Garðyrkjuskóli ríkisins

Karl Gauti Hjaltason beindi fyrirspurn sinni um flutning starfsnáms í garðyrkju frá Landbúnaðarháskólanum yfir í Fjölbrautaskóla Suðurlands.

"Spurningar mínar snúa að þeirri nýlegu ákvörðun hæstvirts ráðherra að flytja starfsnám garðyrkju frá Landbúnaðarháskólanum undir Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þær snúa að því hvernig sú færsla gangi og hvort þess sé tryggilega gætt að náið og gott samráð sé haft við Garðyrkjuskólann á Reykjum. Svo virðist sem einhugur sé um að stórefla innlenda framleiðslu í garðyrkju og landbúnaði, ekki hvað síst í því ástandi sem við höfum verið að ganga í gegnum að undanförnu. Á sama tíma er ánægjulegt að fá fréttir af því að garðyrkja í landinu sé í miklum uppgangi, sannur vaxtarbroddur atvinnulífs og sjálfbærni.

Garðyrkjuskólinn hefur í áratugi verið sannkallað stolt Hveragerðis og Ölfuss og Suðurlands alls. Svo var einnig með Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Við þekkjum afdrif hans og því er það ekki að ástæðulausu sem fólk á Suðurlandi hefur áhyggjur af framtíð garðyrkjunámsins á Reykjum. Garðyrkjuskólinn á ekki skilið að lenda á hrakhólum. Slíkt er mikilvægi námsins, starf skólans og saga hans.

Ég vil spyrja: Er hæstvirtur ráðherra tilbúinn til að tryggja framtíð starfsmenntanáms í garðyrkju á Íslandi með því að fela garðyrkjuskólanum umsjón og staðarhald á Reykjum í virkri samvinnu og samráði við forsvarsmenn atvinnulífs garðyrkjunnar og starfsfólk og nemendur á staðnum og í sérstökum tengslum við Fjölbrautaskóla Suðurlands?"

Upptaka af fyrirspurn Karl Gauta úr þingsal og svar ráðherra má sjá hér