurn til efnahags- og fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag:

Við þinglok í fyrra var frumvarpi, sem undirritaður hafði lagt fram á þremur þingum þar á undan, um að starfslokaaldur ríkisstarfsmanna gæti orðið allt að 73 ár, ef þeir kysu svo, vísað til ríkisstjórnar sem hluta af samkomulagi um þinglok, gegn því loforði að á síðast haustþingi kæmi fram frumvarp sama efnis frá ríkisstjórninni, frá fjármálaráðherra. Eins og sjá má, af því að í dag er 21. apríl, hefur sá sem hér stendur sýnt nokkra biðlund og ekki verið að æsa sig mikið yfir því að frumvarpið er ekki fram komið. En svo vill til að einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, lagði fram nánast samhljóða frumvarp nú á útmánuðum, sem bendir til þess að hún hafi minna traust á loforðum hæstv. fjármálaráðherra en sá sem hér stendur.

Ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra:  Hvað dvelur þetta frumvarp, sem var í eðli sínu, eins og frá því var gengið í fyrra, mjög einfalt?

Ég spyr líka að því vegna þess að framganga ráðherra í þessu máli til þessa gæti mögulega spillt fyrir þinglokum nú í vor, þ.e. það frumvarp, sem lofað var um leið og frumvarpi mínu var vísað til ríkisstjórnar fyrir ári síðan að kæmi fram, hefur ekki komið fram.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað dvelur þetta mál og hvenær kemur það fram?