Hörð viðbrögð samfélagsins við frumvarpi heilbrigðisráðherra sem heimilar kaup og vörslu á neysluskömmtum fíkniefna

Ólafur Ísleifsson ræddi í störfum þingsins á Alþingi um frumvarp heilbrigðisráðherra sem heimilar kaup og vörslu á neysluskömmtum fíkniefna og þau hörðu viðbrögð sem frumvapið hefur kallað fram í samfélaginu: 

"Herra forseti. Frumvarp heilbrigðisráðherra um að heimila kaup og vörslu á neysluskömmtum ávana- og fíkniefna hefur kallað fram hörð viðbrögð í samfélaginu. Rakið er í umsögnum lögreglu um frumvarpið að ekki verði talið að hörð refsistefna ríki hér á landi þegar kemur að refsingu fyrir vörslu neysluskammta, í raun þvert á móti. Samtökin Fræðsla og forvarnir, FRÆ, benda í umsögn á þá staðreynd að afglæpavæðing sé iðulega undanfari endanlegrar lögleiðingar ávana- og vímuefna. Þetta hafi reynst raunin í þeim löndum þar sem þessi skref hafi verið stigin sem og í ýmsum ríkjum Bandaríkjanna sem hafi lögleitt fíkniefni. FRÆ bendir réttilega á í umsögn sinni að kalla þurfi eftir skýringum á því við umfjöllun málsins hvort lögleiðing fíkniefna sé hið endanlega markmið með því skrefi sem hér er leitast við að stíga. Samtökin spyrja með leyfi forseta: „Verður næsta skrefið mögulega það að heimila þurfi innflutning og sölu ávana- og vímuefna þar sem það sé ótækt að heimilt sé að kaupa þau og eiga en ekki flytja inn, framleiða og selja?“

Um tegundir efna segir lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, með leyfi forseta: „Þá þykir of langt gengið með frumvarpinu þar sem það tekur til allra tegunda fíkniefna en ekki einstakra efna.“ Þá segir að varsla neysluskammta allra efna t.d. kókaíns, amfetamíns, MDMA, heróíns, metamfetamíns, krakks o.fl. verði gerð refsilaus á einu bretti. Embættið varar við þessu.

Verði frumvarpið að lögum skapast ástand sem við hljótum öll að vilja varast, ekki síst ef frumvarpið felur í sér fyrsta skrefið að lögleiðingu fíkniefna eins og erlend reynsla hefur sýnt. Er þetta framtíðarsýn sem okkur hugnast?

Að lokum, herra forseti. Ef til vill upplýsir hæstv. heilbrigðisráðherra við hentugt tækifæri hvernig frumvarp hennar gagnist í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi sem rædd verður hér undir næsta dagskrárlið."

Ræðu Ólafs í þingsal má sjá hér