Íþyngjandi regluverk

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins beindi eftirfarandi fyrirspurn að efnahags- og fjármálaráðherra á Alþingi í dag:

"Á undanförnum árum hafa streymt frá fjármálaráðuneytinu frumvörp og reglur sem gera fyrirtækjum erfiðara að starfa og var þó orðið erfitt fyrir að fást við kerfið. Það er varla hægt að reka lítið fyrirtæki á Íslandi nú til dags nema vera með sérfræðinga í vinnu við að fást við það. Er ekki orðið tímabært að mati hæstvirts ráðherra að stemma stigu við þeirri þróun og snúa henni við?

Ég ætla að nefna raunverulegt dæmi af litlu fyrirtæki á landsbyggðinni, bara örlítið sýnishorn af nýjum kvöðum sem leggjast á það fyrirtæki, brot af tékklistanum, ekki kröfunum sem þarf að uppfylla til að klára tékklistann.

Þar segir í skilaboðum frá stjórnvöldum, með leyfi forseta:

„Hver var heildarfjöldi viðskiptavina þinna á árinu 2020?

Tengjast viðskiptavinir þínir eða viðskipti þeirra við aðra?

Eða telur þú að þeir tengist eftirfarandi: Rekstri þar sem notkun reiðufjár er algeng, svo sem veitingahúsum, börum, ferðaþjónustu, hótelum og þess háttar, góðgerðarstarfsemi eða öðrum samtökum sem ekki voru rekin í hagnaðarskyni og stunduðu starfsemi yfir landamæri, rekstri sem tengist kynlífsiðnaði eða mansali á einhvern hátt, aðila sem tengist skipulagðri brotastarfsemi?

Er búið að gera áhættumat vegna peningaþvættis í samræmi við 5. gr. laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka?

Er gerð áreiðanleikakönnun á viðskiptavinum við upphaf viðskipta?

Er áreiðanleikakönnunin yfirfarin með reglubundnum hætti eftir að til viðskiptasambands hefur verið stofnað?

Hafa starfsmenn hlotið þjálfun í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka?

Er þér kunnugt um skyldur þínar samkvæmt lögum nr. 64/2019, um frystingu fjármuna og skráningu aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna?

Er þér kunnugt um rannsóknar- og tilkynningarskyldu þína í samræmi við lög nr. 140/2018?“

Svona heldur það bara áfram, herra forseti. Þetta eru nýjar kvaðir, bara örlítið brot af þeim, á lítið fyrirtæki á landsbyggðinni á Íslandi og það sama á væntanlega við um sams konar smáfyrirtæki um allt land."

Fyrirspurn Sigmundar Davíðs í þingsal má sjá hér