Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins í suðurkjördæmi, tók til máls í störfum þingsins í dag og ræddi um að ljúka þurfi úttekt á Landeyjahöfn sem fyrst og að fullkanna þurfi möguleikann á göngum milli lands og eyja:
Ég ætla að ræða nýlega áskorun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 15. apríl um samgöngumál. Bæjarstjórnin, sem öll stendur að baki áskoruninni, vekur athygli á að ljúka þurfi að fullu úttekt á Landeyjahöfn og fullkanna möguleikann á gerð ganga milli lands og Eyja. Bent er á óvissu í almennu flugi til Vestmannaeyja. Þjónusta sjúkraflugs við Vestmannaeyjar er ekki boðleg. Eftir að sjúkraflugið fyrir Eyjar fluttist til Akureyrar hefur viðbragðstíminn lengst mjög og er óásættanlegur fyrir íbúa, sérstaklega eftir að skurðstofunni á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum var lokað. Tilvist hennar var einmitt ein af forsendum fyrir flutningi sjúkraflugsins frá Eyjum. Raunin varð sú að Eyjamenn misstu bæði sjúkraflugið og skurðstofuna og mega búa við það síðan. Nýr Herjólfur hefur fyllilega staðist væntingar og rafvæðing skipsins er ánægjuleg á margvíslegan máta. Höfnina í Landeyjum þarf að klára. Ljúka þarf við úttekt á henni svo að unnt verði að ráðast í umbætur til að hún nýtist eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Ferðir um höfnina falla niður endrum og eins vegna ölduhæðar. Finna þarf lausn á því vandamáli.
Áskorun bæjarstjórnar Vestmannaeyja snerist einnig um að ganga þyrfti í það verk að ljúka rannsókn á berglögunum milli lands og Eyja. Tekið skal undir það með bæjarstjórn. Auðvitað er brýnt að ráðist verði í að ljúka rannsóknum á berglögunum við Eyjar. Þá verði sérstaklega skoðað hvort leiðin vestur úr Eyjum upp að Krossi sé jarðfræðilega fýsileg og í framhaldinu gert hagkvæmnismat á þeirri leið og metið hvort hún sé fjárhægslega raunhæfur kostur fyrir framtíðarsamgöngur til eyjanna. Á það má benda að tækniþróun og þekking hefur stóraukist frá því að opinber umræða um göng milli lands og Eyja átti sér stað fyrir 15 árum. Í því sambandi skiptir máli að litið sé til þess hvað sparast; kostnaður við ferjur, dýpkun, allt viðhald og auðvitað endurnýjunarþörf allra lagna til Eyja, rafmagns- og vatnslagna, fyrir utan óvissuna og óöryggið. Færeyingar eru ekki í vandræðum með gangagerð. Austureyjargöngin í Færeyjum eru 11,2 km, Sandeyjargöngin eru 10,8 km og Suðureyjargöngin undir hafi eru 26 km.
Ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér