Innlend grænmetisframleiðsla

Karl Gauti Hjaltason, alþingismaður, tók til máls í Störfum þingsins í dag og ræddi um innlenda grænmetisframleiðslu.

"Herra forseti. Ég ætla að ræða aðeins innlenda grænmetisframleiðslu. Tilefnið er upplýsingar í ársskýrslu Matvælastofnunar fyrir árið 2019, en þar greindi stofninn frá skoðun á varnarefnum í innfluttu grænmeti og ávöxtum. Það voru að mörgu leyti sláandi niðurstöður sem þarna komu fram. Það fundust leifar af ýmiss konar varnarefnum, sem gætu þá verið skordýraeitur eða illgresiseyðir, sveppalyf eða önnur stýriefni í allt að 5% tilvika þegar ávextir voru rannsakaðir, og síðan í 10% sýna af spínati frá Bandaríkjunum. Hvaða ávextir voru þetta eða grænmeti? Þetta voru t.d. spínat, kiwi, appelsínur. Klementínur komu verulega á óvart. Meira að segja fundust leifar þessara efna í lífrænt ræktuðu grænmeti frá Evrópu og einnig kom fram að það fundust engin slík efni í innlendu grænmeti.

Mikilvægasta skýringin á því er auðvitað hreinleiki íslenska vatnsins. Í þessu sambandi ber að nefna að það er nauðsynlegt að vernda neytendur. Einn þáttur í því er auðvitað merkingar, að það séu greinilegar merkingar á vörum eins og grænmeti, það komi fram þar og þær séu auðsjáanlegar. Í þessu ástandi hafa grænmetisframleiðendur hér á landi og aðrir innlendir framleiðendur á því sviði tekið vel í áskoranir stjórnvalda og okkar um að auka framleiðslu á þessum vörum og stórauka framleiðsluna. Nýlegar fregnir um næga raforku í landinu leiða líka hugann að því að ríkið þarf að taka til hendinni og lækka raforkuverð til þessara framleiðenda, til að þeir geti spýtt í og framleitt þessar hollu vörur, eins og kemur svo berlega fram að þær eru í skýrslu Matvælastofnunar."

Upptöku af ræðu Karls Gauta úr þingsal má sjá hér