Ítrekað eiga sér reglugerðir ráðherra ekki stoð í lögum

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, ræddi í störfum þingsins í dag um gangverkið varðandi lög og reglugerðir og benti á að ítrekað hafa reglugerðir heilbrigðisráðherra ekki átt sér stoð í lögum.

Herra forseti. Ég ætla að fjalla örlítið um gangverkið varðandi lög og reglugerðir í samhengi við lýðræðisskipulagið sem við búum við. Alþingi setur lög með ákveðnum hætti og með þeim reglum sem um það gilda. Lögin mega vitaskuld ekki fara í bága við ákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins. Lögin setja t.d. framkvæmdarvaldinu skorður. Þannig verða þær reglugerðir sem stafa frá ráðherrum í ríkisstjórn að eiga sér viðhlítandi lagastoð. Þær verða að styðjast við lög og mega vitaskuld ekki vera í andstöðu við ákvæði laga. Litið hefur verið svo á að það sé alvarlegt ef hæstv. ráðherrar ríkisstjórnar virða ekki landslög með þessum hætti. Nýverið úrskurðaði héraðsdómur að ríkinu hafi ekki verið heimilt að skylda fólk í sóttkvíarhótel, eins og kveðið var á um í reglugerð hæstv. heilbrigðisráðherra. Með öðrum orðum var niðurstaðan sú að ákvæði í reglugerð hæstv. heilbrigðisráðherra ætti sér ekki stoð í lögum.
En sjaldan er ein báran stök, herra forseti. Það er nefnilega ekkert nýtt að ráðherrann stjórni sínum málaflokki með setningu reglugerða sem ekki hafa fullnægjandi lagastoð. Í Morgunblaðinu í morgun er fjallað um fyrirhugaða breytingu á reglugerð hæstv. heilbrigðisráðherra um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna og efasemdir um að ákvæði reglugerðarinnar eigi sér viðhlítandi lagastoð. Dögg Pálsdóttir, lögfræðingur Læknafélags Íslands, fjallaði um þetta í grein í Læknablaðinu nýlega þar sem hún segir a.m.k. tvö ákvæði reglugerðarinnar um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna hafi skort viðhlítandi lagastoð á þeim tíma sem reglugerðin var sett. Nefnir hún 7. gr., um skyldu sérgreinalækna til að veita Sjúkratryggingum Íslands upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru vegna eftirlitshlutverks Sjúkratrygginga. Í grein sinni segir Dögg að engin lagastoð hafi verið fyrir þessu ákvæði reglugerðarinnar á þeim tíma, sú stoð hafi fyrst komið inn með lögum nr. 92/2020. Þá nefnir hún einnig 5. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um að til að sjúkratryggðir njóti sjúkratryggingaréttar síns beri veitanda heilbrigðisþjónustu að skila reikningsupplýsingum til Sjúkratrygginga á því formi sem stofnunin ákveður, en fyrir því sé engin lagaheimild.
Herra forseti. Er það boðlegt í lýðræðisríki að hæstvirtur ráðherra leitist við að stjórna sínum málaflokki ítrekað með reglugerðum sem ekki eiga sér stoð í lögum?

Ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér