Hertar sóttvarnarreglur - umræður á Alþingi

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, í umræðum um munnlega skýrslu heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnarreglur:

"Upplýsingaóreiðan heldur áfram í þessum málaflokki. Bara í gær bárust fréttir af því að von væri á miklu minni skammti af Jansen-bóluefni en gert hafði verið ráð fyrir, bara broti af því sem búist var við. Svo koma einhverjar aðrar fréttir í dag. En það sem skiptir máli er það sem skilar sér og að Ísland hafi aðstöðu til að tryggja sér það bóluefni sem þarf og til að nýta sérstöðu sína í þeim efnum. Ég hef heyrt ráðherra lýsa áhuga á Spútnik-bóluefninu áður, en hvað er raunverulega að gerast í þeim málum? Hæstv. ráðherra segir að viðræður séu á byrjunarstigi en fyrri yfirlýsingar, m.a. hæstv. forsætisráðherra, benda ekki til annars en að menn séu bara að bíða eftir því að heyra frá Evrópusambandinu um hvenær Spútnik komi hugsanlega inn í Evrópupakkann. Er verið að reyna að semja um kaup á þessu Spútnik-efni eða öðru efni fyrir alla þjóðina utan við Evrópusambandsklúðrið?"

Hvað með yngra fólk með undirliggjandi sjúkdóma sem þó er í forgangi, verður það sett undir AstraZeneca bólusetningu eður ei? Hefur komið til tals að gera líkt og Bretar hafa gert, að hálfbólusetja fleiri þannig að einhverjir séu búnir að mynda ákveðna vörn? AstraZeneca gefur okkur 76% virkni.

Að lokum langar mig aðeins að spyrja út í þessa frétt sem birtist núna um að það sé smit utan sóttkvíar sem tengist gosstöðvunum. Mig langar sérstaklega að koma inn á þetta vegna þess að þar er sameiginlegur snertiflötur sem er kaðall. Þar er ekki stýrð umferð, þar er ekki sótthreinsað, þar er fólk ekki í hólfum, það eru ekki fjöldatakmarkanir, þar er ekki grímuskylda, þar er ekki 2 metra regla eða því er alla vega ekki fylgt eftir. En þessu mega skíðasvæði landsins sæta og þessi sömu skíðasvæði fá ekki að hafa opið þrátt fyrir að vera með alla umgjörð í lagi."

Fyrri ræðu Önnu Kolbúnar í umræðum á Alþingi má sjá hér

Seinni ræðu Önnu Kolbrúnar má sjá hér